Í Kötlu jarðvangi eru margar merkilegar jarðminjar, sumar á heimsvísu, lestu meira um það hér.
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi.
Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó.
View
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg.
Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.
Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
View
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Talið er að stapinn hafi myndast hefur í síðasta kuldaskeiði ísaldar þegar gosið hefur undir ísaldarjöklinum. Líklega hefur hann verið eyja í sjó á fyrri tíðum en orðin landfastur á landnámsöld með fjörð er nefndist Kerlingarfjörður sem fór inn með höfðanum. Í dag er hann hringaður af svörtum söndum sem borist hafa með endurteknum Kötluhlaupum.
Sunnan við Hjörleifshöfða er tangi kenndur við Kötlu og nefnist Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem gífurlegt magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Tanginn er syðsti punktur meginlandsins Íslands þar sem fyrir gos átti Dyrhólaey þann heiður.
Hjörleifshöfði fær nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Fóru þeir tvískipa á leið sinni til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða. Lífið elti Hjörleif ekki á dvöl sinni, en hann var drepinn ásamt mönnum sínum af írskum þrælum sem fylgdu þeim til landsins. Flúðu þeir til Vestmannaeyja með konurnar þar sem Ingólfur fann þá og drap. Á höfðanum er haugur einn og hleðsla þar sem Hjörleifur er talinn grafinn.
Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum upp á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum. Gamla bæjarstæðið er staðsett við áfangastað Kötlu Jarðvangs þegar komið er að Hjörleifshöfða vestan megin.
View
Drangurinn í Drangshlíð
Drangurinn er mjög sérstök náttúrusmíð úr móbergi, þar sem hann stendur einn sér fyrir neðan bæina í Drangshlíð undir Eyjafjöllum.
Þjóðsagan segir að Grettir Ásmundsson hafi verið að sýna krafta sína og hrundið þessum kletti úr Hrútafelli og eftir standi skarðið sem er fyrir ofan Skarðshlíð. Undir þessum kletti eru hellar og skútar sem byggt hefur verið fyrir framan í gegnum aldirnar og standa þau flest enn. Þessi hús eru gott dæmi um fornmannahús, enda hafa þar verið tekin upp atriði og kvikmyndir eins og “Hrafninn flýgur”.
Drangurinn og næsta nágrenni hans er friðlýstur.
View
Gluggafoss
Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, „gluggana“ í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga.
Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn.
Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nálægt eru uppeldisstaðir tveggja af merkustu skáldum landsins, þeirra Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar.
Upplýsingar um fleiri staðir í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Sólheimasandur
Sandflæmi austan Jökulsár og sunnan og suðvestan Sólheima í Mýrdal. Talið er að sandur þessi hafi myndast í jökulhlaupum á landnámsöld og 13. öld, en fornar sagnir eru til um myndun hans. Á síðustu árum hafa Sólheimabændur ræktað allmikil tún á sandinum. (Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.)
Árið 1973 lenti bandarísk herflugvél af gerðinni DC-3 á sandinum eftir að hafa orðið eldsneytislaus. Allir lifðu lendinguna af og varð flakið eftir á sandinum sem nú er orðið að vinsælum ferðamannastað. Ekki er leyfilegt að keyra að flakinu en gott bílastæði er við Þjóðveg 1 og hægt að ganga þaðan að flakinu sem tekur um tæpa klukkustund hvor leið fyrir sig.
View
Þórsmörk
Þórsmörk er einstök náttúruperla norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls. Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er gróðurfar og landslag mjög fjölbreytilegt. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé sitt í Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu þeir einnig skógarhögg á svæðinu.
Í kjölfar Kötlugossins 1918 var Þórsmörk beitarfriðuð og falin Skógrækt ríkisins til umsjónar. Ótalmargir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra-Enda. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysislegar ár, geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum.
