Öræfaferðir- Frá fjöru til fjalla er lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem rekið er af fjölskyldunni á Hofsnesi í Öræfum. Eigendur fyrirtækisins eru Einar Rúnar Sigurðsson (fæddur og uppalinn í Öræfum) og eiginkona hans Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir.
Eitt af einkennum Öræfaferða er að í fyrirtækinu starfar eingöngu fjölskyldan sjálf. Við erum virkilega stolt af héraðinu okkar og teljum það vera forréttindi að fá að kynna svæðið fyrir gestum okkar. Einar er eini starfandi fjallaleiðsögumaðurinn hjá Öræfaferðum frá hausti fram á vor, en á sumrin hjálpast fjölskyldan að við að sinna ferðaþjónustunni svo leiðsögumaðurinn í Ingólfshöfða er Einar, Matta konan hans, Ísak Einarsson eða Matthías Einarsson.
Öræfaferðir geta því boðið þér góða og persónulega þjónustu á íslensku.
Öræfaferðir bjóða uppá ýmsa afþreyingu við rætur Vatnajökuls, aðallega fyrir einstaklinga og litla hópa en við getum einnig farið með 100 manna ættarmót í Ingólfshöfðaferð ef því er að skipta.
Ferðir í boði á sumrin:
Ingólfshöfðaferð - Sögu og fuglaskoðun í Ingólfshöfðafriðland.
Við notum heykerru sem dregin er aftan í dráttarvél til að komast að höfðanum, og svo göngum við saman 2-3 km hring um friðlandið
Komdu með heimamönnum í ævintýraferð um einstaka náttúru Öræfa og heyrðu frásögur þeirra af svæðinu.
Heykerruferðin er skemmtileg fyrir alla og gefur ferðinni einstakan sjarma. Gangan upp sandölduna frá heykerrunni upp á höfðann tekur á, en er á flestra færi, en við mælum ekki með að fara í ferðina nema fyrir þá sem treysta sér í 1 1/2 klukkutíma rólega göngu, í hvaða veðri sem er.
Fyrir Íslendinga er best að skoða upplýsingarnar og bóka á íslensku síðunni, við erum yfirleitt með tilboð þar.
Daglegar brottfarir frá Maí - ágúst
LOKAÐ Á SUNNUDÖGUM
Lengd: 2 og 1/2 tími í allt
Verð: 10.000 kr. fullorðnir og 5000 kr. 6-12 ára (þessi ferð hentar ekki yngri börnum en 6 ára en við bjóðum einkaferð sem við köllum Coast Tour sem hægt væri að aðlaga fjölskyldu með yngri börn).
Frá fyrri hluta júní fram í byrjun ágúst bjóðum við Lunda Ljósmyndaferðir í Ingólfshöfða klukkan 5:55 að morgni.
Brottfarir einn til tvo daga í viku, sjá upplýsingar á www.puffintour.is
Við bjóðum einnig ferð sem við köllum Coast Tour, sem einkaferð. Þá ökum við í Land Rover Defender út á fjöruna sitthvorum megin við Ingólfshöfða. Til að komast þangað þurfum við að aka yfir vatnsföll, og svarta sanda. Hofsnes Leirur geta verið einn fallegasti staðurinn á jarðríki í réttum aðstæðum. Við förum þessa ferð allt árið, svo á veturna getur þetta verið frekar ævintýralegt ef aðstæður eru erfiðar.
Á haustin og veturna bjóðum við 5 tíma jöklakönnunar og íshellaferð sem við köllum Ice Tour. Þá ferð er hægt að bóka sem einkaferð, eða kaupa sér sæti í opna brottför, en hámarksfjöldinn er 6 manns í hverri ferð. Einnig erum við með einka Íshellaljósmyndaferðir fyrir 1-5 þáttakendur þar sem þyrla er notuð til að komast í íshella sem eru ekki aðgengilegir fjöldanum auk íshellanámskeiðs fyrir 1-2 þáttakendur.
Á vorin er svo besti tíminn fyrir fjallaskíðaferðir. Við bjóðum Snow Tour, fjallaskíðaferð/snjóbrettaferð á lægri tinda en Hvannadalshnúk, og Mountain Tour, fjallaskíðaferð/snjóbrettaferð á Hvannadalshnúk fyrir 2-6 þátttakendur í einkaferð.
Nánari upplýsingar um brottfarir og bókanir á heimasíðunni. www.FromCoastToMountains.is