Þykkvabæjarklaustur
Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaður í Álftaveri. Þar var munkaklaustur í katólskum sið, stofnað árið 1168, og hélst til siðaskipta. Munkur í Þykkvabæjarklaustri var Eysteinn Ásgrímsson, sem uppi var á 14. öld. Stuðlabergssúla er reist á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið.
Þykkvabær í Veri
Þorkell Geirason, bóndi að Þykkvabæ (d. 1187), gaf Kristi allar eigur sínar og lét stofnsetja klaustur honum til dýrðar. Þorlákur, síðar helgi, Þórhallsson var fenginn til verksins og var Ágústínusarklaustur stofnað 1168. Gerðist hann munkur (kanoki) í klaustrinu þegar í upphafi og varð fyrsti ábóti þess. Á árum Þorláks sem ábóta varð þess vart að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og árið 1984 gerði kaþólski páfinn John Paul II Þorlák helga að verndardýrlingi Íslands.
Klaustrið gegndi mikilvægu hlutverki sem menningar- og heilbrigðisstofnun. Vitað er með vissu að á tímum Brands Jónssonar ábóta (f. 1202 - d. 1264) var skóli rekinn í klaustrinu og sneri hann Alexanders sögu á íslenska tungu. Athyglivert er að rittengsl eru talin vera á milli texta Njáls sögu og þýðingar Brands ábóta á Alexanders sögu. Fleiri þekkt ritverk og kvæði urðu til í klaustrinu. Eysteinn Ásgrímsson munkur orti þar hið þekkta helgikvæðið Lilju sem „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Alla jafna hefur verið margmenni í klaustrinu en auk munka, sem sennilega voru um 13 talsins, dvöldu í klaustrinu vistmenn og óvígt vinnufólk. Því þurfti stórt bú til að standa undir mjólkur- og kjötþörf klaustursins og var bústofninn árið 1340: 250 kýr, 84 geldneyti, 410 sauðfé og 53 hross. Vitnisburð um forna búskaparhætti má sjá í gömlum rústum, Fornufjósum, sem standa norðan við
klausturhólinn og eru friðlýstar.
Á þessum tíma voru hafskipasiglingar mögulegar að þröskuldum klaustursins þar sem Kúðafljót var skipgengt og því aðdrættir til klaustursins greiðir. Samband við erlenda trúbræður var þar af leiðandi auðveldara en ætla mætti. Það segir okkur að landslag hér hafi verið ólíkt því sem nú er og var meðal annars farið á bátum frá klaustrinu að Fornufjósum og göngubrú var lögð að Nunnutóttum sem eru taldar rústir hússins þar sem nunnur frá Kirkjubæjarklaustri gistu í heimsóknum sínum. Til að tryggja allt siðgæði var brúin að sjálfsögðu tekin upp yfir nóttina.
Við siðaskipti færðust eignir kirkjunnar til Danakonungs og voru eignirnar aðgreindar frá óðalseignum bænda með heitinu konungsjörð. Sérstakir klausturshaldarar voru fengnir til að hafa umsjón með eignunum. Nær öll skjöl frá tímum klaustursins hafa glatast en sum þeirra tók Árni Magnússon til Danmerkur þar sem þau brunnu inni. Önnur fuku burt úr skemmdum húsum klaustursins eða voru notuð til uppkveikju á köldum vetrarkvöldum. Vegna ágangs Kötlugosa og sandfoks hurfu einnig hús og byggingar klaustursins en eftir standa örnefni og munnmælasögur.