View
Systrafoss
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Neðarlega í gilinu er gríðarstór steinn, Fossasteinn, sem hrapaði úr fjallinu í miklu þrumuveðri um 1830. Falleg gönguleið er upp á brúnina og þar er hægt að ganga 5 km hringleið, Ástarbrautina. Gengið er uppi á fjallsbrúninni til austurs, niður af heiðinni og að Kirkjugólfinu. Uppi á fjallinu er er stórbrotið útsýni. Þar er líka listaverkið Gullmolinn sem minnir okkur á litlu heimarafstöðvarnar sem gáfu fólki ljós og yl á tuttugustu öldinni.
Skógurinn við Systrafoss er frá því 1945. Skógarstígurinn er hringleið í skóginum þar sem einn viðkomustaðurinn er Sönghellir. Við skógarstíginn er merkt hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem er nærri því að verða 30 metra hátt.
View
Álftaversgígar
Álftaver er víðáttumikil sveit sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið. Ofan og vestan við byggðina eru miklar þyrpingar gervigíga sem kallast Álftaversgígar. Álftaversgígar hafa verndað byggðina að verulegu leyti fyrir jökulhlaupum samfara Kötlugosum.Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti.
View
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar.
Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Höfðabrekkuheiði, Þakgil
Höfðabrekka er austasti bær vestan Mýrdalssands. Höfðabrekka er gamalt höfðuból, kirkjustaður og stórbýli til forna. Í Kötluhlaupi árið 1660 tók bæinn af og var hann þá fluttur upp á heiðina og var hann ekki fluttur niður aftur fyrr en 1964. Vegfarendur sem eru á ferð um Mýrdalshrepp ættu ekki að láta það fara framhjá sér að aka inn Höfðabrekkuheiðar. Þetta var þjóðleiðin austur að Mýrdalssandi í um það bil 20 ár, þangað til Jónsmessuhlaupið í Múlakvísl árið 1955 rauf hana.
View
Foss á Síðu
Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem nefnist Þórutjörn. Þetta stórkostlega sjónarspil fangar athygli allra sem leið eiga um. Greiðfær gönguleið er upp að Þórutjörn og þaðan er fallegt útsýni yfir Síðu. Skammt frá Fossi á Síðu eru einnig Dverghamrar. Dverghamrar eru sérkennilegar og fagurlega formaðar stuðlabergs klettaborgir úr blágrýti.
View
Hafursey
Hafursey er einstaklega fagurt móbergsfell á norðanverðum Mýrdalssandi. Það skiptist um Klofgil og vesturhlutinn er nefndur Skálarfjall (582m) og hæst ber Kistufell (513m) á austurhlutanum. Þarna er mikið fýlavarp og undirhlíðarnar eru vaxnar kjarri, en þar var skógur áður fyrr.
Eyjan var nýtt til beitar og bændur í Hjörleifshöfða létu fé sitt ganga þar sjálfala allt árið og höfði í seli á sumrin til 1854. Selið í Hafursey er ein af hinum merku söguminjum Íslands en í Kötlugosinu 1755 höfðust þar við sex menn á meðan á goshlaupinu stóð. Þeir rituðu dagsetningu, ártal og fangamörk sín skýru letri í bergvegginn sem blasa við þegar inn er litið.
View
Kvernufoss
Kvernufoss er í gili rétt austan við Skógafoss. Fossinn sést vel frá þjóðveginum, en betra er að ganga að honum frá Skógum. Göngustígur er að fossinum frá bílastæði Samgöngusafnsins að Skógum og er tilvalið að skella sér á Skógasafn í leiðinni.
Fyrir frekari upplýsingar um fossa, jarðvætti og gistingu er hægt að kíkja inn á www.katlageopark.is
View
Landbrotshólar
Í Landbroti, rétt hjá Kirkjubæjarklaustri, eru Landbrotshólar, eitt víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi um 50 ferkílómetrar að flatarmáli og mynduðust þegar Elgjárhraunið rann um 934 - 940.
