Vinsælustu fjöll á Suðurlandi.
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi.
Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó.
View
Systrafoss
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Neðarlega í gilinu er gríðarstór steinn, Fossasteinn, sem hrapaði úr fjallinu í miklu þrumuveðri um 1830. Falleg gönguleið er upp á brúnina og þar er hægt að ganga 5 km hringleið, Ástarbrautina. Gengið er uppi á fjallsbrúninni til austurs, niður af heiðinni og að Kirkjugólfinu. Uppi á fjallinu er er stórbrotið útsýni. Þar er líka listaverkið Gullmolinn sem minnir okkur á litlu heimarafstöðvarnar sem gáfu fólki ljós og yl á tuttugustu öldinni.
Skógurinn við Systrafoss er frá því 1945. Skógarstígurinn er hringleið í skóginum þar sem einn viðkomustaðurinn er Sönghellir. Við skógarstíginn er merkt hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem er nærri því að verða 30 metra hátt.
View
Bláhnúkur í Landmannalaugum
Líparítfjall (943 m y.s.) við Landmannalaugar. Bláhnúkur er litfagur, venjulega með fannarblesu. Talið er að hann hafi orðið til við gos undir jökli. Í honum ber mikið á svörtum, stuðluðum biksteinseitlum og grænum og gráum glersalla. Nafnið gaf Pálmi Hannesson.
View
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.
Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.
View
Öræfajökull
Hæsta fjall landsins (2110 m y.s.), suður úr Vatnajökli miðjum, eldkeila. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrir ofan 1000 m hæð er fjallið jökli hulið nema nokkrir klettaveggir í tindum, neðar bungar það út í meira og minna sjálfstæð randfjöll og verður því mikið um sig. Er það og annað stærsta virka eldfjall í Evrópu, næst Etnu á Sikiley, þvermál við rætur yfir 20 km og grunnflötur nær 400 km² en rúmtak nálægt 370 km³.
Öræfi og Öræfajökull eru nöfn sem urðu til eftir eyðingu byggðar af völdum goss í fjallinu 1362 er áður hét Knappafell. Fer það nafn því vel, dregið af tindum þeim sem sitja á barmi öskjunnar í kolli þess og mest ber á frá suðri en tveir þeirra heita Knappar og þar af leiðir bæjarnafnið Hnappavellir. Hvannadalshnjúkur á vesturbrún öskjunnar er hæstur allra tindanna og rís um 300 m yfir marflata hjarnsléttu öskjunnar. Hann er úr líparíti.
Mikill gígur eða ketilsig er í kolli fjallsins, sporöskjulaga, nær 5 km á lengri veginn og um 12 km² að flatarmáli. Að sjálfsögðu er hún full svo að flóir út af enda bætist á jökulinn allt að 10 m af snjó árlega sem samsvarar yfir 4000 mm ársúrkomu og er hún hvergi meiri hér á landi. Um dýpstu skörðin í börmum öskjunnar skríður jökullinn án afláts og myndar skriðjökla, sem falla úr 1800 m hæð alla leið niður á láglendið. Í bröttum hlíðum verða réttnefndir jökulfossar og heitir Falljökull einn hinn mesti þeirra. Aðrir stórjöklar utan í fjallinu eru Kvíárjökull og Fjallsjökull til suðausturs og hinn mikli Svínafellsjökull sem fellur til vesturs frá Hvannadalshnúki.
Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið er mesta vikurgos sem orðið hefur hér á landi síðan um 800 f.Kr., gjóska áætluð um 10 km³. Gosinu fylgdi ógurlegt vatnsflóð með jakaburði og tók af marga bæi en byggð lagðist í auðn um sinn.
Seinna gosið stóð nærfellt í ár, ákafast fyrstu 3 dagana með öskufalli og myrkri svo að vart sá skil dags og nætur. Drengur fórst og konur tvær sem voru í seli frá Sandfelli, einnig fórst margt búfjár en ekki tók af bæi. Mikið hlaup lagðist þó í fyrstu heim að Sandfelli og austur með Hofi og er þar enn ummerki að sjá, til dæmis báðum megin Kotár, Háöldu að vestan, með stóru, friðlýstu jakafari, og Svartajökul og Grasjökul að austan.
Engin sögn er um ferð á Öræfajökul fyrr en 11. Ágúst 1794 er Sveinn Pálsson gekk á jökulinn frá Kvískerjum. Í þeirri ferð mun hann einna fyrstur manna í heiminum hafa gert sér grein fyrir að skriðjöklar hreyfast eins og seigfljótandi efni sem hnígur undan eigin þunga. Þarna hafði hann góða yfirsýn, meðal annars yfir Fjallsjökul, veitti athygli “árhringum” skriðjökulsins, svigðum eða skárum, og dró réttar ályktanir af því sem hann sá.
Fyrstur til að ganga á Hvannadalshnjúk varð norskur landmælingamaður, Hans Frisak, ásamt Jóni Árnasyni, hreppstjóra á Fagurhólsmýri, sem hann fékk til fylgdar 19. Júlí 1813. Svo leið fram undir aldamót að enginn lék þetta eftir þar til F.W. Howell gekk á Hvannadalshnjúk 1891 ásamt tveim fylgdarmönnum frá Svínafelli. Úr því fór ferðum að fjölga og þykir það nú ekki lengur tíðindum sæta að ganga á hæsta tind Íslands.
