Eldfjallaleiðin með Chris Burkard
Fagradalsfjall
Chris hóf ævintýrið á Reykjanesi þar sem hraunbreiður og heitar uppsprettur sýna glögglega eldvirkni svæðisins. Hann byrjaði á fljótandi nuddi í Bláa lóninu þar sem honum fannst gott að láta líða úr sér eftir flugið og hvíla líkamann fyrir ferðalagið sem var í vændum.
Endurnærður fór Chris á hverasvæðið og hitti þar systurnar Nanný og Þórey sem gáfu honum rúgbrauð bakað neðanjarðar í hveragufu með íslensku smjöri og reyktum laxi. Íslendingar hafa bakað og eldað í hveragufu í gegnum aldirnar og Chris fannst merkilegt hvernig jarðhitinn er hluti af daglegu lífi fólks á Íslandi.
Næst tók við bíltúr og ganga þar sem hraunbreiður og náttúruperlur Reykjaness voru skoðaðar en landslagið þegar komið er úr alfaraleið er hreint út sagt stórkostlegt. Eftir viðburðaríkan dag voru allir orðnir svangir og fengu sér kvöldmat í Garðinum þar sem ævintýraleg krydd glöddu bragðlaukana.
Hengill
Næst var haldið í Reykjadal þar sem víða rýkur upp úr jörðinni sökum jarðhita. Chris hjólaði inn dalinn og dýfði sér í heita náttúrulaug á leiðinni. Það er ekki til betri jarðtenging en að að liggja í heitri laug með græna náttúruna allt í kring.
Því næst sveif hann eins og fuglinn fljúgandi niður Svartagljúfur í lengstu sviflínu landsins, skoðaði jarðhitasýninguna á Hellisheiði og endaði viðburðaríkan dag á því að gæða sér á góðum mat í mathöllinni í Hveragerði áður en hann náði sér í góðan nætursvefn.
Hekla
Áfram hélt ferðalagið um Suðurlandið á svæði Heklu sem er eitt virkasta eldfjall landsins og oft kölluð drottning íslenskra eldfjalla. Chris varð heillaður af sögunni og svæðinu.
Hann skoðaði hellana á Hellu en öldum saman hefur fólk velt því fyrir sér hvort þeir séu gerðir af Pöpum og hve gamlir þeir séu. Tólf fornir manngerðir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu og margt er á huldu um uppruna þeirra.
Eftir fróðlega skoðunarferð var gott að gæða sér á fersku salati og hlýja sér í heitum potti áður en haldið var að Háafossi þar sem Chris renndi fyrir silungi áður en farið var í kvöldmat og hvíld.
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er ein frægasta eldstöð Íslands og gaus síðast árið 2010. Gosið hafði töluverð áhrif um allan heim, meðal annars á flugsamgöngur.
Chris keyrði um svartan fjörusand og hélt svo upp á hálendið þar sem hann skoðaði meðal annars hið einstaka fjall Mælifell.
Að því loknu var haldið í heimsókn í notalegan sumarbústað í Þakgili þar sem þar sem hann fékk íslenskar pönnukökur með rabarbarasultu og rjóma.
Dagurinn endaði á afslöppun í heitum potti á þaki hótelsins sem gist var á.
Eldfell
Herjólfur ferjaði Chris til Vestmannaeyja þar sem gaus síðast árið 1973 með afdrifaríkum afleiðingum fyrir íbúa eyjarinnar. Chris gekk upp á Heimaklett og horfði þar yfir fallega bæjarfélagið og fannst aðdáunarvert hvernig Vestmannaeyjar höfðu byggst upp á ný og hvernig samfélagið hafði styrkst við þessa lífsreynslu.
Í Eldheimum fræddist hann um sögu gossins á þann ótrúlega myndræna hátt sem safnið býður upp á. Honum fannst magnað að skoða húsið á safninu sem hafði orðið hrauninu að bráð.
Hádegismaturinn samanstóð af djúpsteiktum fiski og frönskum úr matarvagni á svæðinu og þegar búið var að hlaða batteríin var siglt út á haf þar sem hellar og fuglar í nágrenninu voru skoðaðir.
Kvöldinu var eytt á skemmtilegum veitingastað í bænum áður en lagst var til hvílu.