Hólarnir eru óteljandi og fjölbreytilegir að lögun og útliti. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika rennur yfir ár, stöðuvötn eða vatnsrík setlög. Þegar heitt hraunið rennur yfir vatnsósa undirlag verða miklar gufusprengingin í hraunrásinni. Við það þeytist gjóska upp í loftið og miklir hólar hlaðast upp.
Skemmtileg, auðveld 9 km gönguleið er um Landbrotshólana og byrjar við Skaftárbrúna. Leiðin liggur að Hæðargarðsvatni og þaðan inn í hólana.
View
Ófærufoss - Nyrðri Ófæra
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Af Fjallabaksleið nyrðri er hægt að aka nokkurn spöl inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi en vegurinn liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum.
Ófærufoss fellur ofan í Eldgjá á Skaftártunguafrétti. Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin nær allt að 200 m. Þegar hún myndaðist hefur líklega gosið í henni endilangri, sennilega í kringum árið 934.Talið er að gossprungan nái undir Mýrdalsjökul. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin, sem runnu frá henni, eru talin þekja 700 km² sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúrminjaskrá. Fyrirhugað er að Eldgjá og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Nú hafa komið fram kenningar um að afleiðingar þessa goss hafi ekki síður gætt í Evrópu en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýfundnum heimildum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Þá eru líkur leiddar að því að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.
View
Efra-Hvolshellar
Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943.
Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands. Ekki er talin hætta af frekara hruni en þó skyldi fólk sýna aðgát. Hellarnir hafa verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar.
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring.
Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.
Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.
Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.
Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
View
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.
Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.
View
Mýrdalssandur
Mýrdalssandur takmarkast af Höfðabrekkuheiði að vestan, Mýrdalsjökli að norðan og Skaftártungu og Álftaveri að austan en hafi að sunnan. Hann er talinn um 700 km². Suðuroddi hans, Kötlutangi, er syðsti tangi Íslands og þar gengur landið fram af framburði jökulánna og þó sér í lagi Kötluhlaupa en sjávargangur vinnur á móti.
Vestan til er Mýrdalssandur samfelld, gróðurlaus auðn en lítils háttar grasgróður er á honum austanverðum og heita þar Loðinsvíkur. Í fornum sögum segir að skógur hafi verið á honum sunnanverðum, hjá Hjörleifshöfða.
Um Mýrdalssand flæmast nokkur jökulvötn sem koma undan Mýrdalsjökli. Mest þeirra eru Múlakvísl, Skálm og Hólmsá. Stundum hafa þau gert verulegan óskunda, einkum að því er tekur til samgangna og brotið brýr og vegi. Sandurinn er víða mjög fíngerður. Í hvassviðri verður vegurinn yfir sandinn oft ófær sökum sandfoks og hafa margir bíleigendur orðið fyrir stórtjóni vegna þess. 1988 var vegurinn um Mýrdalssand færður sunnar og liggur nú nærri Hjörleifshöfða og lægra en áður. Þarna er snjóléttara en á vegstæðinu ofar á sandinum en í hlákuköflum að vetrinum hefur vatn gert mikinn óskunda á veginum.
View
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
View
Sólheimajökull
Sólheimajökull er skriðjökull sem skríður frá norðvestanverðum Mýrdalsjökli. Jökullin er mjög næmur fyrir veðurfarsbreytingum og breytist jökulsporðurinn fljótt í kjölfar veðurbreytinga. Frá jöklinum rennur Jökulsá á Sólheimasandi, sem var ein mannskæðasta á landsins á fyrr öldum. Jökullinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna til að skoða fallegt umhverfi hans eða prófa jöklagöngu og ísklifur.
Miklar og örar breytingar hafa orðið á skriðjöklinum síðustu ár og eitt skýrt dæmi um það er hin aukna vegalengd sem stíga þarf til að nálgast jökulsporðinn.
