Gullnahringssvæðið nær frá Selvogi vestur af Þorlákshöfn og austur að Hellu, með ströndinni og inná hálendi. Svæðið býður uppá mikinn fjölbreytileika áfangastaða eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysir, sem mynda Gullna hringinn. Einnig má finna Kerið, Hjálparfoss, Gjánna, Urriðafoss og Ægissíðufoss við Hellu. Auk þess má finna falleg svæði inn á hálendi, s.s. Kerlingarfjöll, Kjöl, Sprengisand, Landmannalaugar, Langjökul, Heklu og nærliggjandi svæði, til að nefna einhver. Umvafinn allri þessari fallegu náttúru má njóta ýmis konar afþreyingar, s.s. ýmissa baðstaða, gönguferða, hestaferða, hjólaferða, bátsferða og fjórhjólaferða svo eitthvað sé nefnt. Þá er fjölbreytt menningartengd starfsemi á svæðinu og ýmsir staðir sem bjóða reglulega upp á spennandi viðburði.
Svæðið er sannkölluð matarkista og á sér langa sögu í framleiðslu á mjólkurvörum, kjöti og grænmeti. Á svæðinu má finna mikinn jarðvarma og er hann uppspretta alls kyns framleiðslu og þróunar á svæðinu. Jarðvarminn er t.d. notaður á sundstöðum svæðisins og í orku- og matarframleiðslu.