Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þú getur heimsótt fallega staði á Suðurlandi sem eru með sögulegt gildi. Finndu frekari upplýsingar um þá staði með því að lesa meira hér.

Strönd á Rangárvöllum
Strönd á Rangárvöllum er í dag hvað þekktust fyrir 18 holu golfvöll sem er heimavöllur Golfklúbbs Hellu. Það var þó ekki fyrr en 1972 sem Golfklúbburinn Hellu fékk aðstöðu á Strönd, en fyrr hafði félagið verið í um tvo áratugi á Gaddstaðaflötum við Hellu. Síðan þá hefur félagið unnið ötullega að því að bæta svæðið og stækka við það og er það nú einn af bestu golfvöllum landsins. Strönd á sér þó mun lengri sögu og þar var rekinn heimavistarskóli fyrir Rangárvallahrepp frá 1933-1970. Á Strönd var einnig þingstaður Rangvellinga, pósthús og símstöð. Einnig var þar samkomuhús og margar af stærstu samkomum sýslunnar haldnar þar í fyrri tíð.
Kambur
Vestast í Hróarsholtshverfinu er bærinn Kambur. Hinn 9. febrúar 1827 gerðist þar sá atburður sem frægur hefur orðið í Íslandssögunni, er fjórir grímuklæddir menn brutust inn, lögðu hendur á heimilisfólkið og rændu töluverðu fé. Þeir bundu bóndann Hjört Jónsson og húsfólk hans og brutu upp hirslur í leit að peningum. Þeir rændu um 1000 ríkisdölum. Það var Þuríður formaður sem átti þátt í að upplýsa málið. Þuríður taldi sig þekkja handbragðið á skó sem fundist hafði, og bárust við það böndin að manni þeirrar konu sem skóinn hafði gert, Jóni Geirmundssyni á Stéttum í Hraungerðishreppi. Þuríður veitti því einnig eftirtekt að för á járnteini sem fundist hafði, pössuðu við steðja í eigu Jóns. Af vettlingi sem fannst í túninu á Kambi, bárust böndin að Jóni Kolbeinssyni, á Brú í Stokkseyrarhreppi, og lá Hafliði bróðir hans einnig undir grun. Þegar farið var að yfirheyra þessa menn játuðu þeir loks á sig ránið og bentu á forsprakkann, sem reyndist vera Sigurður Gottsvinsson á Leiðólfsstöðum. Frekari rannsókn leiddi í ljós fleiri aðila sem voru samsekir. Um ári síðar kvað sýslumaður Árnesinga upp dóm í málinu. Var Sigurður dæmdur til hýðingar, brennimerkingar og ævilangs þrældóms í Kaupmannahöfn, Jón Geirmundsson til hýðingar og þrældóms ævilangt, Jón Kolbeinsson til 12 ára þrældóms og Hafliði til 8 ára. Sigurður var drepinn í fangavistinni, en hinir fengu sakauppgjöf frá kóngi.
Ölfusárbrú
Ölfusárbrú er byggð yfir vatnsmesta fljót landsins sem spanner 384 rúmmetra á sekúndu að meðaltali á árs grundvelli. Á suðurenda brúarinnar við Tryggvaskála er upplýsingaskilti sem sýnir flóðahæð í þremur mestu flóðum í Ölfusá á 20. Öld. Árið 1872 var fyrst talað um að brúa yfir Ölfusá af Hannesi Stehensen presti. Fyrst var farið í að ferja fólk yfir ána. Árið 1891 hófst brúarsmíðin sjálf. Gekk það í fyrstu með áföllum þar sem þeir mistu einn mann í ána. Síðar kom í ljós að stöplarnir undir brúni voru ekki nógu hair svo að klakabelti komast undir hana. Vígsla brúarinnar var 1891 og voru settar ýmsar reglur hvað varðar notkunn brúarinnar en það varðar reiðmennsku yfir brúnna. Árið 1944 slitnaði brúarstrengur vegan þyngdar mjólkurbíls með annan bíl í togi svo að þeir féllu báðir í ánna. Var þá ný brú byggð árið 1945 og þjónar enn þá daginn í dag sínum tilgangi og er hún 84 metrar að lengd á milli stöpla.
Laugardælir
Laugardælir er lítil byggð rétt utan við Selfoss. Laugardælir var einn fjölfarnasti lögferjustaður landsins þar til brúin var byggð yfir Ölfusá hjá Selfossi 1891. Árið 1957 var ný kirkja vígð á Selfossi og Laugardælasókn lögð til hennar, utan nokkurra bæja sem færðust til Hraungerðissóknar. Staðurinn var kirkjulaus í nokkur ár eða til ársins 1965 þegar nýja kirkjan var byggð. Kirkjan er úr steinsteypu, 300 m² með pípuorgeli og tekur 70 manns í sæti. Bjarni Pálsson, byggingarfulltrúi á Selfossi, teiknaði hana og Sigfús Kristinsson, byggingarmeistari á Selfossi, var kirkjusmiður. Í garði Laugardælakirkju er legstaður Bobbby Fischer (1943-2008), hins litríka og umdeilda heimsmeistara í skák.
Dælarétt
Dælarétt, er ævaforn fjárrétt stutt sunnan við Suðurlandsveg. Hún er talin elsta rétt landsins og var helsta skilarétt svæðisins. Réttin er í landi eyðibýlisins Heiðabæjar. Þar var síðast réttað haustið 1970 og hefur réttin nú verið friðlýst. Dælarétt er hlaðin úr grjóti úr hinu stórdílótta Þjórsárhrauni. Skammt frá eru sprungur eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000. Sýnið VARÚÐ.
