Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.
Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.
Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.
Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.
Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.
Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.
Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.
Gjáin í Þjórsárdal
Sérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil