Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Álftaversgígar
Álftaver er víðáttumikil sveit sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið. Ofan og vestan við byggðina eru miklar þyrpingar gervigíga sem kallast Álftaversgígar. Álftaversgígar hafa verndað byggðina að verulegu leyti fyrir jökulhlaupum samfara Kötlugosum.Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti.  
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund. Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.  Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.   Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.  Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.    JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Ósland
Ósland er eyja staðsett nokkrum skrefum frá bryggjusvæðinu á Höfn. Eitt sinn þurfti að sigla út í Ósland en núna er hægt að ganga þangað þökk sé manngerðri landbrú. Ósland er verndað svæði og er vinsæl gönguleið í kringum Óslandstjörn og með fram sjónum. Þar er ríkt fuglalíf og er æðarkollan ríkjandi á varptíma.  Á Óslandshæðinni er minningarvarði sjómanna sem fórust við vinnu sína og upplýsingaskilti um umlykjandi umhverfi. Frá Óslandi er hægt að ganga stíg sem er prýddur sólarkerfinu í réttum hlutföllum. Einnig eru sjáanleg för eftir tré í basalt steinum á svæðinu; tré sem urðu umlukin hrauni fyrir allmörgum árum.   
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg.  Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.  Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.  
Kirkjugólf
Kirkjugólfið er í túninu rétt austan Kirkjubæjarklausturs. Þetta er u.þ.b. 80 m² jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, þar sem sést ofan á lóðréttar blágrýtissúlur. Þarna hefur aldrei staðið kirkja en það er engu öðru líkara en flöturinn hafi verið lagður af manna höndum.  Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni, þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn. Kirkjugólf er friðlýst náttúruvætti.  
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.  Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.  Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.  Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.  
Kerlingarfjöll
Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau. Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.). Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar. Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum. Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.
Lónsöræfi
Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll, Lónsöræfi eru nýrra heiti á sama svæði og nær yfir svæðið sem liggur á milli Snæfells og Stafafellsfjalla. Svæðið er þekkt fyrir falleg og litrík fjöll ásamt fjölbreyttum gönguleiðum. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum.
Friðland að Fjallabaki
Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda þessar sérstæðu jarðminjar, landslag, lífríki og ósnortin víðerni svæðisins. Friðlandið er 446,24 km2 að stærð og innan þess eru Landmannalaugar þar sem er upphaf margra vinsæla gönguleiða, þar á meðal Laugavegurinn.  Nánari upplýsingar um svæðið má finna á vef Umhverfisstofnunar . 
Hellarnir að Hellum
Á Hellum eru þrír hellar sem bærinn dregur nafn sitt af. Hellar þessir eru manngerðir, höggnir í sandstein, og er sá stærsti þeirra lengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki er vitað nákvæmlega hve gamlir þessir hellar eru en talið er að þeir séu mögulega frá því fyrir eiginlegt landnám Íslands og hafi verið gerðir af Pöpum þ.e.a.s. írskum munkum sem tóku sér bólfestu hér á landi fyrir tíma víkinganna (um 900).Hinsvegar er hægt að segja með fullri vissu að hellarnir séu að minnsta kosti jafngamlir bæjarnafninu Hellar enda harla ólíklegt að nefna bæinn þetta ef engir væru hellarnir á staðnum. Fyrstu ritaðar heimildir um bæinn Hella í Landsveit eru frá árinu 1332 og því eru hellarnir að minnsta kosti 600 ára gamlir þótt hugsanlegt sé að þeir séu jafnvel enn eldri.Hellarnir á Hellum eru friðlýstir af Minjastofnun Íslands.
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn. Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000. Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst. 
Surtsey
Surtsey, á heimsminjaskrá UNESCO frá júlí 2008Yngsta eyja við Ísland, syðst Vestmannaeyja og önnur að stærð, um 1,9 km². Að morgni 15. nóvember 1963 örlaði fyrir eyju þar sem Surtsey er nú, en árla morguns daginn áður urðu menn varir við stórkostleg eldsumbrot úr hafinu þar sem áður hafði verið um 130 m dýpi. Sprengigosin úr gígnum fyrstu mánuðina voru stórkostleg á að líta og í kröftugustu sprengingunum náði grjótflugið úr gígnum allt að 2500 m hæð en gosmökkurinn komst mest í 9 km hæð. Í aprílbyrjun 1964 hættu sprengigosin en hraungos hófst og stóð óslitið til vors 1965. Mestri hæð náði Surtsey 174 m y.s. Surtseyjargosið er mest allra sjávargosa sem orðið hafa við Íslandsstrendur frá því er sögur hófust en sagnir eða heimildir eru til um 10-20 slík gos. Í maí 1965 hófst síðan gos í sjó 600 m austar og hlóðst þar smám saman upp eyja, Syrtlingur. Hún var í september 1965 um 70 m há og 650 m á lengd en brotnaði niður í brimi í október og er þar nú neðansjávarhryggur sem eyjan var áður. Á jólunum 1965 tók síðan að gjósa um 900 m suðvestan Surtseyjar og hlóðst þar upp eyja sem kölluð var Jólnir. Gos hætti í Jólni í ágúst 1966 og í lok október 1966 var eyjan horfin. Hinn 19. ágúst 1966 opnaðist gossprunga á Surtsey og flæddi hraun úr henni í sjó. Þessu gosi lauk í júní 1967 og var Surtseyjargosinu þar með lokið.  Jafnskjótt og gosið hófst tóku vísindamenn að kanna það, hegðun þess og áhrif. Síðan gosinu lauk hefur rannsóknum verið haldið áfram í eyjunni, bæði til að kanna hversu fer um jarðlög eyjarinnar sjálfrar en ekki síður á landnámi lífvera, dýra og plantna, og hvernig þær hafast við. Bann við ferðum manna, annarra en vísindamanna, var sett til að hægt væri að fylgjast með því hvernig náttúran sjálf annast landnám lífveranna og hversu þær dafna á nýju og lífvana landi. Hafa vísindamenn dvalið þar tíma og tíma og var hús reist á eyjunni í því skyni árið 1965. Stofnað var Surtseyjarfélag til að hafa stjórn á og annast rannsóknir í Surtsey. Hefur það gefið út skýrslur um rannsóknirnar auk þess sem einstakir fræðimenn hafa skrifað fjölda ritgerða um þær.
Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.Gjáin í ÞjórsárdalSérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil
Ingólfshöfði
Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda.  Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.  Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi.  
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.701 ferkílómetrar) og er þar með næst stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins. Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra. Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 7.780 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram. Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa. Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands. Vatnajökulsþjóðgarður Skaftárstofa Skaftafellsstofa