Loftsstaðir
Loftstaðir var áður mikil verstöð. Í kringum árið 1600 bjó hér galdramaðurinn Galdra-Ögmundur sem deildi við Galdra-Geirmund á Ragnheiðarstöðum. Á Loftstaðahóli er mikil steinvarða mjög forn að uppruna.
Eyrarbakkakirkja
Séra Jón Björnsson var aðalforgöngumaðurinn fyrir nýrri kirkju á Eyrarbakka. Framan af var kirkjusókn Eyrbekkinga á Stokkseyri en vegna mikilla fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var að lokum tekin sú ákvörðun að skipta þyrfti upp sókninni. Jóhann Friðrik Jónsson, forsmiður og helsti trésmiður á Eyrarbakka á áratugnum 1880 - 90 sá um hönnun og vann að byggingu kirkjunnar. Jóhann Friðrik lést áður en kirkjan var full byggð.   Eyrarbakkakirkja var reist á Eyrarbakka árið 1890 og vígð sama ár. Fyrsta orgelið í hina nýju kirkju gaf Jakob A. Lefolii, kaupmaður á Eyrarbakka sókninni. Hvað Séra Jón varðar þá höguðu örlögin því svo, að hann var fyrsti maðurinn sem kvaddur var frá Eyrarbakkakirkju, en það var árið 1892. Fjögur ár liðu frá vígslu Eyrarbakkakirkju uns hún öðlaðist full réttindi sem sóknar- og graftarkirkja, en nýr kirkjugarður var ekki vígður og tekinn í notkun á Eyrarbakka fyrr en árið 1894. Kirkjugarðurinn er austar í þorpinu.  Sögufrægasti gripur kirkjunnar er án efa sjálf altaristaflan sem prýðir mynd af Jesú á tali við Samversku konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4, 13-14). Undir töflunni er ritað: „Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta." Tilurð altaristöflunar á sér sérstaka sögu, en Séra Jón Björnsson sigldi m.a. í erindum kirkjubyggingarinnar til Kaupmannahafnar til þess að útvega kirkjuviðinn. Hlaut hann þar svo góðar viðtökur þegar hann gekk á fund konungs og drottningar, að Louise, drottning Kristjáns konungs IX., gaf kirkjunni altaristöflu, sem hún hafði sjálf málað og er nafn drottningar á töflunni og ártalið 1891. Af öðrum merkum kirkjugripum má nefna kertastjaka úr Kaldaðarneskirkju, en kirkja þar var lögð niður árið 1902. Á þeim er ritað ártalið 1780 og stafirnir E.S.S. Stjakarnir eru íslensk smíð og að öllu handunnir. Einnig er úr Kaldaðarneskirkju ljósakróna í kór kirkjunnar. Árið 1918 var sett upp stundaklukka í turn kirkjunnar sem slær á heilum og hálfum tíma. Hún var gjöf frá danska kaupmanninum Jakob A. Lefolii.  Skírnarfonturinn er gjöf safnaðarins á 60 ára afmæli kirkjunnar árið 1950. Hann gerði listamaðurinn Ríkharður Jónsson. Skírnarskálin sem Leifur Kaldal gullsmiður gerði var gefin kirkjunni til minningar um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður á 100 ára fæðingarafmæli hennar.  Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni frá því hún var byggð árið 1890. Skrúðhús var byggt við norðurhlið kórs 1962 og á árunum 1977 til 1979 var turninn breikkaður, gluggum og umbúnaði þeirra breytt, kirkjan klædd nýrri vatnsklæðningu að utan og panelborðum innan og smíðaðir í hana nýir bekkir. Nýtt íslenskt 11 radda pípuorgel eftir Björgvin Tómasson var tekið í notkun í kirkjunni á jólum 1995.  Kirkjan tekur um 230 - 240 manns í sæti.  Eyrarbakkakirkja var friðuð 1. janúar 1990
Flóaáveitan
Flóaáveitan eru skurðir sem liggja um gjörvallan Flóa eða allt frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri. Þetta stórvirki síns tíma samanstóð af 300 km löngum skurðum sem að mestu voru handgrafnir- og 900 km af flóðvarnargörðum. Flóaáveitan mun hafa náð yfir 12 þúsund hektara land og með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Framkvæmdir við áveituna hófust 1922 og var flóðgáttin tekin í notkunn árið 1927 þegar Flóaáveitan tók til starfa. Enn þann dag í dag gegnir hún viðamiklu hlutverki í vatnsmiðlun í sveitafélaginu. Inntak áveitunnar er við Hvítá, þar er upplýsingaskilti með ítarlegum upplýsingum um Flóaáveituna. Til austurs frá inntakinu er merkt gönguleið (um 4,4  km ganga, aðra leið). 
Skógakirkja
Skógar eru með elstu kirkjustöðum á landinu. Þar hefur kirkja staðið frá því um 1100 en hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá aldamótunum 1200. Kirkja hélst í Skógum allt til ársins 1890 en þá voru síðustu bændakirkjurnar í Steinum og Skógum lagðar niður enda voru þær baggi á ábúendum því að það var á þeirra ábyrgð og efnahag að halda þeim við. Síðasta kirkjan í Skógum var lítil og hrörleg timburkirkja.  Skógar fengu svo aftur þann merka sess að eiga kirkju þegar Þórður Tómasson safnstjóri og fræðimaður í Skógum lét gamlan draum sinn og annarra rætast og reist var kirkja við Byggðasafnið í Skógum. Fyrstu skóflustunguna tók séra Halldór Gunnarsson í Holti. Kirkjan var reist eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar en til hliðsjónar voru hafðar gamlar sveitakirkjur. Sveinn Sigurðsson frá Hvolsvelli var yfirsmiður kirkjunnar. Að utan er kirkjan reist með nýjum viðum en innsmíði að mestu gömul frá kirkju í Kálfholti frá 1879. Gluggar frá 1898 úr Grafarkirkju. Klukkur frá um 1600 og frá 1742. Allir kirkjugripir gamlir, 17. og 18. öld. Altaristafla úr Ásólfsskálakirkju (1768), ljóshjálmar úr Steinakirkju og úr Skógakirkju. Kirkjan var vígð þann 14. júní 1998 af hr. Karli Sigurbjörnssyni biskupi.
