Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.703 ferkílómetrar) og er meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi.
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu að rúmmáli. Flatarmál hans er um 7.800 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram.
Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa.
Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Jökulsárlón og Breiðamerkursandur urðu svo einnig hluti af þjóðgarðinum árið 2017. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 939 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands.
Nánari upplýsingar um Vatnajökulsþjóðgarð má finna á www.vjp.is
Skaftárstofa – Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri
Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við þjóðveg eitt, við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýningu Jöklarannsóknafélags Íslands, Vorferð. Sýningin var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli.
Stuttmyndir:Eldgosið í Grímsvötnum 2011Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Opnunartímar gestastofu
Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.
View
Skaftafellsstofa – gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli
Skaftafellsstofa er upplýsinga- og fræðslumiðstöð þar sem gestir fá svör við spurningum um náttúrufar Skaftafells, gönguleiðir, gistingu og afþreyingu í næsta nágrenni.
Upplýsingar um opnunartíma má finna hér: https://www.vatnajokulsthjodgardur.is/is/svaedin/skaftafell/skipuleggja-heimsokn/skaftafellsstofa
Gönguleiðir á svæðinu eru margar og fjölbreyttar. Hér má nálgast yfirlit gönguleiða í Skaftafelli. Yfir sumarið bjóða landverðir uppá fræðslugöngur og barnastundir.
Í Skaftafellsstofu eru upplýsingar um jarðfræði og náttúru í Skaftafelli. Sýnd er mynd um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs á opnunartíma Skaftafellsstofu. Í Skaftafellsstofu má einnig sjá muni úr örlagaríkum leiðangri breskra háskólastúdenta árið 1952.
Í Skaftafellstofu er minjagripaverslun með bækur, póstkort og handverk. Lögð er áhersla á íslenskar vörur og muni sem tengjast byggðarlaginu. Þar er einnig hægt að kaupa fræðslumynd um flóð Skeiðarárjökuls árið 1996.
Veitingasala og sölubásar ferðaþjónustuaðila er á svæðinu ásamt stoppistöð áætlunarbíla.
Á tjaldsvæðinu í Skaftafelli er WC, (líka fyrir hreyfihamlaða), rennandi vatn (heitt og kalt), sturtuaðstaða, aðstaða fyrir losun húsbílasalerna, útigrill, þvottavél, þurrkari og nettenging. Þjónustumiðstöð í nágrenninu og margskonar tækifæri.
Tjaldsvæðið er opið allt árið um kring.
Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.
View
Lakagígar og Laki
Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju.
Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi.
Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971.
Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra.
LakiKollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins.
View
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána.
Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.
Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
View
Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins.
Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum.
Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni.
Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
View
Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra.
Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946.
Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi.
Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”
View
Jökulsárlón
Jöklsárlón er sennilega eitt af kennileitum Suðausturlands, enda einstök náttúrusmíð. Svæðið er einnig aðgengilegt allt árið enda liggur þjóðvegur 1 um Breiðamerkursand og framhjá lónínu. Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017.
Jöklsárlón fór fyrst að koma í ljós upp úr 1930, í kjölfar hopunar Breiðamerkurjökuls. Jökulinn var í mestri útbreiðslu (frá landnámi) við lok 19. aldar. Jökulgarðar sunnan við Jökulsárlón eru eftirstandandi sönnunarmerki um hvar jökulsporðurinn lá fyrir meira en 100 árum. Lónið sjálft er afleiðing af greftri Breiðamerkurjökuls, en skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Fyrir miðja 20. öld rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Nú eru amk 8 km frá jökuljaðri og að fjöru. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið.
Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin,
Yfir sumarið er boðið uppá fræðslugöngur með landvörðum. Upplýsingar um göngurnar má finna á auglýsingaskilti á aðalbílastæði nálægt kaffiteríu eða á vefsíðu þjóðgarðsins.
Vatnajökulsþjóðgarður
View
Skálafell – Hjallanes
Skálafell er staðsett á milli Jökulsárlóns og Hafnar í Hornafirði. Skálafell býður upp á glæsilegar merktar gönguleiðir í kringum svæðið, þar á meðal einungis 45 mínútna göngu að brún Vatnajökuls. Einnig hefur ný göngubrú verið reist yfir ánna Kolgrímu sem gefur möguleika á göngu um Heinaberg frá Skálafelli. Svæðið er gríðarlega vinsæll áfangastaður þegar skoða á jökulinn og náttúruna í kring.
View
Heinaberg
Heinaberg er fallegt landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem bæði er að finna Heinabergsjökull og jökullónið Heinabergslón. Á sumrin er í boði að sigla á kajak innan um ísjakana í skipulögðum ferðum undir leiðsögn.
Hægt er að komast að Heinabergslón á bíl og er lónið oftar en ekki skreytt stórum ísjökum sem brotnað hafa af Heinabergsjökli. Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk þar sem þar eru margar áhugaverðar gönguleiðir þar sem bjóða gestum upp á að ganga fram á fram á fossa, gil, storkuberg, og jafnvel sjá hreindýr.
Malarvegurinn að svæðinu er ekki í þjónustu yfir veturinn og miða þarf aðgengi að svæðinu á þeim tíma við aðstæður hverju sinni.
View
Hoffell
Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslag umhverfis Hoffell er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Fundist hefur heitt vatn á Hoffelli og eru þar heitar laugar í náttúrulegu umhverfi.
Landsvæðið einkennist af Hoffellsjökli, stórri jökultungu og gabbró grýti. Upprunalega finnst gabbró grýti djúpt neðanjarðar en það finnst á svæðinu vegna landriss og jökulrofs. Grýtið gefur umhverfinu grænan blæ meðal dökku steinanna.
Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.
View