Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.
Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- og
hjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.