Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Saga vitanna og sjósókn

Vitarnir þrír sem marka Vitaleiðina eru Selvogsviti í vestri, Hafnarnesviti í Þorlákshöfn og Knarrarósviti í austri. 
Selvogsviti, 15 metra hár með ljóshæð 21 metra yfir sjávarmáli, er þeirra elstur, byggður 1919 og svo endurbyggður 1931. Hafnarnesviti, 8 metra hár með ljóshæð 12 metra yfir sjávarmáli, var byggður 1951 og Knarrarósviti, 22 metra hár með ljóshæð 30 metra yfir sjávarmáli, byggður 1939.

Útsýnið úr Knarrarósvita er einstaklega fallegt og mikið, opnað er fyrir hópa upp í vitann. 

Sjósókn á sandi

Suðurströndin er svo gott sem hafnlaus; lélegar hafnir eru á Eyrarbakka og Stokkseyri og síðan er hafnleysi austur að Höfn í Hornafirði. Ekki má samt gleyma Vestmannaeyjum, þar er góð höfn í Heimaey og hafa Eyjar um aldir verið helsti útgerðarstaðurinn á Suðurlandi. Útræði hefur og lengi verið frá Þorlákshöfn.

Á umliðnum öldum hefur þessi hafnlausa strönd orðið hinsti hvílustaður margra skipa, bæði útlendra og innlendra. Ferjuhöfn til að sinna Eyjasiglingum var vígð á Landeyjasandi árið 2010. Vegna staðsetningar hennar koma reglulega upp vandamál vegna sandburðar inn í höfnina. Í byrjun mátti rekja stóran hluta sandburðarins til aukins framburðar úr Markarfljóti vegna Eyjafjallajökulsgossins sama ár og höfnin var vígð.

Á opnum árabátum við brimasama strönd

Áður fyrr var mikið útræði á Suðurströndinni á opnum árabátum, sennilega mest úr Mýrdal og undan Eyjafjöllum. Útræðið var snar þáttur í atvinnulífi sveitanna og þeirra aðalbjargræði í hörðum árum. Sjósókn er þar nú löngu aflögð, enda var hún lífshættuleg og fórust margir bátar og sjómenn drukknuðu í brimgarðinum, þegar verið var að lenda eða leggja af stað frá hafnlausri sandströndinni.

Verstöðin Þorlákshöfn

Þorlákshöfn var dæmigerð verstöð, þangað komu bændur og vinnumenn úr öðrum landshlutum á vertíð, oftast vetrarvertíð, sem stóð frá 2. febrúar til 11. maí.  Í Þorlákshöfn er góð náttúruleg höfn og skammt í fengsæl fiskimið. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 30-40 skipum frá Þorlákshöfn og hafa því íbúarnir verið um 3-400 yfir vertíðina og bjuggu þeir í verbúðum, byrgjum sem hlaðin voru úr grjóti og torfi. Menn höfðu með sér skrínukost að heiman. Þetta úthald reyndi bæði á sál og líkama vermanna, en þeir styttu sér stundir í landlegum við leiki, kveðskap og sögðu sögur.

 

Selvogsviti
Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m. Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki.  Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita og 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarvari. Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.  Selvogsviti er hluti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér . 
Knarrarósviti
Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarraóssvita og var hann tekinn í gagnið ári síðar eða 31. Ágúst 1939. Þjónaði hann griðalega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma því innsiglingarnar voru hættulegar á þessu svæði. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum. Knarraóssviti er 22 metrar að hæð, fallegur og rammbyggður. Útsýnið úr honum er einstaklega fallegt og mikið. Var hann með 6000 kerti sem er meðal stærð á vita á þessum tíma sem hann var byggður. Hönnun vitans er áhugaverð blanda af fúnkis og art nouveau stíl. Knarrarósviti er hliti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér.