Árborg, Flóinn og Ölfus
Sjórinn og landbúnaður
Við Þorlákshöfn hefur ávallt verið besti náttúrulegi lendingarstaður á suðurströndinni og því ætíð verið útræði þaðan. Stutt er þaðan á fengsæl fiskimið og var oft róið á 30 – 40 skipum frá Þorlákshöfn og dvaldi margt aðkomufólk þar yfir vertíð. Enn þann dag í dag er höfnin í Þorlákshöfn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnustarfsemi bæjarins. Þar er einnig veitinga- og verslunarrekstur sem bæði ferðamenn og heimamenn eru duglegir að nýta sér.
Eyrarbakki var mikilvægur verslunarstaður fyrir allt Suðurland á öldum áður og útgerðarstöð. Um tíma var Eyrarbakki stærsti bær landsins, stærri en Reykjavík, og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborg Íslands. Nú hefur atvinnan þróast í þjónustustörf og iðnað. Mikil fiskvinnsla og útgerð hófst í byrjun síðustu aldar og störfuðu þrjú fiskvinnslufyrirtæki þar fram undir síðustu aldamót. Höfnin á Eyrarbakka var aflögð árið 1988 og síðan þá hefur mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu íbúenda minnkað til muna.
Sama má segja um Stokkseyri, blómatími sjósóknar þar hófst rétt fyrir aldamótin 1900 með uppskipunarbryggju og almennilegri bryggju um miðja öldina. Vélbátar voru helsta atvinnutæki þorpsins. Eftir að Óseyrarbrú var tekin í notkun hefur höfnin verið lítið notuð eins og á Eyrarbakka. Hraðfrystihús Stokkseyrar, síðar þekkt sem Menningarverstöðin þegar hraðfrystihúsið var aflagt og húsið nýtt undi listir og menningu, setur stóran svip á ásýnd bæjarins.
Á síðustu öld hefur margt breyst í Sandvíkurhreppi og þá helst búskaparhættir. Sauðfjárræktin efldist undir lok 19. aldar. Um 1890 voru seldir sauðir á fæti til Englands en lagðist af eftir 6 ár. Eftir það voru búskaparárin erfið þangað til að bændur fóru að stofna rjómabú. Sláturfélag Suðurlands var stofnað 1907 og gerðust flestir bændur stofnendur. Eftir að rjómabúin hættu fóru menn að hafa mest út úr því að selja haustlömb til slátrunar. Eftir að Mjólkurbú Flóamanna var stofnað 1929 fóru bændur að selja kúamjólk þangað. Garðrækt var aðeins fyrir heimilið en gulrófnarækt var á nokkrum bæjum. Eins og á flestum stöðum hefur hefðbundinn landbúnaður verið á undanhaldi en þau bú sem eru eftir stækka. Flest eru kúabú, fjárbú eru á undanhaldi, einn er í kjúklingarækt, eitt svínabú og einn bóndi er með æðarvarp og laxveiði.
Í upphafi 20. aldar voru rjóma- og smjörbú mörg á Íslandi. Rjómabúið á Baugsstöðum var samvinnufélag og mikilvægur hluti af hagkerfi bænda í kring. Blómaskeið þess var frá aldamótum til 1920 og var starfrækt til 1952. Framleitt var smjör og ostar úr rjóma sem bændur komu með á hestum og var megnið af framleiðslunni selt til útlanda og til Reykjavíkur.
Á Selfossi eru öflugar afurðavinnslur sunnlensks landbúnaðar og þjónusta við hann. Þar er til dæmis stærsta mjólkurbú landsins og sláturhús, Sláturfélags Suðurlands með úrbeiningu og pökkunarstöð. Mikla nýsköpun og vöruþróun við vinnslu landbúnaðarafurða á Selfossi má eflaust þakka áratuga reynslu, þekkingar og fagmennsku á svæðinu.
Í og við Ölfusá voru stundaðar veiðar á ál. Suðurlandið hentar vel til veiða á ál og er hægt að veiða hann í gildrur. Álaveiðar eru bannaðar síðan sumarið 2019. Milli laxveiðiánna Hvítár og Þjórsá liggur sveitarfélagið Flóinn. Eitt af mikilvægustu framfaraskrefum Flóans á síðustu öld var Flóaáveitan. Hún náði yfir 12 þúsund hektara lands og boðaði mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Landbúnaður er enn helsta atvinnugrein svæðisins með vaxandi ferðaþjónustu.
Rófur eru ræktaðar á Hrauni í Ölfusi og þar er einnig stunduð sölvatekja. Ásamt því að sölvatekja hefur verið í Ölfusinu hafa söl verið nytjuð í Flóanum frá aldaöðli þar sem margir höfðu atvinnu á sölvatínslu. Kom fólk meðal annars austur úr Skaftafellssýslum til að kaupa söl.