KIRKJUBÆJARKLAUSTUR / Skaftárhreppi
Kirkjubæjarklaustur er eini þéttbýliskjarninn í Skaftárhreppi. Í Skaftárhreppi eru margir gististaðir og upplagt að dvelja þar og fara í dagsferðir. Margar náttúruperlur Íslands eru stutt frá Klaustri: Fjaðrárgljúfur, Fagrifoss, Langisjór, Eldgjá, Lakagígar og Skaftáreldahraunið. Góðar dagsferðir eru í Skaftafell eða Jökulsárlón.
Á Klaustri er Ástarbrautin, mjög falleg 5 km gönguleið sem byrjar við Systrafoss. Gengið er yfir heiðina ofan við þorpið og er útsýni mjög skemmtilegt. Kirkjugólfið er á þessari leið en það er náttúrusmíð þar sem sér ofan á stuðlaberg. Kirkjugólfið er friðlýst náttúruvætti. Önnur áhugaverð gönguleið er um Landbrotshólana sem eru óteljandi gervigígar. Leiðin er kölluð Hæðargarðsleið og byrjar við Skaftárbrúna.
Sögur segja að aldrei hafi heiðinn maður búið á Kirkjubæ á Síðu. Bæjarnafnið breyttist í Kirkjubæjarklaustur eftir að þar var nunnuklaustur á árunum 1186 – 1554. Örnefni og þjóðsögur tengjast klausturtímanum.
Íbúar á Klaustri eru um 280 og þar er Kirkjubæjarskóli á Síðu er grunnskóli Skaftárhrepps, Heilsuleikskólinn Kæribær, Hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhólar. Við grunnskólann er íþróttamiðstöð þar sem er íþróttasalur, líkamsrækt og sundlaug, opið almenningi allt árið. Prestur hefur setið á Kirkjubæjarklaustri frá 1931, læknir frá 1950 og dýralæknir frá 1974.
Skaftárhreppur er hluti af Kötlu jarðvangi og stór hluti hreppsins er vesturhluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er á Klaustri. Á vefnum eldsveitir.is má finna meira um sögu, menningu og náttúru í Skaftárhreppi.