Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar.
Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.