Mikil áhersla er lögð á mikilvægi sjálfbærrar þróunar í íslenskri ferðaþjónustu, það á ekki síður við hjá ferðaþjónustunni á Suðurlandi.
Hvað er sjálfbær þróun?
Sjálfbær þróun snýst um að mæta þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Auk þess snýst sjálfbær þróun um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld fyrir alla jarðarbúa til langs tíma.
Mikilvægt er að ferðaþjónustan sem skapar efnahagsleg verðmæti þróist á sama tíma í sátt við samfélag og náttúru. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að auka gæði ferðaþjónustunnar og efla rannsóknir hvað varðar þolmörk náttúru, samfélaga og ferðamanna.
Þegar niðurstöður Áfangastaðaáætlunar Suðurlands voru að teiknast upp flokkuðust gögnin fljótt upp í þrjá flokka, samfélag, ferðaþjónusta og náttúra. Þessir þrír þættir eru einmitt þrjár megin stoðir sjálfbærni, umhverfi, samfélag og efnahagur. Því er mikilvægt að horfa ávallt til þess að vinna að jafnvægi á milli þessara þriggja stoða.
Ferðaþjónustan þarf að huga að jafnvægi við samfélag og náttúru, svo að ekki sé gengið á þær auðlindir sem fyrir eru (náttúra og menning) þannig að þær skerðist ekki til framtíðar. Sem dæmi þarf að huga að verndun náttúrunnar á þann hátt að hún beri ekki varanlega skaða af umgengni og samfélagslegri ábyrgð, þannig að samfélagið njóti góðs af þeirri starfsemi sem ferðaþjónustan bíður upp á. Þessu til viðbótar er mikilvægt að stjórnvöld líkt og sveitarfélög búi þannig um að hvatt sé til að vinna að sjálfbærum verkefnum í gegnum sorphirðu, göngu- og hjólastíga og fjölbreytta þjónustu, menningu og afþreyingu sem tekur mið af ólíkri stöðu og þörfum íbúa. Einnig er mikilvægt að tryggð sé aðkoma samfélags að eigin auðlindum og hámarkaður afrakstur þeirra um leið og þær eru nýttar með ábyrgum hætti með sjálfbærni að leiðarljósi og því er ábyrgðin mikil hjá heimamönnum. Sjálfbær þróun tengist líka beint virðiskeðju samfélagsins, að sem mest virði verði til á svæðinu samfélaginu til heilla.
Ferðaþjónustan hefur lykilhlutverki að gegna í að vinna með sjálfbærni meðal annars þarf að huga að umhverfisstefnu varðandi flutninga, gistingu, mat og áhugaverða staði, betri stefnu ferðaþjónustunnar með áherslu á sjálfbærni og nýta tækni til að stýra flæði gesta betur.
Gestir og sjálfbærni
Það er ekki aðeins mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtæki, sveitarfélög og íbúar hugi að þáttum til að auka sjálfbærni svæðisins meðal annars með flokkun sorps, nýtingu hráefnis úr nærumhverfinu og versla í heimabyggð eins og hægt er, gestir svæðisins eru einnig mikilvægir í keðju sjálfbærninnar. Gestir geta lagt sitt af mörkunum meðal annars með að:
- Dvelja lengur á svæðinu sem sótt er heim
- Nýta staðbundna gistimöguleika, afþreyingu og veitingastaði
- Versla staðbundnar vörur, minjagripi og handverk sem dæmi
- Nýta fjölnota flöskur og fylla á með hreinu, fersku, íslensku vatni í stað þess að kaupa vatn í einnotaflöskum
- Taka með sér allt rusl, flokka og henda á viðeigandi stað. Kynna sér hvernig flokkun er háttað á hverju svæði.
- Nýta fjölnota möguleika í stað einnota þar sem því er viðkomið.
- Virða náttúru, dýralíf og gróður meðal annars með því að fylgja göngustígum og merktum leiðum
- Virða náttúruverndarsvæði þar sem aðgangur er bannaður sem dæmi varpsvæði fugla
- Ekki ganga á mosa
- Gæta sig á náttúrulegum hættum
- Ekki aka utanvega
- Virða íslensk lög og reglur um gistingu í tjöldum
- Velja ferðaþjónustufyrirtæki sem vinna að gæðamálum og hafa fengið viðurkenningu fyrir fagmennsku