Matarauður Gullna hrings svæðisins
Gullnahringssvæðið nær frá Selvogi vestur af Þorlákshöfn og austur að Hellu, með ströndinni og inná hálendi. Þau sveitafélög sem eru hluti af Gullnahringssvæðinu eru Árborg, Flóinn, Ölfus, Hveragerði, Uppsveitir Árnessýslu, Rangárþing ytra og Ásahreppur.
Gullnahringssvæðið er mikið matvælaframleiðslusvæði. Svæðið er landbúnaðarsvæði þar sem eru fjölmörg kúabú, fjárbú, svínarækt og kjúklingabú svo að eitthvað er nefnt. Ekki má gleyma garðyrkjunni en á svæðinu er stór hluti af grænmetis- og berjarækt landsins enda gott aðgengi að heitu vatni sem hita upp gróðurhúsin. Einnig er sjómennska stunduð út frá Þorlákshöfn og veiði er í ám og vötnum.
Í Uppsveitum er mikið um jarðhita og er hann forsenda helstu þéttbýliskjarna á svæðinu. Vitundarvakning um ylræktun á Íslandi og uppbyggingin á garðyrkjustöðvum hófust á 4. áratugi síðustu aldar og er garðyrkja stærst á Suðurlandi, eða um 67% ef horft er til rekstrartekna.
Á Selfossi eru öflugar afurðavinnslur sunnlensk landbúnaðar og þjónusta við hann. Þar er til dæmis stærsta mjólkurbú landsins og sláturhús Sláturfélags Suðurlands með úrbeiningu og pökkunarstöð. Mikla nýsköpun og vöruþróun við vinnslu landbúnaðarafurða á Selfossi má eflaust þakka áratuga reynslu, þekkingar og fagmennsku á svæðinu.
Við Þorlákshöfn hefur ávallt verið besti náttúrulegi lendingarstaður á suðurströndinni og því ætíð verið útræði þaðan. Stutt er á fengsæl fiskimið og var oft róið á 30 – 40 skipum frá Þorlákshöfn og margt aðkomufólk var þar yfir vertíð. Enn þann dag í dag er höfnin í Þorlákshöfn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnustarfsemi bæjarins.
Þykkvibær er nú þekktastur fyrir kartöfluræktunina. Hún hófst árið 1934 og tók seinna við af öðrum búskap. Má segja að kartöfluræktunin sé helsti menningararfur Þykkbæinga. Sendni jarðvegurinn og flatlendið hentar vel til kartöfluræktunar. Einnig eru minni líkur á næturfrosti vegna hærri lofthita við strandlengjuna. Þykkbæingar eru einnig þekktir að nýta hrossakjötið og eru nú meðal annars framleiddar skræður úr þurrkuðu hrossakjöti.
Brugghús og sérbrugganir ýmiskonar fyrir veitingastaði hafa rutt sér rúm um Suðurland og eru tvö slík staðsett á Gullnahringssvæðinu.