Jarðvætti við Þjóðveginn - 1-2 daga ferð
Fjölmargir þekktir áfangastaðir eru innan Kötlu jarðvangs og er fjölbreytileiki þeirra mikilli og allir ættu að geta fundið eitthvað fyrir sig. Innan jarðvangsins eru fjölmargar eldstöðvar, tignarleg fjöll, fagrir fossar, mosavaxin hraun og stórar fjörur. Jarðvættin sem talin eru upp hér eru öll nálægt þjóðvegi 1 og er aðgengi að þeim flestum mjög gott og fært fyrir flesta. Þá eru einnig fjölmörg önnur jarðvætti innan jarðvangsins, sem og sýningar og söfn, sem við hvetjum fólk til að kíkja á í leiðinni. Dagsferðin nær á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og tekur rúmlega 2 klst að keyra leiðina, en bætist við tíminn sem stoppað er á hverjum stað. Gaman getur verið að sameina þessa leið öðrum leiðum um jarðvanginn, t.d. fossaferðinni, og þá gera ferðina að tveggja til þriggja daga ferð.
Vík í Mýrdal
Margt hægt að gera í Vík, en við mælum með sýningunum hjá Lava show og Kötlusetri, og fyrir meiri útiveru þá er hægt að fara í Zipline eða reiðtúr. Þá er alltaf gaman að kíkja í Víkurfjöru og í Vík er bæði tjaldstæði og sundlaug.
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er einn fegursti móbergsstapi á Íslandi og með merka sögu. Lítið bílastæði er vestan megin við höfðann og byrjar gönguleið upp á höfðann þaðan. Þá er einnig þess virði að ganga eða keyra suður fyrir höfðann, en þar er stór móbergshellir.
Laufskálavarða
Er hraunhryggur með vörðuþyrpingum allt í kring, en sagan segir að hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða þar vörðu sér til fararheilla. Hryggurinn er á milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri, og er glæsilegt útsýni þaðan yfir fjöllin í kring.
Fjaðrárgljúfur
Er stórt og mikið gljúfur með fallegum móbergsmyndunum og rennur áin Fjaðrá þar nú í gegn. Móbergið sjálft er um 2 milljón ára gamalt, en gljúfrið var grafið af jökulá við lok síðasta jökulskeiðs. Gönguleið er meðfram gljúfrinu og er útsýnið stórkostlegt.
Landbrotshólar
Eru gervigígaþyrping sem myndaðist í gosinu úr Eldgjá í kringum árið 939. Landbrotshólarnir urðu til þegar hraun rann yfir mýrlendi, en þá myndast mikill gufuþrýstingur undir hrauninu sem á endanum brýst í gegnum hraunið og myndar gervigíga. Hægt er að ganga að sumum gígunum og eru nokkrir þeirra holir að innan.
Kirkjubæjarklaustur
Kirkjubæjarklaustur er umkringt mikilli náttúrufegurð, og er m.a. nokkrar fallegir fossar í næsta nágrenni og mikið af gönguleiðum í kring sem liggja um sögufræg svæði. Bæði sundlaug og tjaldsvæði eru við þorpið og við mælum einnig með að kíkja við í Skaftárstofu.
Systrastapi
Er fallegur stapi vestan við Kirkjubæjarklaustur þar sem legstaður tveggja klaustursystra á að vera. Stöðuvatn er ofan á fjallsbrúninni við Klaustur, sem nefnist Systravatn og úr því rennur áin Fossá. Í Fossá er fossinn Systrafoss sem fellur fram af fjallsbrúninni og sést vel úr þorpinu.
Kirkjugólf
Kirkjugólfið er rétt norðan Kirkjubæjarklausturs. Þetta er u.þ.b. 80 m² jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, þar sem sést ofan á lóðréttar blágrýtissúlur og gefur öðruvísi og skemmtilegt sjónarhorn á stuðlabergið. Þarna hefur þó aldrei staðið kirkja en það er engu öðru líkara en flöturinn hafi verið lagður af manna höndum.
Lómagnúpur
Lómagnúpur er 767 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður, en stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamranna.
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að kíkja inn á www.Katlageopark.is.
Hér getur þú fengið prentvæna útgáfu af leiðinni.