Sagnheimar segja einstaka sögu Vestmannaeyja. Má þar einkum nefna:
Tyrkjaránið 1627: 16. júlí 1627 læddust þrjú skip upp að austurströnd Heimaeyjar og á land stigu 300 sjóræningjar. Í þrjá daga æddu þeir um eyjuna með hrópum og köllum, hertóku fólk og drápu miskunnarlaust. Af um 500 íbúum höfðu sjóræningjarnir með sér 242 fanga til skips og seldu á þrælamarkaði í Alsír. Saga Tyrkjaránsins er hér sögð í formi teiknimynda.
Fyrir yngri kynslóðina:
Á safninu er sjóræningjahellir þar sem börn geta klætt sig upp sem sjóræningja og leitað að fjársjóði. Einnig er svokallað snertisafn í boði fyrir börn og fullorðna, þar sem meðhöndla má valda muni safnsins.
Vesturfarar: Mormónar eiga sitt sögusvæði á safninu. Fyrstu íslensku mormónatrúboðarnir, Þórarinn Hafliðason í Sjólyst í Vestmannaeyjum og Guðmundur Guðmundsson í Ártúni á Rangárvöllum, störfuðu í Vestmannaeyjum og á árunum 1854-1914 fóru um 200 Eyjamenn til Vesturheims í leit að betri heimi. Þrjú þeirra, Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir á Kirkjubæ ásamt vinkonu þeirra, Helgu Jónsdótur frá Landeyjum, urðu 1854 fyrstu Vesturfararnir er þau settumst að í Spanish Fork, Utah.
Herfylkingin: Eyjamenn geta einir landsmanna státað að því að hafa stofnað sína eigin herfylkingu er Adreas August von Kohl eða kapteinn Kohl sýslumaður kom henni á laggirnar árið 1855.
Hættulegasta starf í heimi? Sjómennskan og fiskvinnsla skipa mikilvægasta sessinn í lífi Eyjamanna. Fjallað er um þróun fiskveiða, sjómannslífið, hættur og hetjudáðir, björgunarstörf, vinnslu í landi og verbúðarlíf í máli og myndum í viðbót við muni frá fyrri tíð. Í gamalli talstöð má heyra bæjarbúa segja sögu sjóslysa.
Þjóðhátíð: Þjóðhátíðin var fyrst haldin árið 1874 og nær árlega frá aldamótunum 1900. Hún er mikilvægt sameiningartákn Eyjamanna með öllum sínum hefðum og siðum. Á safninu er boðið til sætis í hefðbundnu Þjóðhátíðartjaldi heimamanna.
Opnunartími:
1. maí - 30. september: Alla daga kl. 10:00-17:00.
1. október - 30. apríl: Laugardaga kl. 12:00-15:00 og eftir samkomulagi.