Katla
Á svæði Kötlu eru andstæður elds og íss bersýnilegar. Chris skoðaði ótrúlega íshella og lærði um sögu Mýrdalsjökuls og eldstöðvarinnar undir honum. Skærblár litur íshellanna í samanburði við svarta hraunöskuna fangaði athygli Chris.
Þá var haldið að Reynisfjalli, borðaður hádegisverður og að því loknu hoppað í fallhlíf niður af fjallinu. Útsýnið var ólýsanlegt, Reynisdrangar og Reynisfjara séð úr lofti.
Næst var alvöru bráðið hraun rannsakað hjá Lava Show og að lokum gæddi Chris sér á grillmat sem minnti hann á heimahaga.
Lakagígar
Ævintýrið hélt áfram og næsti áfangastaður var svæði Lakagíga þar sem eitt stærsta gos á Íslandi átti sér stað árið 1783-1784.
Landslagið er stórbrotið með mosadrifnum hraunbreiðum sem teygja sig í allar áttir. Þar heimsótti Chris Gestastofu Vantajökulsþjóðgarðs og fékk hlýjar móttökur ásamt því að fræðast um svæðið.
Því næst var farið í hjólreiðatúr um landslagið þar sem fossar og fjöll voru skoðuð. Eftir túrinn fékk Chris sjóðheita íslenska kjötsúpu sem fór vel í maga áður en skriðið var upp í rúm á Hótel Kirkjubæjarklaustri.
Öræfajökull
Chris byrjaði daginn á þyrluflugi upp á Öræfajökul sem er stærsta og hæsta fjall á Íslandi. Það er ótrúlegt að sjá jökulinn úr lofti, allar sprungurnar og ísbreiðurnar. Þyrlan lenti á jöklinum og Chris skoðaði íshella og fræddist um það hvernig þeir mynduðust.
Að því loknu var flogið aftur af stað yfir sandana þar sem árnar úr jöklinum mynda æðar og mynstur þegar þær renna til sjávar, sannkölluð listaverk náttúrunnar.
Þá var stokkið á kajak og siglt um Jökulsárlón þar sem ísjakarnir voru skoðaðir úr öruggri fjarlægð. Dagurinn endaði á Höfn þar sem Chris gæddi sér á ferskum sjávarréttum áður en hann gisti á notalegu hóteli.
Eldgosa- og jarðhitasýningar
Chris fannst afar áhugavert hvernig Íslendingar hafa lifað með eldgosum allt frá því landið byggðist.
Í ferð sinni heimsótti hann Lava Centre á Hvolsvelli þar sem hægt er að fræðast um mörg af þeim margbrotnu og stórfenglegu náttúruöflum sem hafa mótað jörðina og hófu myndun Íslands fyrir tugmilljónum ára. Sýningin er gagnvirk og meðal annars hægt að upplifa jarðskjálfta af eigin raun.
Chris heimsótti einnig Lava Show á Vík þar sem raunverulegt hraun er hitað upp í 1100°C þannig að það bráðnar og verður seigfljótandi eins og í alvöru eldgosum.
Jarðhitasýningin ON á Hellisheiði fræðir gesti um hvernig jarðvarminn er nýttur til að framleiða rafmagn fyrir landið og heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið. Sýningin er gagnvirk og þar er einnig fjallað um Carbfix, sem er leiðandi lausn í að sporna við loftslagsbreytingum með því að breyta CO2 í stein.
Fjölbreytt matarúrval
Chris var mjög hrifinn af matnum sem hann borðaði á leið sinni, hvort sem það var hefðbundinn íslenskur heimilismatur eða ævintýralegur matur með alþjóðlegu tvisti.
Hann smakkaði sjávarrétti og steikur, kjötsúpu og pönnukökur.
Honum þótti sérstaklega vænt um alíslenska matinn, rúgbrauðið, kjötsúpuna og pönnukökurnar sem honum fannst tengja sig við land og þjóð.
Mikilvægt að taka sér góðan tíma í að skoða Eldfjallaleiðina
Chris þótti Eldfjallaleiðin afar áhugaverð og stútfull af skemmtilegri afþreyingu, menningu og mat.
Hann sagði ferðina fullkomna blöndu af ævintýrum, fræðslu og slökun.
Eitt er víst að það borgar sig að flýta sér ekki um of á Eldfjallaleiðinni heldur taka sér góðan tíma í að ferðast þessa stórbrotnu slóð og njóta hverrar mínútu.