Selvogsviti
Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m. Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki.  Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita og 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarvari. Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.  Selvogsviti er hluti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér . 
Rútsstaða-Suðurkot
Fæðingarstaður Ásgríms Jónssonar listmálara, eins helsta brautryðjanda íslenskrar myndlistar. Hann varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlist að aðalstarfi. Ásgrímur fæddist þann 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann árin 1900-1903.
Knarrarósviti
Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarraóssvita og var hann tekinn í gagnið ári síðar eða 31. Ágúst 1939. Þjónaði hann griðalega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma því innsiglingarnar voru hættulegar á þessu svæði. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum. Knarraóssviti er 22 metrar að hæð, fallegur og rammbyggður. Útsýnið úr honum er einstaklega fallegt og mikið. Var hann með 6000 kerti sem er meðal stærð á vita á þessum tíma sem hann var byggður. Hönnun vitans er áhugaverð blanda af fúnkis og art nouveau stíl. Knarrarósviti er hliti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér.   
Hella
Hella er stærsti byggðarkjarni sveitarfélagsins með tæplega 1000 íbúa. Á Hellu byggist atvinnulífið að miklu leyti upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað. Á Hellu eru einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, handverks- og gjafavöruverslun, blómabúð, hársnyrtistofa, snyrti- og fótaaðgerðastofa, sjúkraþjálfarastofa, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk fleiri stofnana og þjónustu. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu. Saga þéttbýlisins nær aftur til ársins 1927 þegar þar var rekin verslun sem óx jafnt og þétt með uppbyggingu Kaupfélagsins Þórs og varð staðurinn helsti kaupstaður vesturhluta Rangárvallasýslu. Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum. Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári. Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin sex landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014 og 2021.
Selfosskirkja
Selfosskirkja var byggð á árunum 1952 – 1956 og vígð það sama ár. Hún var teiknuð af Bjarna Pálssyni skólastjóar Iðnskólans á Selfossi. Árið 1978-1984 var bætt við kirkjuna forkirkju, turn og safnaðarheilmili með eldhúsi ásamt aðstöðu fyrir félagsstarf. Kirkja var máluð og skreytt af Jóni og Grétu Björnsdóttir listakonu sem sá um flúrið en í því er leitast við að fylgja kirkjuárinu. Gluggar kirkjunar voru unnir af glerlistafólki frá Þýskalandi og kom í kórinn árið 1987 en í kirkjuskipið árið 1993. Þó Selfosskirkja sé ung að árum er hún með sérstöðu meðal kirkna landsins á 20 öld. Sr. Sigurður Pálsson var fysti sóknarpresturinn í Selfosskirkju en áður var hann í Hraungerði í Flóa en flutist á Selfoss 1950 þegar fólksfjölgun varð hér. Lagði hann mikla áherslu á helgihald, endurreisn hins forna og sígilda messusöngva ásamt messuformi sem er þekkt sem helgisiðabókin Graduale (þrepasöngur) og var gefin út árið 1594. Grallari kallast þessi bók og inniheldur tónlög og texta að messusöng og tíðagjörð kirkjunnar. Hefur verið enn þá daginn í dag haldið í þessum anda, Grallarans íslenska og mörgum kunn að finnast að hönnun kirkjunnar minna einnig á þennann anda. Sr. Sigurður Sigurðarson tók við embætti föður sins árið 1971 en lét af störfum árið 1994 og hélt þá í vígslubiskupsembætti í Skálholti. 
Systrastapi
Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur og eru örnefnin Systrastapi og Systrafoss tengd þeim tíma. Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur.  Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra í klaustrinu sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.  Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn. 
Ferjunes
Bærinn Ferjunes stendur á Þjórsárbökkum og var áður fjölfarinn ferjustaður yfir Þjórsá. Sandhólaferja lagðist af við tilkomu Þjórsárbrúar. Skáldkonan Oddný Kristjánsdóttir bjó í Ferjunesi
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Talið er að stapinn hafi myndast hefur í síðasta kuldaskeiði ísaldar þegar gosið hefur undir ísaldarjöklinum. Líklega hefur hann verið eyja í sjó á fyrri tíðum en orðin landfastur á landnámsöld með fjörð er nefndist Kerlingarfjörður sem fór inn með höfðanum. Í dag er hann hringaður af svörtum söndum sem borist hafa með endurteknum Kötluhlaupum.  Sunnan við Hjörleifshöfða er tangi kenndur við Kötlu og nefnist Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem gífurlegt magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Tanginn er syðsti punktur meginlandsins Íslands þar sem fyrir gos átti Dyrhólaey þann heiður. Hjörleifshöfði fær nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Fóru þeir tvískipa á leið sinni til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða. Lífið elti Hjörleif ekki á dvöl sinni, en hann var drepinn ásamt mönnum sínum af írskum þrælum sem fylgdu þeim til landsins. Flúðu þeir til Vestmannaeyja með konurnar þar sem Ingólfur fann þá og drap. Á höfðanum er haugur einn og hleðsla þar sem Hjörleifur er talinn grafinn.  Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum upp á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum. Gamla bæjarstæðið er staðsett við áfangastað Kötlu Jarðvangs þegar komið er að Hjörleifshöfða vestan megin.  
