Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eldgos eru mjög mismunandi að gerð, allt eftir því hvaða kvikugerð kemur upp, hvernig það berst upp á yfirborðið og í hve miklu magni. Á Íslandi er ótrúleg fjölbreytni í tegundum eldgosa. Hér verða gos undir jökli, í sjó, dyngjugos, flæðigos og sprengigos af öllum stærðum og gerðum. Einnig kemur fyrir að gos breytist, t.d. úr gjóskugosi eða sprengigosi í hraungos. Það gerðist sem dæmi í Surtseyjargosinu, til að byrja með var það öflugt gjóskugos í sjó, en þegar eyja hafði myndast fór að renna hraun – vísindamönnum og fleiri til mikillar ánægju því það styrkti eyjuna mikið fyrir ágangi sjávar. Nokkrar aðrar eyjar komu upp í sömu goshrinu, en þær hurfu allar.

Dyngjugos

Dyngjugosin áttu sitt blómaskeið þegar ísöld lauk fyrir 10-12 þúsund árum. Þá reis landið eftir að þungi jökulsins hafði haldið því niðri. Eldgos urðu tíðari og stór flæðigos urðu utan við megineldstöðvarnar. Kvika virðist hafa komið alla leið úr möttlinum, enda enginn kvikuhólf undir dyngjunum. Sprungurnar voru sjálfsagt langar í byrjun en þegar leið á gosin þjappaðist virknin í einn gíg og mynduðust að lokum dyngjur. Stærsta dyngja landsins er Skjaldbreið. Gosið sem myndaði fjallið hefur sennilega varað í áratugi. Dyngjugosunum fækkaði mikið þegar landrisið hafði náð jafnvægi og hefðbundin gosvirkni tók við.

Hraungos og flæðigos

Hraungos er, eins og nafnið bendir til, gos þar sem megnið af gosefnunum kemur upp sem hraun. Í flestum tilfellum er um basalthraun að ræða en það greinist svo í þykkt, seigfljótandi apalhraun (hraungos) eða þunnt helluhraun sem getur runnið allhratt (flæðigos). Skaftáreldar eru dæmi um hraungos.

Sprengigos eða þeytigos

Eru strangt til tekið sami hluturinn. Kvikan kemst í snertingu við vatn, annaðhvort ofarlega í jarðskorpunni (grunnvatn) eða við yfirborðið. Einnig skiptir máli hve hratt kvikan þrýstist upp í gegnum gosrásina. Gos undir jökli eða í sjó eru líklegust til að verða sprengigos en það þarf þó ekki alltaf til. Öskjugosið 1875 er dæmi um mjög öflugt sprengi- eða þeytigos.

Gos undir jökli

Margar megineldstöðvar á Íslandi eru huldar jökli. Á Suðurlandi eru Katla, Eyjafjallajökull, Bárðarbunga og Grímsvötn þeirra helst. Gos undir jökli hafa þau sérkenni, að þar koma gosefnin upp sem gjóska eða aska, og þá í gjóskugosum eða sprengigosum. Þessháttar gos verða vegna þess að gosefnin komast í snertingu við vatn.

Jökulhlaup

Hættan sem stafar af gosum undir jökli er bæði vegna öskufalls, sem oft er mjög mikið, og ekki síður vegna jökulhlaupa sem eiga sér stað þegar jökullinn bráðnar undan eldgosinu. Á Suðurlandi eru stór óbyggileg landflæmi vegna þess að jökulhlaup verða þar með reglulegu millibili. Sandarnir undir Mýrdalsjökli og Vatnajökli eru tilkomnir vegna jökulhlaupa, aðallega frá Kötlu (Mýrdalssandur) og Grímsvötnum (Skeiðarársandur).

Gos í sjó

Eldsumbrot undan Reykjanesi hafa verið tíð í gegnum aldirnar. Surtseyjargosið 1963-67 er með þekktari gosum sem orðið hafa í sjó. Staðsetning þess kom á óvart, Vestmannaeyjakerfið var talið óvirkt fram að því. Síðan gaus aftur í Eyjum í Heimaey 1973. Gos í sjó eru svipuð gosum í jökli að því leiti að gosefnin eru fyrst og fremst gjóska. Nái gosið að mynda eyju, þá getur hraun farið að renna eins og gerðist í Surtsey. Gos í sjó hafa sjaldnast valdið tjóni á Íslandi. Þau eru reyndar sjaldan stór og ekki er víst að öll þeirra nái yfirborði og því verður þeirra ekki alltaf vart nema á mælitækjum.