Sólheimajökull hefur lengi verið rannóknarefni jöklafræðinga en jöklarannsóknir geta sagt okkur mikið um loftslag og loftslagsbreytingar í gegnum aldirnar, en jökulsaga Sólheimajökuls er um margt óvanaleg þegar borið er saman við aðra íslenska jökla.
Fyrir rúmum hundrað árum lá jökulsporður Sólheimajökuls töluvert framan við núverandi bílastæðin
View
Lómagnúpur
Lómagnúpur er 688 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður. Stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir. Lómagnúpur tilheyrir landi Núpsstaðar, sem allt er á náttúruminjaskrá.
View
Rútshellir
Rútshellir er af mörgum talin elstu manngerðu hýbýli á landinu. Allir sem eiga leið um Fjöllin ættu að gefa sér tíma og skoða þessar merku minjar.
Sagnir eru um að hér hafi búið risi er nefndist rútur. Sennilega hefur hann verið kallaður Hrútur en nafnið nútímavæðst í núverandi heiti. Sagnir um búsetu í hellinum ná allt aftur til Rúts á Hrútafelli. Þrælar hans voru líkast harla ánægðir með húsbónda og ráðgerðu aðför að Rúti til að vega hann með spjótum. Rútur bjó sjálfur í afhelli út úr aðalhellinum. Boruðu þeir gat upp í bæli Rúts og ætluðu að vega að honum hann þar. Er þeir réðust til atlögu, varð Rútur fyrri til og þrælarnir lögðu á flótta. Rútur elti þá alla uppi og hjó þá niður, einn af öðrum þar sem hann fann þá.
Fyrir framan hellirinn er fjárhús frá fyrri hluta síðustu aldar en áður en það var byggt var hellirinn lokaður við hellismunnann með grjóthleðslu og timburþili. Gengið er inn eftir fjárhúsunum og þá er komið inn í aðalhellinn. Hann er rúmlega 15 metra langur og um það bil 2,5 metra hár að jafnaði. Mest breidd á aðalhellinum er um 5 metrar. Inni í aðalhellinum eru ýmis merki um verk manna; þar má finna í gólfi holur sem benda til að þar hefi verið tréstoðir og á hellisveggjum eru berghöld og bitaför víða.
Eins og áður segir þá liggur stúka þvert á aðalhellinn. Tvö op eru úr aðalhellinum yfir í stúkuna. Annað er notað til að ganga úr aðalhellinum yfir í stúkuna en hitt er í lofti aðalhellisins og nær upp á svefnsillu Rúts þar sem þrælar hans lögðu til hans með spjótum. Stúkan er ekki síður merkileg en aðalhellirinn. Mest lofthæð í stúkunni er 3,5 metrar, mest breidd er á fjórða metra og lengdin er um 5 metrar. Innst í henni er svo sylla í um 1,5 metra hæð frá gólfi. Sylla þessi er sögð hafa verið svefnstaður Rúts. Hún er mjög rúmgóð, á annan metra á breidd og um þrír metrar á lengd. Eins og áður segir er af syllunni gat niður í aðalhellinn. Þar er að finna sérlega merkar minjar um eldsmíði til forna. Í gólfi stúkunnar er nóstokkur sem var notaður til að snöggkæla járn sem verið var að hamra. Þar er líka aflþró þar sem eldsmiðurinn sat með fætur sína ofan í og svo er þar steðjastæði þar sem steðjinn lá í. Við enda stúkunnar er svo breitt op út úr henni en ekki mjög hátt. Þar er í hleðsla.
Texti að hluta fengin frá: www.eyjafjoll.is
Hellirinn er friðlýstur.
View
Gljúfrabúi
Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti.
Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan og virða fyrir sér útsýnið yfir héraðið. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum.
Gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
góða skarð með grasahnoss!
gljúfrabúi, hvítur foss!
verið hefur vel með oss,
verða mun það enn þá löngum;
gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson
View
Stóri Dímon
Dímon, Stóri- og Litli- á Markarfljótsaurum. Stóri-Dímon er stórt, grasi gróið fell (178 m y.s.) í mynni Markarfljótsdals, að mestu úr móbergi. Koma saman í því mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla.
Í fellinu var talið að væri 50-60 kinda beit vetur og sumar. Örnefnið Rauðaskriða er í Stóra-Dímon. Frá því er sagt í Njáls sögu að Njálssynir sátu fyrir Þráni Sigfússyni í Rauðaskriðum er Skarphéðinn vó hann og hljóp “tólf álna yfir Markarfljót “ milli höfuðísa. Í Njáls sögu segir einnig frá því að Gunnar á Hlíðarenda og Njáll á Bergþórshvoli áttu skóg í Dímon og gerðu til kola. Þar vó Kolur, verkstjóri Gunnars, Svart, húskarl Njáls; þegar hann var við kolagerð. Var það fyrsta vígið sem unnið var í deilum þeirra Hallgerðar og Bergþóru.
Litli-Dímon er sunnan við eystri brúarsporð gömlu Markarfljótsbrúar. Fell, hæðir eða háar eyjar, er nefnast Díma eða Dímon, eru á nokkrum stöðum á landinu. Eru þær venjulega tvær saman. Nafnið er talið merkja tvífjall og er komið úr latínu “dimontes”. Í Færeyjum eru til sams konar örnefni.
View
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána.
Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.
Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
View
Katla Jarðvangur
Katla JarðvangurÍ Kötlu jarðvangi eru margar merkilegar jarðminjar, sumar á heimsvísu. Yfir 150 eldgos hafa verið skráð þar frá landnámi. Eldvirknin hefur mótað landið og haft áhrif á búsetu manna eins og öskugosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sanna. Einstaklega kvik og síbreytileg náttúra hefur mótað sögu og mannlíf jarðvangsins í aldanna rás.
Katla jarðvangur nær yfir land þriggja sveitarfélaga, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Flatarmál hans er 9542 km2 eða rúm 9% af heildarflatarmáli Íslands. Íbúafjöldi er um 2700 manns. Kvikfjárrækt hefur verið megin atvinnuvegur svæðisins en síðustu ár hefur kornrækt aukist. Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur eru helstu þjónustukjarnar fyrir sveitirnar. Undanfarin ár hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist gríðarlega í atvinnulífi svæðisins.
Jarðfræði Ísland er á Mið-Atlantshafshryggnum þar sem tveir jarðskorpuflekar gliðna í sundur á svokölluðu rekbelti. Auk þess er möttulstrókur undir landinu með miðju undir Vatnajökli. Samspil rekbeltis og möttulstróks veldur flókinni og fjölbreyttri eldvirkni á Suðurlandi.
Sérstaða Kötlu jarðvangsins felst í þessari eldvirkni og víðfeðmum áhrifum hennar á landmótun og náttúrufar. Einkennandi eru megineldstöðvar, gígar og gossprungur, gervigígar, hraunbreiður, móbergsfjöll og móbergshryggir sem hafa sömu stefnu og rekbeltið. Eldstöðvakerfin Hekla, Katla, Grímsvötn og Bárðarbunga eru virkust við landmótunina.
Jöklar eru einnig áberandi í landslagi þar sem þeir þekja hæstu eldfjöll. Frá þeim falla skriðjöklar og jökulár. Jökulgarðar og jökullón eru einnig áberandi. Hamfaraflóð vegna eldgosa undir jökli mynduðu sandana á láglendi.
Elsta bergið er um 2,5 milljón ára gamalt og finnst við rætur Lómagnúps sem er gamall sjávarhamar og eitt hæsta standberg landsins (671 m). Aðrar áhugaverðar myndanir í jarðvanginum eru steingervingar í hnyðlingum og gjóskulög sem hafa reynst vel við aldursákvarðanir.
