Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Lögberg og Lögrétta
Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Þinghald
Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.
Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.
Jarðsagan
Á undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.
Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.