Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fallegu svörtu strendurnar sem má finna á Suðurlandi. 

Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Við hliðina á Jökulsárlóni í Vatnajökulsþjóðgarði er staður sem færri kannast við, Fellsfjara (Eystri- og Vestri-Fellsfjara), austan og vestan megin Jökulsár á Breiðamerkursandi. Hann saman stendur af sandfjörum sem eru oft skreyttar með ísjökum sem borist hafa með Jökulsá á Breiðamerkursandi að sjónum og skola svo aftur upp á sandinn með öldunum. Ísjakarnir sem minna á demanta ásamt þokunni sem leggst yfir ströndina skapa töfrandi andrúmsloft.  Ísjakarnir bjóða upp á enn stórfenglegri sjón yfir vetrarmánuðina þegar sólin rís og baðar ströndina fallegri lýsingu sem endurspeglast á ísjökunum. Að láta sig hafa biðina í myrkrinu fyrir sólarupprás er vel þess virði, þrátt fyrir nístingskulda íslensku næturinnar.
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi. Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó. 
Hvalnes
Hvalnes er lítill skagi með svartri smásteina strönd sem nær nokkra kílómetra. Á enda Hvalness prýðir gamall, gulur viti, tilvalinn til myndatöku með stórbrotinni náttúrunni, sem og gamall torfbær sem ber sama nafn, Hvalnes.  Ströndin nær nokkra kílómetra og er tilvalin til þess að fara létta göngu eða bara til þess að slappa af á ströndinni og njóta útsýnisins. Hvalnes er kjörinn staður til fuglaskoðunar og ljósmyndunar. 
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.   Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- oghjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.