Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hvern með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram sögu og menningu svæðisins sem og fjölbreytta upplifunarmöguleika. Vitaleiðin er tæpir 50 kílómetrar og nær frá Selvogsvita að Knarrarósvita. Hér má hlaða niður korti af Vitaleiðinni.
Leiðin er nefnd eftir vitunum þremur sem varða leiðina: Selvogsvita, Hafnarnesvita og Knarrarósvita. Ferðalangar geta ýmist ekið hana eða nýtt sér strandlengjuna og göngustíga meðfram sjónum til að ganga leiðina, hlaupa, hjóla eða jafnvel ferðast hana á hestbaki.
Vitaleiðin einkennist af kyrrlátri náttúru í bland við kraftinn í Atlantshafinu. Á sumrin getur þú upplifað miðnætursólina og kyrrðina þar sem aðeins heyrast sjávar- og fuglahljóð. Á veturna eru hér góðir staðir til að horfa upp í stjörnuhimininn og vonast eftir norðurljósum. Á Vitaleiðinni getur þú sogað í þig þá merku sögu verslunar, mannlífs og sjósóknar sem hefur mótað þorpin við ströndina gegnum aldirnar. Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar eru á Vitaleiðinni, til dæmis sundlaugar, kajakróður, hestaleigur, hesthúsaheimsóknir, söfn, gallerý, rib-bátar og fjórhjól. Þá eru frábærir veitingastaðir í þorpunum sem bæta enn á upplifunina og metta svanga maga eftir útivistina. Stígar, strandlengjan og útivistarsvæði á Vitaleiðinni opna þér nýja veröld sem þú munt vilja heimsækja aftur og aftur.