Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Náttúra og dýralíf

Mikil fjölbreytni er í náttúru- og dýralífi á Vitaleiðinni. Mikið fuglalíf er á svæðinu auk þess að strandlínan er mjög fjölbreytt, sandfjörur, hraunfjörur og sjávarhamrar. Úr fjörunni má oft sjá seli í sjónum rétt fyrir utan land. 

Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.  
Þjórsárhraun
Þjórsárhraun er stærsta hraunbreyða landsins hvort sem er um að ræða að flatarmáli eða á rúmmáli. Einnig er Þjórsárhraun stæðsta hraunbreyða sem runnið hefur á jörðinni síðan lok síðustu ísaldar en það staðnaði við öldur Atlantshafsins frá 6700 f. krist. Áætlað er flatarmálið sé 974 km² og þykktin 15-20m að meðaltali en þar sem hraunið er þykkast er um 40m. Þjórsárhraun er helluhraun og úr dílabasalti ásamt ljósir feldspatdílar sem sitja í dökkum fínkorna grúnnmassa. Upphaf eldstöðvarinnar er á Veiðivatnasvæðinu og er horfið undir yngri gosmyndanir sem liggja um 70 km niður eftir Tungná og Þjórsá. Meðfram jöðrum hraunsins liggur Þjórsáin og Hvítá sem er einnig Ölfusá en á 17 öld fluttist Ölfusársós um 2-3 km í austur átt. Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri eru byggð á Þjórsárhrauninu. Sést vel á sjávargörðum Stokkseyrar sjávarhluti Þjórsárhrauns og þar sést hvar aldan skellur á hraunjaðrinum úti í sjónum en á sjálfri ströndinni eru álar og rásir í hraunskerjunum.
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.   Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- oghjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.  
Fuglar á Suðurlandi
Suðurland hefur uppá margt að bjóða fyrir fuglaskoðara. Víðáttumikil votlendi, sjófuglabyggðir, hálendisvinjar og óvenjulega fjöru svo dæmi sé tekið. Sjá myndasöfn frá mismunandi svæðum.  Fuglar á Suðurlandi er samstarfsvettvangur aðila sem áhuga hafa á þessu málefni. Bæði taka þátt í verkefninu fyrirtæki í ferðaþjónustu, vísindamenn og einstaklingar með áhuga á fuglum og fuglaskoðun. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Suðurlands 2010 - 2013. Nánar um fugla og fuglaskoðun á Suðurlandi er hægt að finna hér.