Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hálendi Íslands er lands og þjóðar helsti fjársjóður og þar er að finna margar ómetanlegar perlur villtrar náttúru Íslands. Landslagið, náttúruöflin og dýralífið eru fjölbreytt og á hálendi Íslands geta flestir fundið eitthvað við sitt hæfi, upplifanir og staði sem lyfta andanum og veita ógleymanlegar stundir.

Fyrir þá sem ekki hafa tök á að koma sér upp á hálendið er góður kostur að nýta sér þjónustu þeirra fjölmörgu aðila sem bjóða upp á ferðir inn á hálendið. Það er ekki á allra færi að komast inn á miðhálendi Íslands af sjálfsdáðum, hvort sem ástæðan er að hafa ekki til þess farartækjakost eða treysta sér einfaldlega ekki til, þá er upplagt að nýta sér þá góðu og fjölbreyttu þjónustu sem er í boði.

Á hálendinu eru margir gistimöguleikar í boði, allt frá tjaldsvæðum og svefnpokaplássi upp í uppábúin rúm. Veitingar og veitingasölustaðir eru þó af skornum skammti og er rétt fyrir ferðalanga að hafa það í huga og útbúa gott nesti til ferðarinnar. Þó er hægt að kaupa góðar veitingar í Hrauneyjum, en í hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum er að finna bæði gistingu og góðan veitingastað.

Yfir vetrarmánuðina, frá september og fram í maí, er mælst til þess að enginn fari um hálendið nema að þekkja vel til aðstæðna og hafi góða reynslu af hálendisferðum. Svæðið er erfitt yfirferðar yfir vetrartímann, oft á tíðum ófært, og eðli málsins samkvæmt er enga þjónustu að fá á svæðinu nema yfir sumarmánuðina. Þó viljum við geta þess að hálendismiðstöðin í Hrauneyjum er opin allt árið.

