Rangárþing ytra er ríkt af fallegum og áhugaverðum áfangastöðum. Viðkomustaðirnir eru fjölbreyttir og vekja áhuga jafnt hjá þeim sem eru unnendur stórbrotinnar náttúru Íslands sem og áhugamenn um sagnfræði og forna þjóðhætti Íslendinga.
Fossarnir leynast víða en hvað vinsælastir eru Þjófafoss í Þjórsá, Fossabrekkur og Ægissíðufoss í Ytri-Rangá. Sagan er við hvert fótmál og má segja að hvergi sé hún áþreifanlegri en á Keldum á Rangárvöllum. Elsta sveitaþorp á Íslandi er í Þykkvabæ en þar er þó þjónusta við ferðamenn af skornum skammti að undanskilinni gistiþjónustu. Töluvert er þó um afþreyingu sem fer frá Hellu og í Þykkvabæ s.s. Buggy X-treme. Vötnin á Landmannaafrétti og í Veiðivötnum hafa á sér ákveðinn dýrðarljóma, full af spriklandi silungi, en ef stefnan er sett á veiðiferð er betra að undirbúa það vel og kaupa veiðileyfi. Svæðið er þekkt fyrir hella þar sem talið er að jafnvel papar hafi búið fyrir tíma landnáms. Á Hellum í Landsveit er hægt að komast í slíkan helli og njóta um leið leiðsagnar heimamanna. Caves of Hella bjóða einnig upp á leiðsögn um hellana við Hellu. Víða leynast fallegar gönguleiðir en í Landmannalaugum er sennilega besta stígakerfið í sveitarfélaginu. Landmannalaugar eru vel þekktar sem áfangastaður en þaðan er venjan að leggja af stað í hina vinsælu fjögurra daga göngu um Laugaveginn, frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk.
Hér að neðan má finna upplýsingar um flesta áfangastaði í Rangárþingi ytra ásamt afþreyingu.