Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar og sjávarbjörgin í kring eru með töluvert fuglalíf, ein stærsta lundabyggð heims er í Vestmannaeyjum, gjöful fiskimið eru allt í kring og fjöldi hvala. Eyjarnar hafa myndast við gos í sjó og jarðvegur er víða grunnur og því ekki góður fyrir túnrækt, víða er grýttur jarðvegur og stutt í hraun. Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa m.a. í Herjólfsdal.

Mataræði Vestmanneyinga var betra og fjölbreyttara en hjá öðrum sjávarþorpum hér áður fyrr þökk sé þeirri miklu matarkistu sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Mataræði var misjafn eftir árstíðum og varð einhliða á vertíð og vori.

Almennt matarhæfi á seinni hluta 19. aldar: Fyrst var kaffi drukkið eða grasavatn. Morgunmatur var kl. 10 og samanstóð af saltfiski, tros

Hvönn

fiski, ýsu, keilu (söltuð og verkuð), löngu, ufsa eða skötu.

Miðdegismatur var kl 15, saltaður fugl eða nýr að sumri til, mjólkurgrautur, soðinn fiskur, súrt slátur og súr hvalur. Baunir heitar eða kaldar og bankabyggsgrautar. Mikið var borðað af harðfiski með smjöri.

Kvöldmatur var kl 19. Fuglasúpa með söltuðum lunda eða fýl, oftast fýl með söxuðum hvannablöðum. Þunnur mjólkurgrautur og var malað bankabygg oft sett út á.

Á kvöldin var aftur drukkið kaffi. Söl voru borðuð og fjörugrös sett í brauð. Sauðakjöt og kaggar af söltuðum fýl og lunda voru vetarforðinn. Nýr fýll var soðinn í bútung (saltaður/þurrkaður óflattur), sjóða fuglinn með öllu innvolsi og þótti bestur þannig. Reyktur lundi og fýlsungi voru til hátíðarbrigða. Fýll var ekki mikið reyktur því þá nýttist ekki feitin af honum. Hausinn var einnig borðaður. Súlur voru einnig borðaðar, haus og vængir sviðnir og súlublóðmör úr lifrinni með rúsínum og kryddi.

Hvönn og hvannarætur voru mikið notaðar, margir voru með hvannagarða. Um 1850 hófst kartöflurækt með blárauðar kartöflur frá Skotlandi. 

Smjörið kom af landi og var keypt með skreiðarvörum. Á sunnudögum var saltkjöt með kartöflum eða kjötsúpur, baunir og kjöt. Á haustin var nýtt kjöt, soðið eða steikt.

Einungis sjómenn fengu brauðbita með morgunkaffinu. Seint á 19. öld fóru sjómenn að hafa með sér sjóbita með sér á sjóinn, þykkar rúgbrauðssneiðar eða rúgkökur með kjöti eða öðru áleggi. Einungis voru kökur og sætabrauð á hátíðisdögum. Búðarbrauð: hagldabrauð (kringlur), skonrok (hart brauð sem geymist lengi) með sírópi var haft með kaffinu.

Fýlafeitarbræðingur var búinn til að feitinni sem rann af fýl við suðu, ekki mörinni sjálfri. Var einkum notað fyrir börn og unglinga.

Kútmagar: Mjöl- eða lifrarmagar með tómri lifur eða mjöli hnoðað saman. Hrogn, greppar og lifraðir hausar voru í miklu uppáhaldi, sérstaklega nýir lúðuhausar og rafabelti af lúðu.

Sundmagar voru súrsaðir og þorskhausar signir. Svil úr þorski voru notuð en þótti lélegur matur. Af fiski var yfirleitt nóg svo hver gat borðað af honum einsog hann vildi.

Mörgum þótti hanginn eða visaður fiskur betri en nýr. Þorskur var ekki notaður til matar þar sem hann var aðal útflutningsvaran.

Árstíðir

Á vertíð var nýr fiskur þ.á.m. lúða. Á sumrin veiddist soðfiskur, stútungur og keila, lúða, skarkoli o.fl. Meðlæti voru gulrófur og kartöflur en þær var farið að rækta eftir miðja öld. Einnig soðkökur úr rúgi eða hveiti og hrognakökur sem voru gerðar úr hrognum og mjöli. Soðkökur voru einnig borðaðar með saltkjöti. Bræðingur var notaður sem viðbit (tólg og lýsi).

Egg voru til framan af sumri, voru sett í salt og skömmtuð til manna meðan nóg var til í morgun- eða miðdegisverð, 3-4 egg á mann. Einnig voru gerðar eggjakökur. 

Veislur: Eftir fýlaferðir var veisla fyrir veiðimennina. Reyktur fýlsungi, rúsínugrautur með sírópi, kjötsúpa með nýju kjöti eða kindasteik. Óspart kaffi, brennivín og koníak út í.

Julsaveisla var svipuð eftir lundaveiðar haldin af sókningsmönnum sem ferjuðu veiðimenn í eyjarnar, og héldu veiðimennirnir sjálfir lundaveislu með góðum veitingum og víni.

Kæst skata á sumrin og lundi var saltaður í tunnu. Hundasúrur voru sem salat með fiski og jafnvel stráð púðursykri yfir.

Ekki þurfa Eyjamenn að gæða sér á súrsuðum eða reyktum mat í dag nema þá helst til að smakka á gamallri hefð. Í Vestmannaeyjum eru fjölmargir veitingastaðir þar sem boðið er upp á fiskmeti, kjöt, grænmeti og annað lostæti.

Slippurinn hefur verið í Magna húsinu síðan 2012. Þar fær fyrri starfsemi hússins að njóta sín. Vinna með smábirgjum og framleiðendum, sjómönnum og bændum í nærumhverfi. Tína jurtir og sjávargrös og rækta það sem erfitt er að fá annarsstaðar. Staðbundin og árstíðarbundin matargerð þar sem matseðilinn breytist í hverri viku eftir því hvaða hráefni eru til. Gamlar aðferðir eru tvinnaðar við nýjar og ferskar og vilja gera íslenskum hversdagslegum hráefnum hátt undir höfði.

GOTT er veitingarstaður sem leggur áherslu á heilsusamlegan mat þar sem allt er lagað frá grunni og notast er við ferskt og heilnæmt hráefni.

Einsi Kaldi er veitingastaður sem rómaður er fyrir ljúffenga sjávarrétti ásamt öðru staðbundnu hráefnum.