Finna má frekari upplýsingar á www.katlageopark.is
View
Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins.
Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum.
Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni.
Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
View
Kirkjugólf
Kirkjugólfið er í túninu rétt austan Kirkjubæjarklausturs. Þetta er u.þ.b. 80 m² jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, þar sem sést ofan á lóðréttar blágrýtissúlur. Þarna hefur aldrei staðið kirkja en það er engu öðru líkara en flöturinn hafi verið lagður af manna höndum.
Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni, þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn. Kirkjugólf er friðlýst náttúruvætti.
View
Lakagígar og Laki
Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju.
Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi.
Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971.
Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra.
LakiKollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins.
View
Mýrdalsjökull og Katla
Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá). Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.
View
Skaftáreldahraun
Hraunflóð það hið mikla sem rann úr Lakagígum á Síðumannaafrétti er Síðueldur brann árið 1783, oft nefnt Eldhraun af heimamönnum. Skaftáreldahraun er talið 565 km² en rúmtak þess er um 12 km³. Lengd fram í Meðalland er um 60 km. Gígaröðin, Lakagígar, er um 25 km á lengd. Gefa þessar tölur þó fremur óljósa mynd af því hversu feikilegt hraunflóð þetta var. Er það talið hið mesta sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi síðan sögur hófust. En auk hraunflóðsins kom upp allmikil gjóska. Barst askan um mikinn hluta landsins en öskulag varð hvergi þykkt, jafnvel ekki í nærsveitum. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti austur til Altaifjalla í Asíu. Hér á landi fylgdi eitur og ólyfjan öskufallinu svo að gróður sölnaði og varð eitraður. Brennisteinsfýlu svo mikla lagði af gosmekkinum að illvært varð úti.
Skaftáreldahraun breiddist út um mikið svæði uppi á Síðumannaafrétti, umhverfis eldstöðvarnar, en féll síðan í tveimur meginstraumum til byggða. Vestari kvíslin, Ytra-Eldhraunið, kom úr gígum sunnan Laka og féll niður farveg Skaftár. Fyllti hraunflóðið djúpt gljúfur er Skaftá rann í milli Síðu og Skaftártungu. Talið hefur verið að gljúfrið væri 37 km langt og 150-200 m djúpt. Síðan rann hraunið hlíða á milli í dal þeim er verður milli Skálarfjalls og Skaftártunguhálsa og breiddi úr sér á láglendinu til suðurs og austurs. Alls tók hraunflóðið af nær 20 býli í Skaftártungu, á Út-Síðu, í Landbroti og Meðallandi. Flest þeirra byggðust aftur en stórlega skert.
Mjög góður staður til að horfa yfir Skaftáreldahraunið er stuttu áður en komið er austur að Kirkjubæjarklaustri. Þar eru bílastæði og upplýsingaskilti.
View
Þykkvabæjarklaustur
Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaður í Álftaveri. Þar var munkaklaustur í katólskum sið, stofnað árið 1168, og hélst til siðaskipta. Munkur í Þykkvabæjarklaustri var Eysteinn Ásgrímsson, sem uppi var á 14. öld. Stuðlabergssúla er reist á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið.Þykkvabær í Veri Þorkell Geirason, bóndi að Þykkvabæ (d. 1187), gaf Kristi allar eigur sínar og lét stofnsetja klaustur honum til dýrðar. Þorlákur, síðar helgi, Þórhallsson var fenginn til verksins og var Ágústínusarklaustur stofnað 1168. Gerðist hann munkur (kanoki) í klaustrinu þegar í upphafi og varð fyrsti ábóti þess. Á árum Þorláks sem ábóta varð þess vart að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og árið 1984 gerði kaþólski páfinn John Paul II Þorlák helga að verndardýrlingi Íslands.
