ÁSAHREPPUR
Ásahreppur er hreppur vestast í Rangárvallasýslu. Áshreppingar hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og öðrum þjónustugreinum. Náttúran er mjög fjölbreytt, mýrlent á köflum en ásar og holt á milli þar sem bændabýlin standa 3 - 5 í þyrpingum eða hverfum, sem einkenna byggðamynstur sveitafélagsins. Stærsta varpland grágæsar á Íslandi er við Frakkavatn. Þjórsá rennur við hreppamörkin og sýslumörkin í vestri. Afréttur Ásahrepps er 4/7 hlutar af Holtamannaafrétti á móti 3/7 eignarhluta Rangárþings ytra. Holtamannaafréttur nær meðal annar yfir austurhluta Þjórsárvera, og vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Um Holtamannaafrétt liggur Sprengisandsvegur milli Suður- og Norðurlands.