Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.
Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.
Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra.
Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946.
Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi.
Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”