Háifoss
Vegalengd: 12 km samtals
Erfiðleikastig: Miðlungs. Leiðin er brött á smá kafla og krefst varúðar.
Háifoss er næsthæsti foss Íslands, 122 metra hár. Það eru tvær leiðir til að komast að Háafossi: Annað hvort að ganga eða keyra þangað. Gangan er 6 kílómetrar hvora leið. Gangan hefst við Stöng, þar sem Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er. Merkt gönguleið er í Fossárdal, svo er farið meðfram Fossánni. Þegar komið er að botni dalsins tekur við nokkuð brattur kafli upp á við, að brúninni gegnt Háafossi og Granna. Vertu varkár og haltu öruggri fjarlægð frá brúninni meðan þú nýtur glæsilegs útsýnisins. Auðveldast er að ganga sömu leið til baka. Annars er líka hægt að ganga eftir línuveginum (nr.332) svo úr verður hringferð sem er um 18 kílómetrar.
Viltu frekar keyra að fossinum? Þá er keyrt eftir veg númer 332, sem er grófur malarvegur einungis fær fjórhjóladrifnum ökutækjum en vegurinn liggur að bílastæði við Háafoss. Þaðan er aðeins fimm mínútna labb að útsýnisstaðnum.
Gönguleiðin við Skógá
Vegalengd: Allt að 16 samtals.
Erfiðleikastig: Miðlungs, talsverð hækkun.
Skógá er fyrst og fremst þekkt fyrir Skógafoss. Færri vita að áin geymir fleiri fossa sem hægt er að sjá á þessari heillandi gönguleið. Gangan hefst upp tröppurnar við Skógafoss. Þaðan þræðir stígurinn meðfram ánni með stöðugri, aflíðandi hækkun. Hafðu í huga því lengra sem þú ferð, þá þarftu að reikna með að vera jafn lengi á leiðinni til baka. Ef þú heldur lengra áfram, þá kemur þú að lokum að göngubrú yfir ána. Þetta er góður staður til að snúa við, ganga til baka og njóta sjávarútsýnisins til suðurs.
(Göngugarpar sem fara lengra eru líklega að ganga Fimmvörðuhálsinn, sem er krefjandi 25 km ganga aðra leið sem endar í Þórsmörk. Að ganga um Fimmvörðuháls krefst vandlegrar fyrir fram skipulagningar og göngureynslu).
Gangan að Svartafossi
Vegalengd: 5,5km fram og til baka.
Erfiðleikastig: Auðlvelt.
Svartifoss fellur fram af fallegum svörtum basalt kletti. Gangan hefst við Skaftafellsstofu, gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina en þá byrjar mild hækkun að útsýnisstaðnum sem er fyrir ofan fossinn. Leiðin leiðir þig síðan að fossinum og yfir göngubrú til að komast að hinu gljúfrinu og að öðrum útsýnisstað. Á leiðinni til baka í gestastofuna liggur leiðin framhjá gömlu torfhúsi sem heitir Sel. Þetta er auðveld ganga og tilvalin leið til að njóta Skaftafellsþjóðgarðs.
Öryggið í fyrirrúmi
Kynntu þér leiðina áður en þú heldur af stað og vertu alltaf á merktum stígum. Veðrið mun líklega breytast meðan á göngunni stendur, svo þú verður að skoða veðurspána áður en þú ferð út.
Klæddu þig vel: taktu með húfu, hanska, hlýja peysu, vatnsheldan jakka og buxur. Pakkaðu nesti og vatni, jafnvel fyrir stuttar göngur. Skildu eftir ferðaáætlun á Safetravel.is eða láttu einhvern vita um áætlanir þínar ef um lengri göngu er að ræða. Aldrei fara í gönguferð án þess að vera með fullhlaðinn síma.