Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fjölmargir gullfallegir fossar eru innan Kötlu jarðvangs og flestir þeirra eiga það sameiginlegt að falla fram af gömlum sjávarhömrum sem mynduðust við lok síðasta jökulskeiðs. Fossarnir sem taldir eru upp hér eru allir við eða nálægt þjóðveg 1 og er aðgengi að þeim flestum mjög gott og fært fyrir flesta. Þá eru einnig fjölmargir aðrir fossar innan jarðvangsins, sem og aðrir spennandi staðir og sýningar, sem við hvetjum fólk til að kíkja á í leiðinni. Stutta leiðin er á milli Hvolsvallar og Víkur og er ferðatími leiðarinnar um 2 klst. Lengri leiðin nær austur fyrir Kirkjubæjarklaustur og tekur um 4 klst að keyra hana. Styttri hringurinn hentar því vel sem dagsferð, á meðan það gæti verið gott að gista einhvers staðar á leiðinni þegar lengri hringurinn er farinn, en nóg er af hótelum og tjaldstæðum innan Kötlu jarðvangs.

 

 

Gluggafoss
Gluggafoss er fallegur foss um 21 km austan við Hvolsvöll. Til að komast að honum er keyrt í gegnum Hvolsvöll og út á Fljótshlíðarveg (261) og keyrt áfram að afleggjaranum að fossinum. Auðvelt er að ganga að fossinum og það er fallegt útsýni þaðan, m.a. yfir Stóra-Dímon, Eyjafjallajökul og inn í Þórsmörk.






 

Seljalandsfoss og Gljúfrabúi
Seljalandsfoss þekkja flestir, enda glæsilegur foss. Við viljum líka minna á Gljúfrabúa, annan foss sem er um 300 metra norðan við Seljalandsfoss, og er ekki síður fallegur foss. Seljalandsfoss er í um 15 mín fjarlægð frá Hvolsvelli og nálægt þjóðvegi 1, en beygt er til vinstri út á Þórsmerkurveg (249) rétt eftir að keyrt er yfir Markarfljótsbrúnna.

 

 

 

 

Drífandi
Er foss undir Eyjafjöllum og ber oft ekki mikið á honum. Fossinn er þekktur fyrir að ná ekki að falla til jarðar, þar sem hvassviðri feykir oft vatninu í burtu áður en það nær að falla alla leið niður. Lítið bílastæði er við þjóðveg eitt, framan við veðurskiltin hægra megin við veginn stutt eftir beygjuna inn að Seljalandsfossi.

 

 

 



 

Skógafoss
Skógafoss er við Skóga undir Eyjafjöllum, um 48 km frá Hvolsvelli. Fossinn er 62 metra hár og er einn tignarlegasti foss landsins. Hægt er að ganga meðfram Skógá inn í smá gljúfur og alveg að hylnum undir fossinum. Skógafoss er rétt af Þjóðvegi eitt, en beygt er inn að Skógum og er gott bílastæði þar nálægt fossinum. 

 

 

 

 

Kvernufoss
Kvernufoss er í gili rétt austan við Skógafoss. Fossinn sést vel frá þjóðveginum, en betra er að ganga að honum frá Skógum. Göngustígur er að fossinum frá bílastæði Samgöngusafnsins að Skógum og er tilvalið að skella sér á Skógasafn í leiðinni. 

 

 

 

 

 

Systrafoss
Systrafoss heitir þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fossinn er oft vatnslítill, en er glæsilegur annars. Komist er að fossinum með því að keyra Klausturveg til vesturs þegar komið er inn í Kirkjubæjarklaustur. 

 

 

 

 


Stjórnarfoss

Er lítill en gullfallegur foss um 1 km norðan við Kirkjubæjarklaustur. Fossinn er í ánni Stjórn sem á upptök sín í Geirlandshrauni á hálendinu. Fossinn er nálægt tjaldsvæðinu Kleifar og er upplagt að ganga þaðan að gilinu sem fossinn er í, en sú ganga er stutt.

 

 

 

 

 

Foss á Síðu
Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur, við Þjóðveg 1. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem nefnist Þórutjörn. Greiðfær gönguleið er upp að Þórutjörn og þaðan er fallegt útsýni yfir Síðu. Skammt frá Fossi á Síðu eru einnig Dverghamrar sem eru sérkennilegar og fagurlega formaðar stuðlabergs klettaborgir úr blágrýti.

 

 

Hér getur þú fengið prentvæna útgáfu af leiðinni.

Fyrir frekari upplýsingar um fossa, jarðvætti og gistingu er hægt að kíkja inn á www.katlageopark.is