Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli.
Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871.
Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.