HVOLSVÖLLUR / Rangárþingi eystra
Í Rangárþingi eystra búa um 2000 manns og nær sveitarfélagið frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað og einnig er ferðaþjónustan blómleg atvinnugrein enda má þar finna einstakar náttúruperlur, fallegar gönguleiðir og þekkta sögustaði. Áfangastaði eins og Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk og Eyjafjallajökul má finna í sveitarfélaginu.
Hvolsvöllur er þéttbýlis- og þjónustukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 1000 manns. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa, ferðaþjónusta og einnig má nefna að á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur það sérkenni að vera eina þéttbýlið á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu. Hvolsvöllur er aðeins 100 km. frá Reykjavík og því tilvalin staðsetning til að ferðast út frá um Suðurlandið og Suð-Austurland. Eftir góðar dagsferðir er hægt að finna góða gisti- og afþreyingamöguleika á Hvolsvelli og í öllu sveitarfélaginu. Aðeins 20 km. frá Hvolsvelli er svo Landeyjahöfn þaðan sem Herjólfur siglir til Vestmannaeyja stóran hluta úr árinu.
Á Hvolsvelli finnur þú til dæmis LAVA centre sem að er eldfjalla- og jarðskjálftasýning fyrir alla aldurshópa. Í LAVA er bæði hægt að horfa á stutta kvikmynd um eldfjöll og eldvirkni sem og fara í gegnum stórbrotna gagnvirka sýningu. Hægt er svo að ganga upp á þak húsnæðisins og njóta útsýnisins til allra átta. Á Hvolsvelli má einnig finna Sveitabúðina Unu þar sem að hægt er að kaupa grænmeti og kjötvörur beint frá býli sem og ýmiskonar handverk. Í Unu má líka njóta listasýninga og hægt er að skoða myndir af Njálureflinum sem er 90m hördúkur sem Brennu-Njálssaga var saumuð í.
Á Hvolsvelli er hægt að finna gróið svæði í miðbænum þar sem hægt er að hvíla lúin bein, leyfa börnunum að skoða leiktækin og jafnvel fara í nestisferð. Þar má líka finna sýningu á sumrin þar sem áhugaljósmyndarar í sveitarfélaginu sýna verk sín.
Á Hvolsvelli er ýmis þjónusta eins og banki, veitingastaðir, kjörbúð, gjafavöruverslanir, ísbúð apótek, heilsugæslustöð, fullbúin íþróttamiðstöð, sundlaug, hótel, gesthús, tjaldsvæði, bílaverkstæði og bensínstöðvar.