Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ríki Vatnajökuls er stórbrotið svæði sem hefur að geyma magnaða íshella, töfrandi lón fyllt fljótandi ísjökum og jökultungur, sumar hverjar sem auðvelt er að nálgast. Þá eru strendur fylltar svörtum sandi algeng sjón í ríki Vatnajökuls. Svarti sandurinn verður til þegar jökullinn mylur berggrunn sinn. Sandurinn er borinn að sjó af jökulám þar sem öldur, vindur og straumar móta sandinn í mögnuð listaverk af náttúrunnar hendi. Skeiðarársandur, sem er staðsettur í vestasta hluta ríki Vatnajökuls, er stærsta svæði svarts sands í heiminum.  

Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands, sem og stærsti jökull í rúmmáli í allri Evrópu. Vatnajökull þekur tæp 8 prósent Íslands en hann nær yfir 7700 ferkílómetra (2021) og er meðalþykkt hans 400 metrar. Hæsti punktur jökulsins, Hvannadalshnúkur mælist 2,110 metra (6,921 ft). Frá jöklahettu Vatnajökuls liggja um 30 jökultungur sem allar bera heiti; allir jöklar og jökultungur á Íslandi bera heiti sem endar á „jökull“. Vatnajökull er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs sem einnig nær yfir stórt svæði umhverfis jökulinn. Þjóðgarðurinn hefur upp á margvíslega áhugaverða staði að bjóða og er garðurinn skyldu stopp fyrir hvern þann sem hefur áhuga á jarðfræði og fögru landslagi.  
Skeiðarársandur
Skeiðarársandur er stórt svæði þakið svörtum sandi sem nær frá Skeiðarárjökli og niður að sjó. Sandurinn þekur 1300 ferkílómetra svæði og myndaðist þegar jökulár í nágrenninu báru jarðveg að sjónum. Árnar bera með sér jarðveg sem komst upp á yfirborðið við jökulhlaup frá Vatnajökli. Við jökulinn er jarðvegurinn malarborin og jafnvel grýttur, en þegar farið er nær sjónum er hann orðinn að sandi og leir. Forðum var lítið um gróður við Skeiðarársand en á síðasta áratug hafa birkitré sprottið á sandinum og er skógurinn staðsettur miðsvæðis þar sem trén vaxa og dafna. Á Skeiðarársandi er einnig stórt varpsvæði skúmsins.  Skeiðarárbrú Brúin yfir Skeiðará á Skeiðarársandi heitir Skeiðarárbrú. Vígsla hennar árið 1974 markaði opnun hringvegsins í kringum Ísland. Skeiðarárbrú er einbreiðbrú gerð úr sérstaklega unnum stál burðargrindum. Árið 1996 varð eldgos í Grímsvötnum í Skeiðarárjökli sem olli miklum flóðum og bráðnun jökulsins. Miklar skemmdir urðu á brúnni vegna flóðanna og ísjaka á stærð við einbýlishús sem skullu á brúnni. Í dag eru einu ummerki upprunalegu brúnnar tveir beyglaðir stálbitar sem sjá má frá nýja veginum. Þeir mynda einstakan minnisvarða um fallegu en öflugu náttúruna sem einkennir Íslenskt landslag. Ný brú hefur verið reist vegna breytinga á vatnsfalli undan jöklinum. Áin sem rennur undir nýju brúna er Morsá.   
Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra. Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946. Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi. Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”
Svartifoss
Svartifoss er einn af einstöku fossunum sem suðurlandið hefur að geyma. Fossinn er staðsettur í Skaftafelli, sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Svartifoss er 20 metra hár.  Sitthvoru megin við fossinn eru háir svartir basalt veggir sem gera fossinn að einstakri sjón og er hann sannkölluð náttúruperla.  Gangan að Svartafossi hefst við upplýsinga miðstöðina í Skaftafelli og er um 1.9 km eða 45 mínútur hvora leið.   Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli, Skaftafellsstofa 
Öræfajökull
Hæsta fjall landsins (2110 m y.s.), suður úr Vatnajökli miðjum, eldkeila. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrir ofan 1000 m hæð er fjallið jökli hulið nema nokkrir klettaveggir í tindum, neðar bungar það út í meira og minna sjálfstæð randfjöll og verður því mikið um sig. Er það og annað stærsta virka eldfjall í Evrópu, næst Etnu á Sikiley, þvermál við rætur yfir 20 km og grunnflötur nær 400 km² en rúmtak nálægt 370 km³. Öræfi og Öræfajökull eru nöfn sem urðu til eftir eyðingu byggðar af völdum goss í fjallinu 1362 er áður hét Knappafell. Fer það nafn því vel, dregið af tindum þeim sem sitja á barmi öskjunnar í kolli þess og mest ber á frá suðri en tveir þeirra heita Knappar og þar af leiðir bæjarnafnið Hnappavellir. Hvannadalshnjúkur á vesturbrún öskjunnar er hæstur allra tindanna og rís um 300 m yfir marflata hjarnsléttu öskjunnar. Hann er úr líparíti. Mikill gígur eða ketilsig er í kolli fjallsins, sporöskjulaga, nær 5 km á lengri veginn og um 12 km² að flatarmáli. Að sjálfsögðu er hún full svo að flóir út af enda bætist á jökulinn allt að 10 m af snjó árlega sem samsvarar yfir 4000 mm ársúrkomu og er hún hvergi meiri hér á landi. Um dýpstu skörðin í börmum öskjunnar skríður jökullinn án afláts og myndar skriðjökla, sem falla úr 1800 m hæð alla leið niður á láglendið. Í bröttum hlíðum verða réttnefndir jökulfossar og heitir Falljökull einn hinn mesti þeirra. Aðrir stórjöklar utan í fjallinu eru Kvíárjökull og Fjallsjökull til suðausturs og hinn mikli Svínafellsjökull sem fellur til vesturs frá Hvannadalshnúki. Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið er mesta vikurgos sem orðið hefur hér á landi síðan um 800 f.Kr., gjóska áætluð um 10 km³. Gosinu fylgdi ógurlegt vatnsflóð með jakaburði og tók af marga bæi en byggð lagðist í auðn um sinn. Seinna gosið stóð nærfellt í ár, ákafast fyrstu 3 dagana með öskufalli og myrkri svo að vart sá skil dags og nætur. Drengur fórst og konur tvær sem voru í seli frá Sandfelli, einnig fórst margt búfjár en ekki tók af bæi. Mikið hlaup lagðist þó í fyrstu heim að Sandfelli og austur með Hofi og er þar enn ummerki að sjá, til dæmis báðum megin Kotár, Háöldu að vestan, með stóru, friðlýstu jakafari, og Svartajökul og Grasjökul að austan. Engin sögn er um ferð á Öræfajökul fyrr en 11. Ágúst 1794 er Sveinn Pálsson gekk á jökulinn frá Kvískerjum. Í þeirri ferð mun hann einna fyrstur manna í heiminum hafa gert sér grein fyrir að skriðjöklar hreyfast eins og seigfljótandi efni sem hnígur undan eigin þunga. Þarna hafði hann góða yfirsýn, meðal annars yfir Fjallsjökul, veitti athygli “árhringum” skriðjökulsins, svigðum eða skárum, og dró réttar ályktanir af því sem hann sá. Fyrstur til að ganga á Hvannadalshnjúk varð norskur landmælingamaður, Hans Frisak, ásamt Jóni Árnasyni, hreppstjóra á Fagurhólsmýri, sem hann fékk til fylgdar 19. Júlí 1813. Svo leið fram undir aldamót að enginn lék þetta eftir þar til F.W. Howell gekk á Hvannadalshnjúk 1891 ásamt tveim fylgdarmönnum frá Svínafelli. Úr því fór ferðum að fjölga og þykir það nú ekki lengur tíðindum sæta að ganga á hæsta tind Íslands.  Skaftafellsstofa  
Ingólfshöfði
Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda.  Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.  Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi.  