Skálholt
Bær, kirkjustaður, prests- og skólasetur og fyrrum setur biskupa í Skálholtsbiskupsdæmi. Þar er jarðhiti og heitir þar Þorlákshver. Skálholt er einn merkastur sögustaður á Íslandi, næst Þingvöllum. Kristni á Íslandi hefur verið knýtt fastari böndum við Skálholt en nokkurn annan stað. Sonur landnámsmannsins í Grímsnesi og Biskupstungum, Teitur Ketilbjarnarson, byggði fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti sem kom með kristni til Íslands og átti einna veigamestan þátt í kristnitöku landsmanna. Hans son, Ísleifur, varð fyrstur biskup á Íslandi 1056 og sat í Skálholti. Kirkja var reist á staðnum og jörðin gefin undir biskupssetur. Kvað gefandinn svo á, að þar skyldi vera biskupssetur meðan kristni héldist í landinu. Sá hét líka Gissur, Ísleifsson, biskups. Hann er talinn hafa verið einhver glæsilegasti kirkjuhöfðingi á Íslandi fyrr og síðar. Hann kom á tíundarlögum á Íslandi árið 1097. Annar biskupinn með Gissurarnafni í Skálholti, sem verulega kemur við sögu staðarins, er Gissur Einarsson (1512-1548). Hann varð fyrstur biskup í lútherskum sið á Íslandi. Skálholtsbiskupar urðu alls 44, 31 kaþólskur og 13 lútherstrúar á árunum 1056-1801. Margir merkir atburðir hafa gerst í Skálholti, sumri hverjir þeir örlagaríkustu í sögu lands og þjóðar. Í Skálholti réðust íslenskir bændur oftar en einu sinni að erlendum valdsmönnum og ræningjum og drápu þá, þar á meðal erlendan biskup, Jón Gerreksson, sem sat þar á biskupsstóli. Honum stungu Íslendingar í poka og drekktu í Brúará, árið 1433.  Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupinn á Hólum, Jón Arason, fluttur fanginn til Skálholts og hálshöggvinn þar ásamt sonum sínum. Í Skálholti voru um aldir mikil fræðistörf unnin. Þar var prentsmiðja um skeið á seinni hluta 17. aldar og í henni fyrst fornrit prentuð á Íslandi. Í Skálholti var unnið að fyrstu bókinni sem prentuð var á íslensku. Það var Nýja testamentið þýtt af Oddi Gottskálkssyni og prentað 1540. Brynjólfur Sveinsson (biskup 1639-1674) var mikill unnandi íslenskra fræða og safnaði dýrmætum handritum og sendi þau konungi til Kaupmannahafnar, sem þá var höfuðborg Íslands. Annar Skálholtsbiskup varð frægur fyrir fræðistörf sín, Finnur Jónsson sem skrifaði Kirkjusögu Íslands í fjórum miklum bindum, hið gagnmerkasta sagnfræðirit. Í Skálholti sat á þriðja áratug Jón Vídalín sem talinn er hafa verið einn mestur og mælskastur kennimanna á Íslandi fyrr og síðar. Í Skálholti voru um aldir mikil fræðistörf unnin. Þar var prentsmiðja um skeið á seinni hluta 17. aldar og í henni fyrst fornrit prentuð á Íslandi. Í Skálholti var unnið að fyrstu bókinni sem prentuð var á íslensku. Það var Nýja testamentið þýtt af Oddi Gottskálkssyni og prentað 1540. Brynjólfur Sveinsson (biskup 1639-1674) var mikill unnandi íslenskra fræða og safnaði dýrmætum handritum og sendi þau konungi til Kaupmannahafnar, sem þá var höfuðborg Íslands. Annar Skálholtsbiskup varð frægur fyrir fræðistörf sín, Finnur Jónsson sem skrifaði Kirkjusögu Íslands í fjórum miklum bindum, hið gagnmerkasta sagnfræðirit. Í Skálholti sat á þriðja áratug Jón Vídalín sem talinn er hafa verið einn mestur og mælskastur kennimanna á Íslandi fyrr og síðar.
Gaulverjabæjarkirkja
Gaulverjabær er kirkjustaður og höfuðból frá fornu fari. Gaulverjabær er Landnámsjörð Lofts hins gamla frá Gaulum í Noregi. Nafnið hefur oft verið stytt í Bæ og hreppurinn þá nefndur Bæjarhreppur. Lítill vafi er á því að Gaulverjabær sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim. Hér fannst merkur silfursjóður árið 1930. Þetta er safn 360 silfurpeninga frá fyrstu öld Íslandsbyggðar. Einnig fannst hér árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa.  Kirkjan sem nú stendur var byggð árið 1909. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. 
Villingaholtskirkja
Villingaholt er kirkjustaður og var löngum stórbýli. Á 17. öld var hér prestur, Jón Erlendsson en hann var afkastamesti handritaskrifari landsins. Hann á sinn mikla þátt í að varðveita ýmsar helstu perlur handritanna með því að skrifa þau upp, m.a. að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups. Frægasta ritið sem séra Jón bjargaði þannig frá glötun er Íslendingabók, en mörg handrita okkar eru rituð með hendi Jóns. Síðar bjó hér þjóðhagsmiðurinn og bóndinn, Jón Gestsson (1863-1945) en frá honum er komin mikil ætt hagleiksfólks. Jón teiknaði og byggði núverandi Villingarholtskirkju á árunum 1910-1911. Kirkjan er bárujárnsklædd úr timbri og á hlöðnum grunni. Kirkjan er með turni og sönglofti og tekur 100 manns í sæti.  Ef gengið er syðst á lóð Þjórsárvers má sjá gamlan bæjarhól en þar stóð Villingaholtskirkja og bæjarhúsið áður. Í kjölfar viðverandi sandfoks og mikils tjóns í suðurlandsskjálftanum árið 1784 voru þau flutt um set að núverandi stað. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Ingólfshöfði
Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda.  Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.  Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi.  