Þjófafoss
Þjófafoss er í Þjórsá, austan við Merkurhraun. Fossinn dregur nafn sitt af því að þar hafi þjófum áður verið drekkt. Fossinn er einn af aðalfossum Þjórsár, en áin skilur að Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er lengsta á landsins. Þjófafoss er sunnan við Búrfell, skammt frá Búrfellsvirkjun og nokkru neðan við Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Rennsli Þjófafoss er fremur lítið yfir vetrartímann en nokkru meira yfir sumartímann og stafar það af virkjunum í ánni, en vatninu er að mestu veitt framhjá fossinum. Áin er stífluð við Sultartanga með Sultartangalóni og vatninu fyrst veitt í gegnum Sultartangavirkjun og síðan inn í Bjarnarlón og í gegnum Búrfellsvirkjun. Það er því fyrst og fremst þegar Sultartangalón er orðið fullt síðsumars sem umframvatn er látið renna um Þjófafoss. Með tilkomu Búrfellsvirkjunar 2 hefu vatnsrennsli um Þjófafoss minnka enn frekar, hvort sem er sumar eða vetur.
Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar. Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim. Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum. Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
Landmannalaugar
Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir. Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru. Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk. Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús. Gjöld:Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald.  Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér. 
Landmannahellir
Landmannahellir er áfangastaður á Landmannaafrétti. Þar hefur verið áfangastaður ferðamanna um svæðið til langs tíma og dregur staðurinn nafn sitt af helli sem þar er og var nýttur um aldir fyrir bæði menn og hross. Í dag er þar vinsælt skálasvæði þar sem gönguhópar og hestahópar gista gjarnan á sumrin í ferðum sínum en á staðnum er einnig tjaldstæði. Rekstur svæðisins er í höndum Hellismanna ehf. og á félagið mörg hús á svæðinu, en Veiðifélag Landmannaafréttar á einnig fjallaskála þar sem og einkaaðilar. Þekkt gönguleið, Hellismannaleið, liggur um svæðið og hefur nú verið stikuð frá Rjúpnavöllum um Áfangagil í Landmannahelli og þaðan í Landmannalaugar. Til að komast í Landmannahelli þarf að fara um Dómadalsleið (F225) og eru um 80 km frá Landvegamótum í Landmannahelli.
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli. Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871. Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Veiðivötn
Vatnaklasi á Landmannaafrétti, norðan Tungnaár. Veiðivötn liggja í lægð með norðaustur-suðvesturstefnu milli Snjóöldufjallgarðs að suðaustan og Vatnaöldugígaraðarinnar að norðvestan. Vatnasvæðið er um 5 km breitt og 20 km langt frá norðaustri til suðvesturs. Svæðið er mjög eldbrunnið, þakið gjósku, gígum eða hrauni. Mikið eldgos um 1480 myndaði gígaröð um Veiðivötn og suður að Landmannalaugum. Mörg vatnanna eru gígvötn í gígum sem ná niður í jarðvatnsborðið. Fullyrða má að í þessu gosi hafi Veiðivötn fengið sína núverandi mynd og e.t.v. að um leið hafi hinn forni Stórisjór horfið. Stærstu gígarnir eru myndaðir úr gjósku, þ.e. við gos þar sem vatn hefur haft áhrif á kvikuna. Smærri gígarnir eru úr hraunkleprum og sumir þeirra eru fallegar eldborgir. Þeir eru oft í botni stóru gjóskugíganna og smáhraunbleðill umhverfis.  Segja má að Veiðivötn liggi í tveimur röðum. Helstu vötnin í austari röðinni eru Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn (13 m djúpt) og Litlisjór. Í vestari röðinni liggja vötnin í gígaröðinni frá 1480. Þau eru fleiri og yfirleitt smærri. Helst þeirra eru Nýjavatn, Breiðavatn, Eskivatn sem er dýpsta vatnið (36 m), Langavatn, Skálavatn, Tjaldvatn og Litla- og Stóra-Fossvatn (18 og 15 m djúp). Fossvatnakvísl fellur úr Litla-Fossvatni. Hún fellur í Vatnakvísl sem er stór lindá er rennur suðvestur með Vatnaöldum til Tungnaár. Mörg vötnin hafa neðanjarðarafrennsli enda er berggrunnurinn mjög sprunginn og lekur. Nyrst og austast eru svo Hraunvötn sem einnig eru gígvötn. Alls eru vötn og pollar á þessu svæði um 50 talsins.  Gróðurvinjar eru við sum vötnin, til dæmis við Litla- og Stóra-Fossvatn, en stærstu gróðurlendin eru þó Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og Breiðaver við Breiðavatn. Gróðurlendi við Veiðivötn er sérlega viðkvæmt og verður að gæta ýtrustu varkárni í allri umgengni þar.  Eins og nafnið bendir til er mikil veiði í Veiðivötnum. Svo var einnig frá fornu fari og nefndust vötnin fyrrum Fiskivötn. Áður veiddist eingöngu urriði en eftir að bleikju var sleppt í vötn annars staðar á vatnasviði Tungnaár hefur hennar orðið vart þar. Veiðivötn teljast til Landmannaafréttar. Nú á dögum er veiðiréttur í höndum Veiðifélagsins á afréttinum og eru almenningi seld veiðileyfi (stöng) yfir sumartímann en handhafar veiðiréttarins stunda þar netaveiðar á haustin. Árið 1880 var gerð tilraun til búskapar við Veiðivötn er Arnbjörn Guðbrandsson af Landi flutti þangað með konu sinni og gerði sér þar bústað en búskapurinn varð skammvinnur (sjá Tjaldvatn).  Fyrrum fóru fáir til Veiðivatna aðrir en “Vatnakarlar” en nú eru þau fjölsótt af ferðamönnum á sumrin. Veiðifélagið á allmörg hús við Tjaldvatn og nágrenni. Gamall veiðimannakofi er þar. Hann er nú friðlýstur.  Fyrstir til að rannsaka Veiðivatnasvæðið og skrifa um það voru Sveinn Pálsson 1793 og Þorvaldur Thoroddsen 1889. Nýlegar rannsóknir sýna meðal annars að þar gaus síðast um 1480. Mikið gjóskulag myndaðist í gosinu og lagði mökkinn aðallega til norðurs og norðausturs. Eru sandauðnir Tungnaáröræfa aðallega klæddar gjósku úr Veiðivatnagosinu, en einnig Vatnaöldugosinu. Hringsjá er á Miðmorgunsöldu norðaustur frá Tjaldvatni.  Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
Álftavatn á Rangárvallaafrétti
Í Álftavatni er skálasvæði og þar er bleikjuveiði í vatninu. Stutt er frá Álftavatni í náttúruperlur á borð við Grashaga, Torfafit, Ljósártungur, Jökultungur, Ófæruhöfða, Útigönguhöfða, Hvanngilshnausa, Torfatind, Sátu, Brattháls og Hvanngil.  Álftavatnsskálasvæðið er á Laugaveginum, einni vinsælustu gönguleið landsins frá Landmannalaugum í Þórsmörk.
Hungurfit á Rangárvallaafrétti
Í Hungurfiti hefur verið skálaaðstaða frá árinu 1963 þegar þar var byggður fjallskáli sem var veruleg bót fyrir fjallmenn sem áður höfðu gist í tjöldum. Það hús tekur um 20 manns í gistingu. Árið 2013 var nýtt skálahús tekið í notkun á Hungurfitjum og það hús tekur 50 manns og er einn af nútímalegustu fjallaskálum á Íslandi, með rennandi vatni, vatnssalerni og rafmagni. Á Hungurfitjum er einstök náttúrufegurð og hentar svæðið jafnt fyrir göngufólk, jeppafólk og hestamenn, en þaðan eru góðar reiðleiðir hvort sem er inn Rangárbotna, áfram inn á Sultarfit, inn með Faxa og yfir í Hvanngil eða niður á Fljótshlíðarafrétt. Þá er góð dagleið á hrossum frá Hungurfit niður að Fossi á Rangárvöllum. Upptök Hvítmögu eru á Hungurfitjum og er hvorttveggja í senn afar fallegt að ríða niður með Hvítmögu eða fara þar gangandi. Ofan við fjallaskálana eru Skyggnishlíðar og liggja þar inn að fjallinu Skyggni. Vinsælt er að ganga þar upp og inn Skyggnishlíðar, en þaðan er einstakt útsýni á góðum degi. Þá er ekki síður fallegt að ganga eða ríða inn á Sultarfit, inn í Gimbragil og Hrútagil eða inn í Jökulskarð.