Fjallsárlón
Fjallsárlón er jökullón innan Vatnajökulsþjóðgarðs í um 10 km fjarlægð vestan við Jökulsárlón. Fjallsjökull skríður þar niður brattan úr meginjöklinum og út í um 4 km2 stórt jökullónið hvar njóta má friðsældar og ósnortinnar náttúru. Á lóninu er boðið upp á bátsferðir og veitingasala er á svæðinu. 
Jökulsárlón
Jöklsárlón er sennilega eitt af kennileitum Suðausturlands, enda einstök náttúrusmíð. Svæðið er einnig aðgengilegt allt árið enda liggur þjóðvegur 1 um Breiðamerkursand og framhjá lónínu. Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017. Jöklsárlón fór fyrst að koma í ljós upp úr 1930, í kjölfar hopunar Breiðamerkurjökuls. Jökulinn var í mestri útbreiðslu (frá landnámi) við lok 19. aldar. Jökulgarðar sunnan við Jökulsárlón eru eftirstandandi sönnunarmerki um hvar jökulsporðurinn lá fyrir meira en 100 árum. Lónið sjálft er afleiðing af greftri Breiðamerkurjökuls, en skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Fyrir miðja 20. öld rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Nú eru amk 8 km frá jökuljaðri og að fjöru. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið. Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin,  Yfir sumarið er boðið uppá fræðslugöngur með landvörðum. Upplýsingar um göngurnar má finna á auglýsingaskilti á aðalbílastæði nálægt kaffiteríu eða á vefsíðu þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður 
Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Við hliðina á Jökulsárlóni í Vatnajökulsþjóðgarði er staður sem færri kannast við, Fellsfjara (Eystri- og Vestri-Fellsfjara), austan og vestan megin Jökulsár á Breiðamerkursandi. Hann saman stendur af sandfjörum sem eru oft skreyttar með ísjökum sem borist hafa með Jökulsá á Breiðamerkursandi að sjónum og skola svo aftur upp á sandinn með öldunum. Ísjakarnir sem minna á demanta ásamt þokunni sem leggst yfir ströndina skapa töfrandi andrúmsloft.  Ísjakarnir bjóða upp á enn stórfenglegri sjón yfir vetrarmánuðina þegar sólin rís og baðar ströndina fallegri lýsingu sem endurspeglast á ísjökunum. Að láta sig hafa biðina í myrkrinu fyrir sólarupprás er vel þess virði, þrátt fyrir nístingskulda íslensku næturinnar.
Skálafell – Hjallanes
Skálafell er staðsett á milli Jökulsárlóns og Hafnar í Hornafirði. Skálafell býður upp á glæsilegar merktar gönguleiðir í kringum svæðið, þar á meðal einungis 45 mínútna göngu að brún Vatnajökuls. Einnig hefur ný göngubrú verið reist yfir ánna Kolgrímu sem gefur möguleika á göngu um Heinaberg frá Skálafelli. Svæðið er gríðarlega vinsæll áfangastaður þegar skoða á jökulinn og náttúruna í kring.  
Heinaberg
Heinaberg er fallegt landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem bæði er að finna Heinabergsjökull og jökullónið Heinabergslón. Á sumrin er í boði að sigla á kajak innan um ísjakana í skipulögðum ferðum undir leiðsögn.  Hægt er að komast að Heinabergslón á bíl og er lónið oftar en ekki skreytt stórum ísjökum sem brotnað hafa af Heinabergsjökli. Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk þar sem þar eru margar áhugaverðar gönguleiðir þar sem bjóða gestum upp á að ganga fram á fram á fossa, gil, storkuberg, og jafnvel sjá hreindýr. Malarvegurinn að svæðinu er ekki í þjónustu yfir veturinn og miða þarf aðgengi að svæðinu á þeim tíma við aðstæður hverju sinni.
