Þorpin
Þorpin þrjú á Vitaleið eru einstök, hvert á sinn hátt, Stokkseyri, Eyrarbakki og Þorlákshöfn. Öll eru þau sjávarþorp þó nú á dögum sé aðeins landað fiski í Þorlákshöfn. Eyrarbakki er þeirra elst þar sem elsta húsið í þorpinu, Húsið, var byggt árið 1765. Á einokununartíma danska kóngsins var Eyrarbakki einn stærsti bær á Íslandi, fjölmennari en Reykjavík og þaðan sóttu bændur á Suðurlandi sinn kost. Um tíma leit út fyrir að Eyrarbakki, með allri sinni þjónustu og verslun, yrði höfuðborg landsins.
Um 1890 hófst myndun þéttbýlis á Stokkseyri og stóð það uppbyggingartímabil fram yfir 1930 þar sem bárujárnsklædd timburhús risu smátt og smátt í stað torfbæja. Annað uppbyggingartímabil varð í kringum 1960. Í dag einkennist húsaþyrpingin af blöndu gamalla og nýrri húsa. Yfir staðnum gnæfir svo frystihúsið og við hlið þess Stokkseyrarkirkja. Upplýsingar um staðhætti og örnefni má sjá á útsýnisskífu sunnan kirkjugarðsins.
Þorlákshöfn dregur nafn sitt af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193). Útræði hófst snemma frá Þorlákshöfn. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 20-30 skipum frá Þorlákshöfn og hafa íbúarnir verið um 3-400 yfir vertíðina. Núverandi þéttbýli myndaðist um og upp úr miðri síðustu öld í kjölfar uppbyggingar öflugrar útgerðar á vegum Meitilsins hf. Mikil fólksfjölgun varð einnig á áttunda áratugnum í kjölfar eldgossins í Heimaey. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Þorlákshöfn á síðustu árum.