ÞYKKVIBÆR / Rangárþingi ytra
Byggðahverfi við Hólsá og sunnan við Safamýri. Áður var Þykkvibær umflotinn á alla vegu og kýr bændanna varð að reka á sund til að koma þeim á haga. Fólk varð að vaða upp í mitti eða dýpra til að komast á milli bæja og erfitt var að fást við heyskap. Auk þess brutu vötnin landið. Árið 1923 var öflug fyrirhleðsla byggð þvert yfir Djúpós og er nú akvegur eftir stíflugarðinum.
Byggð er gömul í Þykkvabæ, fyrst getið um 1220. Áður var nokkurt útræði frá sandinum en oft urðu þar slys enda ill lending. Barnaskóli var settur í Þykkvabæ árið 1892 og var hann fyrsti sveitaskóli í Rangárvallasýslu. Eftir að hlaðið var fyrir Djúpós jókst þar mjög túnrækt og er Þykkvibærinn myndarbyggð í hvívetna.
Kartöflurækt er mikil í Þykkvabæ.