Landsvæði Ölfuss er stórt og fjölbreytt afþreying er í boði svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.
Sundlaugin í Þorlákshöfn er ein af betri laugum landsins með flottu innisvæði fulla af leiktækjum fyrir yngstu kynslóðina. Á útisvæðinu er 25 metra sundlaug, tveir heitir pottar, vaðlaug og tvær vatnsrennibrautir með sér sundlaug.
Marga hella er að finna í Ölfusi og sá stærsti er Raufarhólshellir. Raufarhólshellir er staðsettur við Þrengslaveg og er einn af lengri hellum á Íslandi. Hann er yfir 1300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr myndinni Noah (2014) tekin upp í hellinum. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.
Annar áhugaverður hellir í Ölfusi er Arnarker. Hann er staðsettur í Leitarhrauni norðan við gamla veginn í Selvog. Merkt leið er frá veginum að hellinum og upplýsingaskilti er við hellinn. Búið er að setja stiga niður í hellinn en hann er um 16 metrar langur, er brattur og því skal fara um hann með aðgát. Hellirinn er um 516 metra langur og liggur í tvær áttir, 100 metra í suður og um 400 metra í norður.
Þónokkrar hestaleigur eru í Ölfusi, bæði í Þorlákshöfn og í dreifbýli Ölfuss. Hægt er að fara í hestaferðir í Reykjadal eða niður í sandfjöruna við Þorlákshöfn. Einnig er eina hestaleikhús landsins í Ölfusi þar sem hægt er að sjá íslenska hestinn leika listir sínar.
Margar skemmtilegar gönguleiðir er að finna í Ölfusi og Hengilssvæðið er það vinsælasta. Gönguferð í fjörunni er góð leið til þess að láta stressið líða úr sér og njóta þess að hlusta á sjávarniðinn. Hafnarnes er útivistarsvæði sunnan við byggðina í Þorlákshöfn þar sem stórbrotnir klettar og öldurnar heilla alla sem þangað fara. Í Þrengslunum eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir eins og Litli Meitill, Stóri Meitill og Eldborgir við Lambafell.
Fyrir hjólafólk eru margar hjólaleiðir í boði fyrir byrjendur jafnt sem lengra koma. Sem dæmi má nefna Jósepsdal, Hengilssvæðið og í kringum Hlíðarvatn.
Í Þorlákshöfn er einn af bestu brimbrettastöðum á Íslandi þar sem brimbrettakappar alls staðar úr heiminum koma til að prófa öldurnar. Fyrir byrjendur eru öldurnar í fjörunni tilvaldar en fyrir þá sem lengra eru komnir eru öldurnar við útsýnisskífuna hjá Hafnarnesvita meira krefjandi. Önnur skemmtileg afþreying tengd sjónum eru ferðir á svokölluðum ribsafari bát en það er hressandi og skemmtileg leið til að skoða landið frá sjó.
Í Þorlákshöfn má finna krefjandi og skemmtilegan 18 holu strandgolfvöll og motocross braut.
Aðrir (3)
Upplýsingamiðstöð Ölfuss | Hafnarberg 41 | 815 Þorlákshöfn | 480-3890 |
Sundlaugin Þorlákshöfn | Hafnarberg 41 | 815 Þorlákshöfn | 480-3890 |
Golfklúbbur Þorlákshafnar | Hafnarsandi | 815 Þorlákshöfn | 483-3009 |