Jarðvætti við Þjóðveginn - 1-2 daga ferð
Fjölmargir þekktir áfangastaðir eru innan Kötlu jarðvangs og er fjölbreytileiki þeirra mikilli og allir ættu að geta fundið eitthvað fyrir sig. Innan jarðvangsins eru fjölmargar eldstöðvar, tignarleg fjöll, fagrir fossar, mosavaxin hraun og stórar fjörur. Jarðvættin sem talin eru upp hér eru öll nálægt þjóðvegi 1 og er aðgengi að þeim flestum mjög gott og fært fyrir flesta. Þá eru einnig fjölmörg önnur jarðvætti innan jarðvangsins, sem og sýningar og söfn, sem við hvetjum fólk til að kíkja á í leiðinni. Dagsferðin nær á milli Hvolsvallar og Víkur og tekur rúmlega 2 klst að keyra leiðina, en bætist við tíminn sem stoppað er á hverjum stað. Gaman getur verið að sameina þessa leið öðrum leiðum um jarðvanginn, t.d. fossaferðinni, og þá gera ferðina að tveggja daga ferð. Nóg er af litlum hótelum og tjaldsvæðum á svæðinu, ásamt nokkrum sundlaugum og annarri afþreyingu. Fyrir frekari upplýsingar er hægt að kíkja inn á www.Katlageopark.is.
Hvolsvöllur
Margt skemmtilegt er hægt að gera á Hvolsvelli, m.a. er hægt að heimsækja Lava sýninguna og Sögusetrið, þá eru einnig nokkrar gönguleiðir í og við bæinn ásamt veitingastöðum, matvöruverslun, bensínstöð, tjaldstæði og sundlaug.
Seljalandsfoss og Gljúfrabúi
Seljalandsfoss þekkja flestir, enda glæsilegur foss, og nú er gott tækifæri til að skoða hann almennilega. Við viljum líka minna á Gljúfrabúa, annan foss sem er um 300 metra norðan við Seljalandsfoss, og er ekki síður fallegur foss.
Steinahellir
Er lítill móbergshellir með mikla sögu. Lítið bílastæði er fyrir framan hellinn og þar eru upplýsingaskilti um sögu hans. Þá er umhverfið í kringum hellinn ekki verra, en þar má sjá fjöldan allan af stórum björgum sem hafa hrunið úr Eyjafjöllum á síðustu árþúsundum.
Eyjafjallajökull
Upplagt er að kíkja á Eyjafjallajökul á meðan jökulinn er enn í vetrarham. Nýtt bílastæði er komið hægra megin við þjóðveginn, rétt áður en komið er að Þorvaldseyri, og gott útsýni þaðan yfir jökulinn sem og svæðið í kring.
Rútshellir
Annar móbergshellir sem er nú með hlaðið fjárhús fyrir framan. Hægt er að ganga þar inn og virða fyrir sér hellinn. Þá er Drangurinn í Drangshlíð ekki langt frá og mælum við með að kíkja þangað í leiðinni.
Skógar
Skógafoss við Skóga er einn fegursti foss landsins, en á skógum er einnig Skógarsafn sem er byggða-, húsa- og samgöngusafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Gott er að borða nesti sitt á Skógum og þá er einnig matsölustaður á safninu.
Sólheimajökull
Hægt er að ganga nokkuð langt að jöklinum án þess að þurfa útbúnað og er svæðið fyrir framan jökulsporðinn er gullfallegt. Jökullón með ísjökum hefur myndast fyrir framan jökulinn og þá er áhugavert að skoða hversu mikið jökulinn hefur hopað undanfarin ár.
Dyrhólaey
Stórbrotið útsýni og fallegar jarðmyndanir einkenna Dyrhólaey og með miklu fuglalífi. Ófært er upp á efri eyjuna, en það er stórt og gott bílastæði á Lágey og göngustígar sem liggja þaðan upp á Háey.
Reynisfjara
Er ein frægasta fjara á landinu enda stórbrotin strönd með fallegu útsýni yfir Reynisdranga og Dyrhólaey. Einnig er að finna glæsilegar jarðmyndanir í Reynisfjalli sem liggur að ströndinni. Munið að fara ekki of nálægt flæðarmálinu og þá getur grjót hrunið úr litla hellinum við ströndina.
Vík í Mýrdal
Margt hægt að gera á Vík, en við mælum með sýningunum hjá Lava show og Kötlusetri, og fyrir meiri útiveru þá er hægt að fara í Zipline eða reiðtúr. Þá er alltaf gaman að kíkja í Víkurfjöru og á Vík er bæði tjaldstæði og sundlaug.
Hér getur þú fengið prentvæna útgáfu af leiðinni.