Klaustrið gegndi mikilvægu hlutverki sem menningar- og heilbrigðisstofnun. Vitað er með vissu að á tímum Brands Jónssonar ábóta (f. 1202 - d. 1264) var skóli rekinn í klaustrinu og sneri hann Alexanders sögu á íslenska tungu. Athyglivert er að rittengsl eru talin vera á milli texta Njáls sögu og þýðingar Brands ábóta á Alexanders sögu. Fleiri þekkt ritverk og kvæði urðu til í klaustrinu. Eysteinn Ásgrímsson munkur orti þar hið þekkta helgikvæðið Lilju sem „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Alla jafna hefur verið margmenni í klaustrinu en auk munka, sem sennilega voru um 13 talsins, dvöldu í klaustrinu vistmenn og óvígt vinnufólk. Því þurfti stórt bú til að standa undir mjólkur- og kjötþörf klaustursins og var bústofninn árið 1340: 250 kýr, 84 geldneyti, 410 sauðfé og 53 hross. Vitnisburð um forna búskaparhætti má sjá í gömlum rústum, Fornufjósum, sem standa norðan viðklausturhólinn og eru friðlýstar.
Á þessum tíma voru hafskipasiglingar mögulegar að þröskuldum klaustursins þar sem Kúðafljót var skipgengt og því aðdrættir til klaustursins greiðir. Samband við erlenda trúbræður var þar af leiðandi auðveldara en ætla mætti. Það segir okkur að landslag hér hafi verið ólíkt því sem nú er og var meðal annars farið á bátum frá klaustrinu að Fornufjósum og göngubrú var lögð að Nunnutóttum sem eru taldar rústir hússins þar sem nunnur frá Kirkjubæjarklaustri gistu í heimsóknum sínum. Til að tryggja allt siðgæði var brúin að sjálfsögðu tekin upp yfir nóttina.
Við siðaskipti færðust eignir kirkjunnar til Danakonungs og voru eignirnar aðgreindar frá óðalseignum bænda með heitinu konungsjörð. Sérstakir klausturshaldarar voru fengnir til að hafa umsjón með eignunum. Nær öll skjöl frá tímum klaustursins hafa glatast en sum þeirra tók Árni Magnússon til Danmerkur þar sem þau brunnu inni. Önnur fuku burt úr skemmdum húsum klaustursins eða voru notuð til uppkveikju á köldum vetrarkvöldum. Vegna ágangs Kötlugosa og sandfoks hurfu einnig hús og byggingar klaustursins en eftir standa örnefni og munnmælasögur.
View
Fimmvörðuháls
Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, en hann er í mun verra ásigkomulagi en mikið notaður af göngufólki sem áningarstaður. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af vatnsföllum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 12. apríl 2010. Þá bárust fregnir af upphafi eldgoss með tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul og komu upplýsingarnar frá Lögreglunni á Hvolsvelli. Gosið var norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Gos þetta flokkast sem hraungos. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði hæsta hraunfoss í heimi sem rennur niður í gil í grennd við gossprunguna. Hraunfossinn var um 200 metra hár.
View
Laufskálavarða
Laufskálavarða er hraunhryggur með vörðuþyrpingum umhverfis, milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri. Hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða vörðu sér til fararheilla.
Við Laufskálavörðu er útsýnispallur uppi á þaki lítils þjónustuhúss þar sem sést vel til Mýrdalsjökuls og eldstöðvarinnar Kötlu.
View
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund.
Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
View
Fagrifoss
Fagrifoss í Geirlandsá er tilkomumikill foss og ber hann nafn með rentu. Hann er á leiðinni í Laka, en aka þarf yfir vöð á leiðinni sem geta verið erfið litlum bílum og árnar geta auk þess orðið skyndilega ófærar í vatnavöxtum.
Útsýni að fossinum er best austan megin við fossinn en ganga þarf lítinn spöl til að fá stórkostlega sýn að fossinum.
View