Hella
Hella er stærsti byggðarkjarni sveitarfélagsins með tæplega 1000 íbúa. Á Hellu byggist atvinnulífið að miklu leyti upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað.
Á Hellu eru einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, handverks- og gjafavöruverslun, blómabúð, hársnyrtistofa, snyrti- og fótaaðgerðastofa, sjúkraþjálfarastofa, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk fleiri stofnana og þjónustu. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu.
Saga þéttbýlisins nær aftur til ársins 1927 þegar þar var rekin verslun sem óx jafnt og þétt með uppbyggingu Kaupfélagsins Þórs og varð staðurinn helsti kaupstaður vesturhluta Rangárvallasýslu. Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum.
Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári.
Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin sex landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014 og 2021.