Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fuglar á Suðurlandi
Suðurland hefur uppá margt að bjóða fyrir fuglaskoðara. Víðáttumikil votlendi, sjófuglabyggðir, hálendisvinjar og óvenjulega fjöru svo dæmi sé tekið. Sjá myndasöfn frá mismunandi svæðum.  Fuglar á Suðurlandi er samstarfsvettvangur aðila sem áhuga hafa á þessu málefni. Bæði taka þátt í verkefninu fyrirtæki í ferðaþjónustu, vísindamenn og einstaklingar með áhuga á fuglum og fuglaskoðun. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Suðurlands 2010 - 2013. Nánar um fugla og fuglaskoðun á Suðurlandi er hægt að finna hér.   
Heinaberg
Heinaberg er fallegt landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem bæði er að finna Heinabergsjökull og jökullónið Heinabergslón. Á sumrin er í boði að sigla á kajak innan um ísjakana í skipulögðum ferðum undir leiðsögn.  Hægt er að komast að Heinabergslón á bíl og er lónið oftar en ekki skreytt stórum ísjökum sem brotnað hafa af Heinabergsjökli. Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk þar sem þar eru margar áhugaverðar gönguleiðir þar sem bjóða gestum upp á að ganga fram á fram á fossa, gil, storkuberg, og jafnvel sjá hreindýr. Malarvegurinn að svæðinu er ekki í þjónustu yfir veturinn og miða þarf aðgengi að svæðinu á þeim tíma við aðstæður hverju sinni.
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.  Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.  Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.  Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
Jökulsárlón
Jöklsárlón er sennilega eitt af kennileitum Suðausturlands, enda einstök náttúrusmíð. Svæðið er einnig aðgengilegt allt árið enda liggur þjóðvegur 1 um Breiðamerkursand og framhjá lónínu. Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017. Jöklsárlón fór fyrst að koma í ljós upp úr 1930, í kjölfar hopunar Breiðamerkurjökuls. Jökulinn var í mestri útbreiðslu (frá landnámi) við lok 19. aldar. Jökulgarðar sunnan við Jökulsárlón eru eftirstandandi sönnunarmerki um hvar jökulsporðurinn lá fyrir meira en 100 árum. Lónið sjálft er afleiðing af greftri Breiðamerkurjökuls, en skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Fyrir miðja 20. öld rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Nú eru amk 8 km frá jökuljaðri og að fjöru. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið. Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin,  Yfir sumarið er boðið uppá fræðslugöngur með landvörðum. Upplýsingar um göngurnar má finna á auglýsingaskilti á aðalbílastæði nálægt kaffiteríu eða á vefsíðu þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður 
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.   Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli. 
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli. Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871. Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.  
Hvalnes
Hvalnes er lítill skagi með svartri smásteina strönd sem nær nokkra kílómetra. Á enda Hvalness prýðir gamall, gulur viti, tilvalinn til myndatöku með stórbrotinni náttúrunni, sem og gamall torfbær sem ber sama nafn, Hvalnes.  Ströndin nær nokkra kílómetra og er tilvalin til þess að fara létta göngu eða bara til þess að slappa af á ströndinni og njóta útsýnisins. Hvalnes er kjörinn staður til fuglaskoðunar og ljósmyndunar. 
Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Við hliðina á Jökulsárlóni í Vatnajökulsþjóðgarði er staður sem færri kannast við, Fellsfjara (Eystri- og Vestri-Fellsfjara), austan og vestan megin Jökulsár á Breiðamerkursandi. Hann saman stendur af sandfjörum sem eru oft skreyttar með ísjökum sem borist hafa með Jökulsá á Breiðamerkursandi að sjónum og skola svo aftur upp á sandinn með öldunum. Ísjakarnir sem minna á demanta ásamt þokunni sem leggst yfir ströndina skapa töfrandi andrúmsloft.  Ísjakarnir bjóða upp á enn stórfenglegri sjón yfir vetrarmánuðina þegar sólin rís og baðar ströndina fallegri lýsingu sem endurspeglast á ísjökunum. Að láta sig hafa biðina í myrkrinu fyrir sólarupprás er vel þess virði, þrátt fyrir nístingskulda íslensku næturinnar.
Ingólfshöfði
Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda.  Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.  Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi.  
Haukafell
Haukafell er skógræktar verkefni stofnað 1985. Síðan hefur skógurinn vaxið og dafnað og  veitir nú gott skjól fyrir lægri gróður sem prýðir svæðið, aðallega berjarunna sem bera ávöxt í ágústmánuði.  Svæðið er staðsett austan við Fláájökul og er vinsæll útiveru staður meðal heimamanna. Umhverfið í Haukafelli er stórbrotið og eru margar gönguleiðir í boði til þess að njóta þess sem allra best.   Frá Haukafelli má finna merkta gönguleið að Fláajökli þar sem gengið er yfir nýja göngubrú yfir Kolgrafardalsá. Þar að auki er einnig vel útbúið tjaldsvæði í fallegu umhverfi í Haukafelli.  
Hoffell
Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslag umhverfis Hoffell er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Fundist hefur heitt vatn á Hoffelli og eru þar heitar laugar í náttúrulegu umhverfi. Landsvæðið einkennist af Hoffellsjökli, stórri jökultungu og gabbró grýti. Upprunalega finnst gabbró grýti djúpt neðanjarðar en það finnst á svæðinu vegna landriss og jökulrofs. Grýtið gefur umhverfinu grænan blæ meðal dökku steinanna.   Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.
Haukadalsskógur
Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi. 
Ósland
Ósland er eyja staðsett nokkrum skrefum frá bryggjusvæðinu á Höfn. Eitt sinn þurfti að sigla út í Ósland en núna er hægt að ganga þangað þökk sé manngerðri landbrú. Ósland er verndað svæði og er vinsæl gönguleið í kringum Óslandstjörn og með fram sjónum. Þar er ríkt fuglalíf og er æðarkollan ríkjandi á varptíma.  Á Óslandshæðinni er minningarvarði sjómanna sem fórust við vinnu sína og upplýsingaskilti um umlykjandi umhverfi. Frá Óslandi er hægt að ganga stíg sem er prýddur sólarkerfinu í réttum hlutföllum. Einnig eru sjáanleg för eftir tré í basalt steinum á svæðinu; tré sem urðu umlukin hrauni fyrir allmörgum árum.   
Þjórsárdalsskógur
Náttúrleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki. Kjörinn staður til útivistar, enda er í skóginum fjöldi merktra og ómerktra stíga og skógarvega.  Þjórsárdalsskógur liggur vestan við þjóðveg 32 þar sem hann sveigir til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig um göngubrú yfir Sandá spölkorn innar í dalnum. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er þar á milli og er vel merkt.  Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar, landslag er fagurt, fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar til umferðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar færir hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug er í Árnesi um 15 kílómetrum neðar í sveitinni. Heimild: skoraekt.is
Fláajökull
Fláajökull er jökultunga Vatnajökuls sem auðvelt er að nálgast. Svæðið býður upp á mikilfenglegt útsýni yfir jökulinn sem hopað hefur um 2 km á síðustu hundrað árum og skilið eftir sig jökullón. Svæðið er kjörinn áfangastaður fyrir g alla sem eru áhugasamir um hvernig hreyfing jökulsins hefur áhrif á nærliggjandi umhverfi.  Merkt gönguleið tengir svæðið framan við Fláajökul við skógræktarsvæðið í Haukafelli.