„Við höfum séð auknar vinsældir geimferðalaga undanfarin tvö ár, og sumir telja jafnvel að þetta sé framtíðar áfangastaður hinna ofur-ríku. Við viljum setja þessa tískubylgju í samhengi og benda á að það er hægt upplifa ójarðneska fegurð hér á Íslandi og margt annað sem er einstakt í heiminum,“ er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í tilkynningu.
Ásamt myndbandi sem gert var fyrirherferðina var auglýsingaskilti sent út í geim með aðstoð veðurloftbelgs þar sem Ísland er kynnt fyrir geimferðafólki. Skilaboðin á skiltinu eru einföld: Ísland er betri áfangastaður en geimurinn og mögulega sé verið að sækja vatnið yfir lækinn.
Á heimasíðu verkefnisins er hægt að notast við reiknvél þar sem hægt er að reikna út hvað hægt sé að gera á Íslandi fyrir þær upphæðir sem annars kostar að fara út í geim sem ferðamaður. Til að mynda er hægt að leigja alla bíla landsins og fara í hvalaskoðun án hvíldar í þrjú ár.
Leikstjórn og framleiðsla myndbandsins var í höndum Allan Sigurðssonar og Hannesar Þórs Arasonar, í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og bandarísku auglýsingastofuna SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu.
Myndbandið má sjá hér.