Skaftafellsstofa
View
Hrafntinnusker
Hrafntinnusker við Torfajökul Fjall (1128 m y.s.) við Austur-Reykjadali, austan við Heklu. Þangað má komast langleiðina á bílum og er þá sveigt af Landmannaleið við Sátubarn. Einnig má aka þangað af Fjallabaksvegi syðri við Laufafell. Útsýn er víð og mikil af Hrafntinnuskeri.
Umhverfis fjallið, einkum að vestan, er mikið hverasvæði. Þar eru gufuhverir, marglitir leirhverir og vatnshverir sem sumir eru sígjósandi og sums staðar undir jökli. Myndast þar íshellar stórir og smáir. Litafegurð á þessu svæði er fjölbreytileg.
Austan við Hrafntinnusker er sæluhús Ferðafélags Íslands, á “Laugavegi”, gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur, reist 1977. Það rúmar um 20 manns.
HrafntinnuhraunLíparíthraun norðvestan undir Hrafntinnuskeri. Þar eru í rauninni fleiri en eitt hraun, misgömul. Talið er líklegt að yngsta Hrafntinnuhraunið hafi runnið eftir að land byggðist. Í því er stór, hringlaga gígur með lágum börmum en í miðju hans hefur bergkvikan hrúgast saman yfir upprásinni og er það vísir að hraungúl.
Í Hrafntinnuhrauni hefur stundum verið tekin hrafntinna til skreytingar húsa, þar á meðal Þjóðleikhússins. Hrafntinnan þarna er mjög margbreytileg. Meðal annars finnst þar holótt og götótt hrafntinna sem líkist svampi í útliti.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
View
Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins.
Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum.
Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni.
Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
View
Lómagnúpur
Lómagnúpur er 688 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður. Stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir. Lómagnúpur tilheyrir landi Núpsstaðar, sem allt er á náttúruminjaskrá.
View
Mýrdalsjökull og Katla
Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá). Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.
View
Hafursey
Hafursey er einstaklega fagurt móbergsfell á norðanverðum Mýrdalssandi. Það skiptist um Klofgil og vesturhlutinn er nefndur Skálarfjall (582m) og hæst ber Kistufell (513m) á austurhlutanum. Þarna er mikið fýlavarp og undirhlíðarnar eru vaxnar kjarri, en þar var skógur áður fyrr.
Eyjan var nýtt til beitar og bændur í Hjörleifshöfða létu fé sitt ganga þar sjálfala allt árið og höfði í seli á sumrin til 1854. Selið í Hafursey er ein af hinum merku söguminjum Íslands en í Kötlugosinu 1755 höfðust þar við sex menn á meðan á goshlaupinu stóð. Þeir rituðu dagsetningu, ártal og fangamörk sín skýru letri í bergvegginn sem blasa við þegar inn er litið.
View
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim.
Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum.
Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
View
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Talið er að stapinn hafi myndast hefur í síðasta kuldaskeiði ísaldar þegar gosið hefur undir ísaldarjöklinum. Líklega hefur hann verið eyja í sjó á fyrri tíðum en orðin landfastur á landnámsöld með fjörð er nefndist Kerlingarfjörður sem fór inn með höfðanum. Í dag er hann hringaður af svörtum söndum sem borist hafa með endurteknum Kötluhlaupum.
Sunnan við Hjörleifshöfða er tangi kenndur við Kötlu og nefnist Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem gífurlegt magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Tanginn er syðsti punktur meginlandsins Íslands þar sem fyrir gos átti Dyrhólaey þann heiður.
Hjörleifshöfði fær nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Fóru þeir tvískipa á leið sinni til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða. Lífið elti Hjörleif ekki á dvöl sinni, en hann var drepinn ásamt mönnum sínum af írskum þrælum sem fylgdu þeim til landsins. Flúðu þeir til Vestmannaeyja með konurnar þar sem Ingólfur fann þá og drap. Á höfðanum er haugur einn og hleðsla þar sem Hjörleifur er talinn grafinn.
Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum upp á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum. Gamla bæjarstæðið er staðsett við áfangastað Kötlu Jarðvangs þegar komið er að Hjörleifshöfða vestan megin.
View
Ingólfsfjall
Ingólfsfjall í Ölfusi er 551m. Ingólfsfjall er hömrum girt á þrjá vegu og mjög hlíðabratt. Þegar sjávarstaða var hæst í ísaldarlok hefur það verið sæbrattur höfði sem brimið braut niður og skapaði þá hinar bröttu hlíðar. Það er tengt Grafningsfjöllum með Grafningshálsi. Ingólfsfjall er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli einkum að neðan og í kolli. Ingólfsfjall hefur orðið til um miðja ísöld. Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Þar suður af er Kögunarhóll og liggur þjóðvegurinn á milli. Ingólfsfjall er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Uppi á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður. Undir Ingólfsfjalli sunnanverðu er Fjallstún.
Í Landnámabók segir að þar hafi Ingólfur Arnarson haft vetursetu hinn þriðja vetur sinn hér á landi á leið sinni til Reykjavíkur. Síðar reis þar stórbýli sem hét Fjall og fór í eyði á 18. öld. Enn sjást leifar fornra mannvirkja á staðnum og eru nú friðlýstar.
Hinn 29. mai 2008 voru upptök Suðurlandsskjálfa að stærðinni 6,3 á richter kvarða undir Ingólfsfjalli.
View