Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Leiðarvísir fyrir bókaunnendur á Suðurlandi

    Við Íslendingar eigum ómetanlegan sagna- og bókmenntaarf. Tungumálið hefur lítið breyst í þúsund ár og við getum auðveldlega lesið fornsögurnar okkar. Suðurlandið hefur að geyma ýmsa bókmenntastaði sem er einstakt að heimsækja.

    Á Íslandi ríkir mikil sagnahefð sem landsmenn eru stoltir af. Íslendingasögur, nútímabókmenntir og allt þar á milli hefur mótað menningu landsins í aldaraðir. Hér eru nokkrar bókmenntaperlur á Suðurlandi.

    Þórbergssetur - innsýn í sköpun og líf listamannsins

     

    Þórbergssetur í Suðursveit er safn tileinkað rithöfundinum Þórbergi Þórðarsyni (1888-1974).

    Þetta magnaða safn er staðsett við fæðingarstað Þórbergs á Hala og fer ekki framhjá vegfarendum þar sem hlið hússins sem snýr að hringveginum er þakin bókatitlum skáldsins.


    Þórbergur hafði sinn eigin sérstæða stíl í íslenskum bókmenntum. Hann var kunnur fyrir beittan húmor, kaldhæðni og sterka tengingu við sveitalífið. Hann blandaði saman frásögnum af lífi sínu, þjóðsögum og samfélaginu á einstakan hátt. Verk hans, eins og Ofvitinn og Bréf til Láru, ögruðu hefðbundnum gildum og fönguðu andrúmsloft breytinga á Íslandi. Áhrif Þórbergs á bókmenntir og menningu landsins eru ómæld.


    Á safninu má kynnast lífi og skrifum Þórbergs ásamt sögu og menningu Suðursveitar. Sagan vaknar til lífsins á safninu með handritsbrotum, minningum Þórbergs og gagnvirkum sýningum. Að auki er Þórbergssetur menningarmiðstöð þar sem fjölbreyttir viðburðir og fyrirlestrar eru haldnir. Þar er veitingahús með frábærum mat og stórbrotnu útsýni um Suðursveit. 

    Bakkastofa - frásagnir og tónlist sem snerta við streng

    Við sjávarþorpið Eyrarbakka stendur hið tígulega hús Bakkastofa. Þar bjóða hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson gestum í frásagna- og tónlistarveislu sem á enga sína líka.

    Valgeir er þjóðþekktur tónlistarmaður og hefur samið margar íslenskar lagaperlur. Hann var meðal stofnenda Stuðmanna og Spilverks þjóðanna og er einn af okkar ástsælustu tónlistarmönnum.

    Ásta Kristrún er brautryðjandi í námsráðgjöf á Íslandi og starfaði í tæp tuttugu ár við uppbyggingu fagsins og þjónustunnar við Háskóla Íslands. Allt frá bernsku hafa hinar stóru listir verið henni hjartfólgnar; bækur, myndlist og tónlist.

    Hjónin leiða saman hesta sína á Bakkastofu með sögu Íslendinga og þorpið Eyrarbakka í forgrunni. Gestarýmið á Bakkastofu er einstaklega hlýlegt, búið glæsilegum húsbúnaði í gömlum stíl. Ásta og Valgeir bjóða gestum ýmist á Bakkastofu, í Húsið (sem er hluti af Byggðasafni Árnesinga) eða á veitingastaðinn Rauða húsið. Sýningin er mótuð fyrir hvern hóp fyrir sig og er í senn fróðleg og einstaklega falleg. Frásagnir Ástu og tónar Valgeirs hitta beint í hjartastað.

     

     

    Viking Journeys - Íslendingasögurnar vakna til lífsins

     

    Ice Pic Journeys, í samstarfi við Old Icelandic Books, býður upp á ferðalag um söguslóðir Suðurlands á lifandi hátt.

    Íslenska er eitt af fáum tungumálum sem hefur haldist nær óbreytt í yfir þúsund ár. Nútíma Íslendingar geta lesið upprunalegar útgáfur af miðaldartextum eins og Íslendingasögum og Eddu sem voru skrifaðar á 13. og 14. öld. Þetta er einstakt á heimsvísu.

    Eyþór, eigandi Old Icelandic Books, er einn þeirra sem heldur bókmenntaarfi Íslendinga á lofti. Hann safnar gömlu bókum og handritum af mikilli alúð með það að markmiði að gera þau aðgengileg fyrir fólk til að skoða og njóta.

    Ice Pic Journeys bjóða upp á ferðir þar sem skoðaðir eru merkilegir staðir úr gömlu sögunum þar sem aldagamlar útgáfur bókanna eru með í för. Sögurnar vakna til lífsins á vígstöðvum þar sem víkingarnir börðust og í fallegum dölum þar sem miðaldarskáldin fengu innblástur svo eitthvað sé nefnt.

     

     

     

     

    Gljúfrasteinn - gluggi að lífi Halldórs Laxness

    Á Þingvallarleiðinni stendur Gljúfrasteinn, fyrrum heimili Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness. Það er nú orðið að safni sem opnar glugga inn í líf þessa merkilega rithöfundar.

    Gestir Gljúfrasteins geta skoðað húsið, eins og það var þegar Halldór og kona hans bjuggu þar. Þar má sjá persónulegar eigur þeirra hjóna, handritasafn Laxness og listaverk ýmissa þjóðþekktra listamanna.

    Safnið hvílir í fallega Mosfellsdal umkringt náttúrufegurð og skemmtilegum gönguleiðum.

    Ef þú hefur ekki heimsótt Gljúfrastein nú þegar þá er ekki eftir neinu að bíða.

     

    Bókakaffið - heitur sopi og fjársjóður bóka

     

     

     

    Bókakaffið á Selfossi er í senn bókaverslun, sem selur notaðar og nýjar bækur, og kaffihús. Það er fátt notalegra en að sötra sjóðheitan kaffibolla umkringdur öllum þeim bókum sem fylla staðinn og óhætt að segja að margir fjársjóðir leynist í hillunum.

    Þar eru ýmsir viðburðir haldnir, svo sem ljóðaupplestrar og bókaspjöll, og algjört ævintýri að koma inn í þessa veröld bókmenntanna.

     

    Brimrót - hjarta lista og menningar

    Í gamla þorpinu á Stokkseyri er menningarhúsið Brimrót staðsett til móts við veitingahúsið Fjöruborðið. Þar er hlýlegt og bjart rými þar sem rithöfundar, listamenn og gestir koma saman.

    Brimrót hýsir blómlega menningarviðburði, svo sem bókaupplestra, listsýningar, tónleika og vinnustofur. Sá stærsti af þeim er Haustgildi sem er haldinn árlega við góðar undirtektir. Haustgildi hafa vaxið frá ári til árs þar sem listamenn af svæðinu beita krafti sínum til að gera hátíðina sem fjölbreyttasta. Samfélagið á Stokkseyri tekur ríkan þátt.

    Það er mögnuð upplifun að sækja hátíð sem á svo stóran stað í þéttu samfélagi. Nándin er áþreifanleg og sáir einhverju óútskýrðu í hjartastað.

    Konubókastofa - miðstöð kvenbókmennta

     

    Konubókastofa, staðsett á Eyrarbakka, er einstök menningarmiðstöð tileinkuð varðveislu bóka eftir íslenska kvenrithöfunda.

    Safnið inniheldur fjölbreytt úrval ritverka íslenskra kvenna, allt frá sögulegum textum til samtímabókmennta. Þetta umfangsmikla skjalasafn er verðmæt heimild fyrir rannsóknaraðila, nemendur og bókmenntafólk sem vill kanna sjónarmið og sögur íslenskra kvenna í gegnum tíðina.

    Auk þess að bjóða upp á eftirminnilegt safn hýsir Konubókastofa ýmsa viðburði sem stuðla að bókmenntaást og styrkja samfélagið. Þar eru haldnar reglulegar bókakynningar, þar sem höfundar kynna nýjustu verk sín og taka þátt í umræðum um skrif sín og innblástur. Einnig hafa verið haldnar bókmenntahátíðir sem hafa vakið verðskuldaða athygli.

    Ennfremur vinnur Konubókastofa að því að efla íslenskar kvenbókmenntir í samstarfi við bókasöfn, skóla og menningarsamtök. Miðstöðin býður gestum að skoða safnið og veitir dýpri innsýn í söguleg og samfélagsleg áhrif kvenna í íslenskri sagnaritun.

     

    Bókabúð Gulla - ævintýraveröld á Sólheimum

    Í einstöku umhverfi vistvæna samfélagsins á Sólheimum er Bókabúð Gulla staðsett. Markmið Gulla er að gefa gömlum bókum nýtt líf. Hann selur notaðar bækur, geisladiska og DVD diska í verslun sinni og eitt er víst að þar er margt óvænt að finna.

    Sólheimar eru sjálfbært samfélag þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman. Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er öflug félagsþjónusta á Sólheimum þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu, félags- og menningarstarfs.

    Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun einnig er rekið bakarí og matvinnsla. Verslun og listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum svo sem kertagerð, listasmiðja, keramik, vefstofa, jurtastofa og smíðastofa. Íbúar Sólheima leggja metnað sinn í að taka vel á móti gestum og allir eru hjartanlega velkomnir þangað.

     

    Bókabæirnir Austanfjalls - heilt samfélag bóka

     

     

    Bókabæirnir austanfjalls eru Eyrarbakki, Hveragerði, Selfoss, Stokkseyri og Þorlákshöfn ásamt Flóahreppi. Markmiðið með verkefninu er að efla bókamenningu á svæðinu og fá íbúa til að taka sem mestan þátt í því að kynna bækur, varðveita þær og stuðla að því að fólk á öllum aldri haldi áfram að njóta bókalesturs.

    Bókabæirnir skipuleggja reglulega viðburði eins og ljóðakvöld, upplestra, bókamarkaði og námskeið. Margmála ljóðakvöldin hafa sérstaklega slegið í gegn, þar sem íbúar af fjölbreyttum uppruna flytja ljóð á sínu móðumáli.

    ​Sem hluti af alþjóðlegu neti bókabæja tengir Bókabæirnir Austanfjalls bókmenntaarfleifð Suðurlands við bókabæi í 14 löndum á þremur heimsálfum og eflar alþjóðlegt samstarf í bókmenntum og menningu.

     

    Bókasöfn á Suðurlandi

    Bókasöfn eru ekki einungis staður til að leigja bækur, þau eru samfélagsstaðir. Mörg þeirra halda fjölbreytta dagskrá bókaupplestra og menningarviðburða.

    Ekki hika við að kíkja inn á þessi söfn ef þú átt leið hjá.

    Sögurnar á Suðurlandi

    Suðurland er fullt af sögum, hvort sem þær finnast í bókum, á söfnum eða í menningunni. Þessir staðir halda merkjum bókmennta á lofti og er vert að heimsækja. Hvort sem þú kíkir í gamlar bækur, hlustar á lifandi sögumenn eða þvælist á milli notalegra bókasafna, er Suðurland blómlegt bókmenntasvæði sem vert er að skoða.