Fláajökull
Fláajökull er jökultunga Vatnajökuls sem auðvelt er að nálgast. Svæðið býður upp á mikilfenglegt útsýni yfir jökulinn sem hopað hefur um 2 km á síðustu hundrað árum og skilið eftir sig jökullón. Svæðið er kjörinn áfangastaður fyrir g alla sem eru áhugasamir um hvernig hreyfing jökulsins hefur áhrif á nærliggjandi umhverfi.  Merkt gönguleið tengir svæðið framan við Fláajökul við skógræktarsvæðið í Haukafelli.
Haukafell
Haukafell er skógræktar verkefni stofnað 1985. Síðan hefur skógurinn vaxið og dafnað og  veitir nú gott skjól fyrir lægri gróður sem prýðir svæðið, aðallega berjarunna sem bera ávöxt í ágústmánuði.  Svæðið er staðsett austan við Fláájökul og er vinsæll útiveru staður meðal heimamanna. Umhverfið í Haukafelli er stórbrotið og eru margar gönguleiðir í boði til þess að njóta þess sem allra best.   Frá Haukafelli má finna merkta gönguleið að Fláajökli þar sem gengið er yfir nýja göngubrú yfir Kolgrafardalsá. Þar að auki er einnig vel útbúið tjaldsvæði í fallegu umhverfi í Haukafelli.  
Hoffell
Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslag umhverfis Hoffell er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Fundist hefur heitt vatn á Hoffelli og eru þar heitar laugar í náttúrulegu umhverfi. Landsvæðið einkennist af Hoffellsjökli, stórri jökultungu og gabbró grýti. Upprunalega finnst gabbró grýti djúpt neðanjarðar en það finnst á svæðinu vegna landriss og jökulrofs. Grýtið gefur umhverfinu grænan blæ meðal dökku steinanna.   Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.
Ósland
Ósland er eyja staðsett nokkrum skrefum frá bryggjusvæðinu á Höfn. Eitt sinn þurfti að sigla út í Ósland en núna er hægt að ganga þangað þökk sé manngerðri landbrú. Ósland er verndað svæði og er vinsæl gönguleið í kringum Óslandstjörn og með fram sjónum. Þar er ríkt fuglalíf og er æðarkollan ríkjandi á varptíma.  Á Óslandshæðinni er minningarvarði sjómanna sem fórust við vinnu sína og upplýsingaskilti um umlykjandi umhverfi. Frá Óslandi er hægt að ganga stíg sem er prýddur sólarkerfinu í réttum hlutföllum. Einnig eru sjáanleg för eftir tré í basalt steinum á svæðinu; tré sem urðu umlukin hrauni fyrir allmörgum árum.   
Almannaskarð
Almannaskarð er gamall fjallavegur um 10 km austan við Höfn. Vegurinn er nú lokaður fyrir bílaumferð en árið 2005 opnuðu 1300 km löng göng sem sveigist undir fjallinu. Síðan þá hefur Skarðið verið vinsælt meðal heimamanna enda skemmtileg ganga sem er verðlaunuð með mögnuðu útsýni yfir Hornafjörð og Vatnajökul þegar á toppinn er komið. Almannaskarð er tilvalið stopp fyrir þá sem kunna að meta kyrrðina og fegurðina sem sveitin hefur upp á að bjóða.  
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.   Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli. 
Hvalnes
Hvalnes er lítill skagi með svartri smásteina strönd sem nær nokkra kílómetra. Á enda Hvalness prýðir gamall, gulur viti, tilvalinn til myndatöku með stórbrotinni náttúrunni, sem og gamall torfbær sem ber sama nafn, Hvalnes.  Ströndin nær nokkra kílómetra og er tilvalin til þess að fara létta göngu eða bara til þess að slappa af á ströndinni og njóta útsýnisins. Hvalnes er kjörinn staður til fuglaskoðunar og ljósmyndunar. 
Lónsöræfi
Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll, Lónsöræfi eru nýrra heiti á sama svæði og nær yfir svæðið sem liggur á milli Snæfells og Stafafellsfjalla. Svæðið er þekkt fyrir falleg og litrík fjöll ásamt fjölbreyttum gönguleiðum. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum.