Skaftáreldahraun
Hraunflóð það hið mikla sem rann úr Lakagígum á Síðumannaafrétti er Síðueldur brann árið 1783, oft nefnt Eldhraun af heimamönnum. Skaftáreldahraun er talið 565 km² en rúmtak þess er um 12 km³. Lengd fram í Meðalland er um 60 km. Gígaröðin, Lakagígar, er um 25 km á lengd. Gefa þessar tölur þó fremur óljósa mynd af því hversu feikilegt hraunflóð þetta var. Er það talið hið mesta sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi síðan sögur hófust. En auk hraunflóðsins kom upp allmikil gjóska. Barst askan um mikinn hluta landsins en öskulag varð hvergi þykkt, jafnvel ekki í nærsveitum. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti austur til Altaifjalla í Asíu. Hér á landi fylgdi eitur og ólyfjan öskufallinu svo að gróður sölnaði og varð eitraður. Brennisteinsfýlu svo mikla lagði af gosmekkinum að illvært varð úti.
Skaftáreldahraun breiddist út um mikið svæði uppi á Síðumannaafrétti, umhverfis eldstöðvarnar, en féll síðan í tveimur meginstraumum til byggða. Vestari kvíslin, Ytra-Eldhraunið, kom úr gígum sunnan Laka og féll niður farveg Skaftár. Fyllti hraunflóðið djúpt gljúfur er Skaftá rann í milli Síðu og Skaftártungu. Talið hefur verið að gljúfrið væri 37 km langt og 150-200 m djúpt. Síðan rann hraunið hlíða á milli í dal þeim er verður milli Skálarfjalls og Skaftártunguhálsa og breiddi úr sér á láglendinu til suðurs og austurs. Alls tók hraunflóðið af nær 20 býli í Skaftártungu, á Út-Síðu, í Landbroti og Meðallandi. Flest þeirra byggðust aftur en stórlega skert.
Mjög góður staður til að horfa yfir Skaftáreldahraunið er stuttu áður en komið er austur að Kirkjubæjarklaustri. Þar eru bílastæði og upplýsingaskilti.