Hellarnir að Hellum
Á Hellum eru þrír hellar sem bærinn dregur nafn sitt af. Hellar þessir eru manngerðir, höggnir í sandstein, og er sá stærsti þeirra lengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki er vitað nákvæmlega hve gamlir þessir hellar eru en talið er að þeir séu mögulega frá því fyrir eiginlegt landnám Íslands og hafi verið gerðir af Pöpum þ.e.a.s. írskum munkum sem tóku sér bólfestu hér á landi fyrir tíma víkinganna (um 900).Hinsvegar er hægt að segja með fullri vissu að hellarnir séu að minnsta kosti jafngamlir bæjarnafninu Hellar enda harla ólíklegt að nefna bæinn þetta ef engir væru hellarnir á staðnum. Fyrstu ritaðar heimildir um bæinn Hella í Landsveit eru frá árinu 1332 og því eru hellarnir að minnsta kosti 600 ára gamlir þótt hugsanlegt sé að þeir séu jafnvel enn eldri.Hellarnir á Hellum eru friðlýstir af Minjastofnun Íslands.
Kolsgarður
Kolsgarður er forn garður sem hefur verðið hlaðinn úr torfi og talinn vera frá 10. öld. Samkvæmt Þjóðsögunni þá gerði Kolur í Kolsholti sér tíðförult að Ragnheiðarstöðum og sátu þau Ragnheiður á Ragnheiðarstöðum löngum á tali saman. Langt er á milli bæjanna og yfir miklar mýrar að fara. Á Kolur því að hafa hlaðið garð mikinn sem við hann er kenndur og nefndur Kolsgarður eða Kolsstígur, því ekki þótti honum sæma að hitta Ragnheiði aurugur og blautur. Víða sér enn vel mótað fyrir Kolsgarði í mýrunu Suður af Kolsholti.
Oddi og Oddakirkja
Oddi á Rangárvöllum er sögufrægur kirkjustaður, bær og prestsetur. Oddi var á öldum áður eitt mesta höfðingja- og menntasetur á Íslandi og þar ólst upp meðal annarra Snorri Sturluson. Oddi stendur neðarlega á Rangárvöllum mitt á milli Ytri- og Eystri-Rangár, en neðan við Oddatorfu rennur Þverá. Oddi var í aldir stórbýli og voru þar miklar engjar. Fjölmargar hjáleigur fylgdu Odda og átti kirkjan ítök víða. Einn af frægari prestum sem setið hafa Odda er sr. Matthías Jochumsson en hann samdi eftirfarandi kvæði um staðinn: Eg geng á Gammabrekku er glóa vallartár og dimma Ægisdrekku mér duna Rangársjár. En salur Guðs sig sveigir svo signir landsins hring, svo hrifin sál mín segir: Hér setur Drottinn þing. Talið er að kirkja hafi staðið í Odda frá upphafi kristni á Íslandi. Núverandi kirkja er timburkirkja frá árinu 1924 og tekur um 100 manns í sæti. Kirkjan er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Kirkjan var endurbætt, máluð og skreytt árið 1953 af Grétu og Jóni Björnssyni og endurvígð það ár. Meðal merkustu muna í eigu kirkjunnar er silfurkalekur sem talinn er vera frá árinu 1300, altaristafla frá árinu 1895 sem sýnir Krist í grasagarðinum Gestemane og skírnarfontur sem er útskorinn og málaður af Ámunda snikkara Jónssyni. Á þjóðveldistímabilinu var Oddi ættaróðal Oddaverja, einnar gáfuðustu og mikilhæfustu ættar þess tíma. Nafntogaðastur Oddaverja var Sæmundur fróði Sigfússon. Sæmundur fróði stundaði námi við Svartaskóla í París. Hann mun líklega hafa verið einn fyrstur íslenskra sagnaritara sem setti saman rit um Noregskonunga, en það er nú glatað. Sonarsonur Sæmundar fróða var Jón Loftsson sem var einn af valdamestu höfðingjum á Íslandi og jafnframt einn mikilsvirtasti þeirra allra, friðsamastur og ástsælastur. Jón tók Snorra Sturluson í fóstur og menntaði hann. Sex prestar í Odda hafa orðið biskupar á Íslandi; sr. Ólafur Rögnvaldsson, sr. Björn Þorleifsson, sr. Ólafur Gíslason, sr. Árni Þórarinsson, sr. Steingrímur Jónsson og sr. Helgi G. Thordarsen. Oddafélagið var stofnað 1. desember árið 1990 og er eitt af meginmarkmiðum félagsins að vinna að endurreisn fræðaseturs í Odda á Rangárvöllum. Félagar eru nú um 200 talsins og er verndari félagsins frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Félagið heldur árlega Oddastefnu þar sem fjölmörg erindi um Oddastað eru flutt ár hvert. Núverandi sóknarprestur í Odda er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir.
Ásavegur - þjóðleið
Ásavegur er hin forna þjóðleið fólks um Suðurland. Liggur leið þessi um þveran Flóann og má finna miklar traðir á þessum slóðum sem til marks eru um þá miklu umferð sem hefur verið um þennan veg á liðnum öldum. Þarna lá leið uppsveitarmanna og þeirra sem komu austan að um ferjustaðinn hjá Króki í Holtum og hjá Egilsstöðum, niður að verslunarstaðunum Eyrabakka. Einnig lá þar leið vermanna er komu norðan Sprengisands til sjósóknar á suðurströndinni og lágsveitabænda með rekstur til og frá afrétti, svo dæmi séu nefnd. Þessa leið fóru Skeiða- og Hreppamenn, Rangæingar, sem fóru yfir Þjórsá sem og Skaftfellingar sem fóru Fjallabaksveg nyrðri. Merkt gönguleið er á milli Orrustudals og Hnauss (um 6 km ganga). Orrustudalur og Skotmannshóll er sögusvið Flóamannasögu. Í Orrustudal voru háðar tvær miklar orrustur eftir landnám. Féll m.a. Hásteinn Atlason í hinni fyrri, en Önundur bíldur í þeirri síðari. Á Skotmannshóli stóð Þormóður Þjóstarsson er hann skaut hinu fræga bogskoti sem skar úr um lögmæti vígs Arnars í Vælugerði. Á þessari leið er hæsti punktur Flóahrepps en þar má sjá stórfenglegt útsýni í allar áttir. 
Hraungerðiskirkja
Hraungerði er kirkjustaður, höfuðból og fyrrum þingstaður. Landnámsjörð Hróðgerðs hins spaka, ættföður Oddverja. Fyrst er getið kirkju í Hraungerði í skrá Páls biskups frá því um árið 1200 og hafa fjölmargar kirkjur verið á staðnum síðan þá. Núverandi Hraungerðiskirkja var vígð 4. sunnudag í aðventu, þann 21. desember 1902, af sr. Valdimar Briem prófasti. Eiríkur Gíslason, smiður frá Bitru í Hraungerðishreppi, var ráðinn til að teikna kirkjuna, gera byggingaráætlun og að lokum smíða hana. Kirkjunni hefur vel verið haldið við á undanförnum árum. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal
Þjóðveldisbærinn (1974-1977) undir Sámsstaðamúla er tilraun til þess að endurreisa á sem trúverðugastan hátt stórbýli frá því um 1100. Grunnmyndin af sveitabænum Stöng, er lögð til grundvallar, en veggir, þak og allir innviðir eru gerð eftir fyrirmyndum, sem þekktar eru frá fornleifarannsóknum eða öðrum heimildum.  Fyrsta sögulega Heklugosið varð árið 1104. Það færði byggðina í Þjórsárdal, þar á meðal Stöng, í eyði, ásamt u.þ.b. 20 öðrum bæjum. Árið 1939 fóru nokkrir norrænir fornleifafræðingar á stúfana og grófu nokkra þeirra upp, m.a. bæinn að Stöng, sem var mjög vel varðveittur undir þykku lagi af vikri. Árið 1974 var ákveðið að reisa eftirlíkingu að miðaldabæ til að minnast 1100 ára búsetu í landinu. Byggingu bæjarins lauk árið 1977. Reynt var af fremsta megni að fylgja öllum hlutföllum, sem fengust frá Stöng, s.s. stærð og staðsetningu svefnbekkja, búrs, dyra, klósetts o.fl. Torfveggir eru eins og á Stöng að öðru leyti en því, að Hörður tók sér það bessaleyfi að nota klömbrur í stað strengs. Innréttingarnar eru byggðar á gömlu tréverki, sem hefur fundist víðs vegar um landið og á Grænlandi, lýsingum, sem koma fram í Íslendingasögunum og gömlum húsum, sem eru enn þá varðveitt á öðrum Norðurlöndum og fornleifarannsóknum þar. Fyrirmynd útihurðarinnar er hin kunna Valþjófsstaðahurð, sem er varðveitt í Þjóðminjasafninu. Margt, sem til var í bæjum á miðöldum vantar enn þá, s.s. veggtjöld, kistur, lampar, verkfæri og tól og eldhúsáhöld, svo eitthvað sé nefnt. Vitneskju um marga hluti, sem um er að ræða, er ekki enn þá fullkomin og aðra skortir vegna bágs fjárhags. Nýjasta viðbótin við byggingar undir Sámstaðamúlanum er stafkirkjan, sem var byggð 1999-2000 og komið fyrir sumarið 2000. Hún er byggð úr norskum kjörviði og er gjöf frá Norðmönnum í tilefni 1000 ára kristni í landinu og fundar Norður-Ameríku. Opið er alla daga frá 1. júní til 31. ágúst milli klukkan 10 - 17 Sími: 488-7713 Upplýsingar um opnunartíma og verðskrá má finna á heimasíðunni www.thjodveldisbaer.is
Þykkvabæjarklaustur
Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaður í Álftaveri. Þar var munkaklaustur í katólskum sið, stofnað árið 1168, og hélst til siðaskipta. Munkur í Þykkvabæjarklaustri var Eysteinn Ásgrímsson, sem uppi var á 14. öld. Stuðlabergssúla er reist á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið.Þykkvabær í Veri Þorkell Geirason, bóndi að Þykkvabæ (d. 1187), gaf Kristi allar eigur sínar og lét stofnsetja klaustur honum til dýrðar. Þorlákur, síðar helgi, Þórhallsson var fenginn til verksins og var Ágústínusarklaustur stofnað 1168. Gerðist hann munkur (kanoki) í klaustrinu þegar í upphafi og varð fyrsti ábóti þess. Á árum Þorláks sem ábóta varð þess vart að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og árið 1984 gerði kaþólski páfinn John Paul II Þorlák helga að verndardýrlingi Íslands.  Klaustrið gegndi mikilvægu hlutverki sem menningar- og heilbrigðisstofnun. Vitað er með vissu að á tímum Brands Jónssonar ábóta (f. 1202 - d. 1264) var skóli rekinn í klaustrinu og sneri hann Alexanders sögu á íslenska tungu. Athyglivert er að rittengsl eru talin vera á milli texta Njáls sögu og þýðingar Brands ábóta á Alexanders sögu. Fleiri þekkt ritverk og kvæði urðu til í klaustrinu. Eysteinn Ásgrímsson munkur orti þar hið þekkta helgikvæðið Lilju sem „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Alla jafna hefur verið margmenni í klaustrinu en auk munka, sem sennilega voru um 13 talsins, dvöldu í klaustrinu vistmenn og óvígt vinnufólk. Því þurfti stórt bú til að standa undir mjólkur- og kjötþörf klaustursins og var bústofninn árið 1340: 250 kýr, 84 geldneyti, 410 sauðfé og 53 hross. Vitnisburð um forna búskaparhætti má sjá í gömlum rústum, Fornufjósum, sem standa norðan viðklausturhólinn og eru friðlýstar.   Á þessum tíma voru hafskipasiglingar mögulegar að þröskuldum klaustursins þar sem Kúðafljót var skipgengt og því aðdrættir til klaustursins greiðir. Samband við erlenda trúbræður var þar af leiðandi auðveldara en ætla mætti. Það segir okkur að landslag hér hafi verið ólíkt því sem nú er og var meðal annars farið á bátum frá klaustrinu að Fornufjósum og göngubrú var lögð að Nunnutóttum sem eru taldar rústir hússins þar sem nunnur frá Kirkjubæjarklaustri gistu í heimsóknum sínum. Til að tryggja allt siðgæði var brúin að sjálfsögðu tekin upp yfir nóttina.  Við siðaskipti færðust eignir kirkjunnar til Danakonungs og voru eignirnar aðgreindar frá óðalseignum bænda með heitinu konungsjörð. Sérstakir klausturshaldarar voru fengnir til að hafa umsjón með eignunum. Nær öll skjöl frá tímum klaustursins hafa glatast en sum þeirra tók Árni Magnússon til Danmerkur þar sem þau brunnu inni. Önnur fuku burt úr skemmdum húsum klaustursins eða voru notuð til uppkveikju á köldum vetrarkvöldum. Vegna ágangs Kötlugosa og sandfoks hurfu einnig hús og byggingar klaustursins en eftir standa örnefni og munnmælasögur.  
Sjóminjasafnið á Eyrarbakka
Í safninu eru munir frá Eyrarbakka með áherslu á sjósókn, iðnað og félags- og menningarsögu síðustu 100 ára. Stærsti og merkasti safngripurinn er áraskipið Farsæll, sem Steinn Guðmundsson skipasmiður á Eyrarbakka smíðaði fyrir Pál Grímsson, útvegsbónda í Nesi í Selvogi. Steinn var helsti skipasmiður á Suðurlandi í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar og smíðaði hann yfir 400 skip og báta á sínum starfsferli. Farsæll er tólfróinn teinæringur með sérstöku lagi, sem Steinn innleiddi á báta sína og kennt hefur verið við hann og nefnt Steinslag. Það bátalag tók mið af aðstæðum í brimverstöðvunum á Suðurlandi, Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Selvogi, og þótti henta mjög vel þar.Einnig eru sýnd veiðarfæri og búnaður sjómanna bæði frá árabátatímanum og upphafi vélbátaútgerðar. Upphaf handiðnaðar í þéttbýli á Suðurlandi var á Eyrarbakka og sýndir eru munir frá bakara, gullsmið, úrsmið, beyki og söðlasmið.Sjóminjasafnið á gott ljósmyndasafn og er hluti þess til sýnis á flettirekkum og í myndamöppum.Þá er í eigu Sjóminjasafnsins beitningaskúr byggður 1925 á blómaskeiði vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Allsérstæð klæðning er á vesturhlið skúrsins, þar sem lítill árabátur hefur verið tekinn og flattur út og notaður sem klæðning á vegginn.Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er rekið af Byggðasafni Árnesinga og er forstöðumaður Lýður Pálsson.Sameiginlegur aðgöngumiði gildir að söfnunum á Eyrarbakka. Opið er á sömu tímum og Húsið.
Rútshellir
Rútshellir er af mörgum talin elstu manngerðu hýbýli á landinu. Allir sem eiga leið um Fjöllin ættu að gefa sér tíma og skoða þessar merku minjar.  Sagnir eru um að hér hafi búið risi er nefndist rútur. Sennilega hefur hann verið kallaður Hrútur en nafnið nútímavæðst í núverandi heiti. Sagnir um búsetu í hellinum ná allt aftur til Rúts á Hrútafelli. Þrælar hans voru líkast harla ánægðir með húsbónda og ráðgerðu aðför að Rúti til að vega hann með spjótum. Rútur bjó sjálfur í afhelli út úr aðalhellinum. Boruðu þeir gat upp í bæli Rúts og ætluðu að vega að honum hann þar. Er þeir réðust til atlögu, varð Rútur fyrri til og þrælarnir lögðu á flótta. Rútur elti þá alla uppi og hjó þá niður, einn af öðrum þar sem hann fann þá.  Fyrir framan hellirinn er fjárhús frá fyrri hluta síðustu aldar en áður en það var byggt var hellirinn lokaður við hellismunnann með grjóthleðslu og timburþili. Gengið er inn eftir fjárhúsunum og þá er komið inn í aðalhellinn. Hann er rúmlega 15 metra langur og um það bil 2,5 metra hár að jafnaði. Mest breidd á aðalhellinum er um 5 metrar. Inni í aðalhellinum eru ýmis merki um verk manna; þar má finna í gólfi holur sem benda til að þar hefi verið tréstoðir og á hellisveggjum eru berghöld og bitaför víða.  Eins og áður segir þá liggur stúka þvert á aðalhellinn. Tvö op eru úr aðalhellinum yfir í stúkuna. Annað er notað til að ganga úr aðalhellinum yfir í stúkuna en hitt er í lofti aðalhellisins og nær upp á svefnsillu Rúts þar sem þrælar hans lögðu til hans með spjótum. Stúkan er ekki síður merkileg en aðalhellirinn. Mest lofthæð í stúkunni er 3,5 metrar, mest breidd er á fjórða metra og lengdin er um 5 metrar. Innst í henni er svo sylla í um 1,5 metra hæð frá gólfi. Sylla þessi er sögð hafa verið svefnstaður Rúts. Hún er mjög rúmgóð, á annan metra á breidd og um þrír metrar á lengd. Eins og áður segir er af syllunni gat niður í aðalhellinn. Þar er að finna sérlega merkar minjar um eldsmíði til forna. Í gólfi stúkunnar er nóstokkur sem var notaður til að snöggkæla járn sem verið var að hamra. Þar er líka aflþró þar sem eldsmiðurinn sat með fætur sína ofan í og svo er þar steðjastæði þar sem steðjinn lá í. Við enda stúkunnar er svo breitt op út úr henni en ekki mjög hátt. Þar er í hleðsla.  Texti að hluta fengin frá: www.eyjafjoll.is Hellirinn er friðlýstur.   
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn. Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000. Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst. 
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.   Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli. 
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.  Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.   Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.  Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.    JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Gönguleiðir um Hellu
Vinsælasta gönguleiðin á Hellu liggur meðfram Rangá að Ægissíðufossi. Hún er nokkuð greiðfær en stígurinn getur verið blautur á köflum. Því er gott að vera í góðum skóm og fara að öllu með gát. Einnig er gaman að rölta um þorpið sem er einkar gróið og vinalegt. Upplýsingaskiltum um sögu þorpsins hefur verið komið upp á nokkrum stöðum. Í snjallforritum á borð við Wikiloc má finna trakkaðar gönguleiðir um svæðið frá einstaklingum en þær eru ekki á ábyrgð sveitarfélagsins.
Minningarkapella sr. Jóns Steingrímssonar
Kapellan á Kirkjubæjarklaustri var vígð árið 1974 en hún var byggð í minningu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks (1728-1791) sem söng hina frægu Eldmessu þann 20. júlí árið 1783 í kirkjunni á Klaustri. Telja margir að Eldmessan hafi stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði jörðinni. Hraunstraumurinn stöðvaðist þar sem nú heitir Eldmessutangi og er vestan Systrastapa. Sjá má tóft gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum og nákvæmt líkan af kirkjunni er inni í kapellunni. Kirkja stóð á Kirkjubæjarklaustri til ársins 1859 þegar ákveðið var að flytja kirkjuna, vegna uppblásturs, að prestssetrinu að Prestsbakka. Kirkjugarðurinn er afgirtur og þar eru jarðsettir nokkrar íbúar á Klaustri og þar eru nokkrir gamli legsteinar. Einn þeirra er á gröf séra Jóns Steingrímssonar og Þórunnar konu hans.  Kapellan var vígð 17. júní þjóðhátíðarárið 1974. Hún rúmar 80 manns í sæti. Arkitektar voru bræðurnir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir. Klaustrið stóð stutt frá Minningarkapellunni. Fornleifafræðingar rannsökuðu svæði á árunum 2002 – 2005. Margt merkilegra gripa fannst og má sjá mynd á upplýsingaskilti sem sýnir hvernig klausturbyggingin gæti hafa verið.
Rjómabúið á Baugsstöðum
Þegar ekið er niður Villingaholtsveg (305) af Þjóðvegi 1 er farið yfir brú á Volalæk. Þessi Lækurinn á upptök sín skammt austan við Bitru, sunnan þjóðvegar 1. Rennur hann síðan til vesturs og nefnist Volalækur þegar hann nálgast Vola. Vestan við Hróarsholts heitir hann Hróarsholtslækur og allt suður að Hólavatni í Gaulverjabæjarhreppi. Afrennsli þess vatns nefnist Baugsstaðasíki. Haustið 1903 stofnuðu bændur í Hraungerðis- og Villingaholtshrepp með sér samtök um rjómabú til smjörgerðar. Rjómabúið eða rjómaskálin eins og það var nefnt í þá daga, var reistur við Hróarsholtslæk, í landi jarðarinnar Vola, skammt vestan gömlu brúarinnar. Lækurinn var stíflaður með miklum trjám og timburflekum til að hækka vatnsborðið. Þetta rjómabú var starfrækt frá 1905 til 1929. Annað rjómabú var stofnað árið 1904 af 48 bændum úr Stokkseyrarhreppi og nágrannahreppum hjá Baugsstöðum skammt frá Stokkseyri, og starfaði það til 1952, lengst allra rjómabúa á Íslandi. Árið 1971 var stofnað varðveislufélag um rjómabúið á Baugsstöðum. Frá 1975 hefur rjómabúið á Baugsstöðum verið opið almenningi sem safn. Tæki þess eru upprunaleg og eru þau gangsett fyrir gesti.