Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Millibil - einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur

22. desember kl. 00:00-17:00
Millibil - einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur opnar laugardaginn 14. september klukkan 15:00. Verið velkomin.
Sýningartími: 14.09 - 22.12 2024
 
Hver man hvað bar hæst þarsíðasta þriðjudag? Hver man hvernig viðraði í vor?
Dagarnir skjóta upp kollinum og stinga svo af án þess skilja eftir sig ummerki, nema þá örsjaldan þegar svo ber undir að tilteknu atviki tekst að klóra far í minnið.
Rista rúnir á innanverða höfuðkúpuna.
Hér gerðist þetta.
Að öllu öðru leyti er tilveran bara eins og hún er. Hversdagsleg. Meginþorra tímans verjum við á eins konar millibili. Á tómu reitunum milli hinna útkrotuðu á dagatalinu.
Og öll mönnum við ýmiss konar millibil, svamlandi einhvers staðar á milli andstæðra póla og teljumst hvorki vitleysingar né snillingar, hvorki smásálir né hetjur, heldur berum einhverja enn óræðari titla sem leynast þarna á milli.
Flestallt fyrirfinnst og á sér stað á millibilinu.
Millibilið er hvorki stórbrotið né ómerkilegt. Það er uppáhellt kaffi. Vanilluís. Skýjaður sumardagur í lúmskum vindi. Það er „hvað segirðu?“ og „bara allt gott“.
En það er samt sem áður uppistaðan.
Millibilið er pláss og þar rúmast kannski allt sem skiptir máli í raun og veru. Eitthvað hversdagslegt hér og nú getur reynst dýrmætt að degi liðnum eða jafnvel áratug. Ekki endilega sem ljóslifandi minning um skilgreindan atburð – far í minninu – heldur sem stemning, andrúmsloft, loðin tilfinning sem kitlar.
Já, dagarnir bruna burt og mökkurinn kann að virðast þéttur en stundum þarf þó ekki nema að staldra við til að sjá betur – til að dýpka millibilið og veiða upp úr því eitthvað sem annars væri kastað á glæ. Eitthvað sem núllstillir, nærir, opnar, eykur skilning, framkallar bros, tendrar nýja tilfinningu.
Allar þessar útstillingar sem umvefja okkur.
Allar þessar örlitlu hreyfingar hins stóra heims sem eiga kannski þrátt fyrir allt skilið að rata á spjöld sögunnar, þótt ekki væri nema sem lítið og dauft krot á spássíu.
Á sýningunni má sjá verk Þórdísar Jóhannesdóttur sem eru afrakstur viðleitni hennar til að skrásetja millibilið. Og gott betur, því Þórdís hefur teygt millibilsaugnablikin til, magnað þau upp, steypt í ný mót og þar með fært okkur hinum ný og óvænt sjónarhorn á kunnuglegt umhverfi.
Þetta eru einföld form, að hennar sögn, sambland ljóss og skugga á mótum hins manngerða og hins náttúrulega. Fyrirbæri og atburðir sem blasa við hvar og hvenær sem er, virðast jafnvel augljós í hennar huga, en eru þó gjörn á að fara fram hjá fólki.
Hér er tóm og hér er tilefni til að leiða hugann að öllu því athyglissvelta í tilverunni.
Hér hefur uppistaða daganna fengið að storkna.
Kristallast.
Og kannski glitrar jafnvel það gráa þegar það birtist í nýju ljósi.
 
Einar Lövdahl
 
Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann; efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, ýmist í myndlist annarra, arkitektúr eða úti í náttúrunni. Myndirnar notar hún svo sem grunn til frekari útfærslu þrívíðra verka. Undirlag myndanna eru krossviður, álplötur eða plexígler sem hafa verið brotnar þannig að þær myndi form sem kallast á við eða endurspegla efnistökin sem birtast í ljósmyndinni. Úr verða fletir sem taka á sig ljós og skugga sýningarrýmisins á mismunandi hátt; verk sem teygja sig útí rýmið og leika á mörkum þess tví- og þrívíða.
Þórdís Jóhannesdóttir (f. 1979) nam myndlist við Listaháskóla Íslands; hún lauk B.A. námi árið 2007 og M.A.námi árið 2015. Þórdís hefur sýnt víða hérlendis, bæði sín verk og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir heitinu Hugsteypan. Af nýlegum sýningum mætti nefna Far í Hafnarborg og Afrit í Gerðarsafni, sem báðar voru hluti af Ljósmyndahátið Íslands 2020.
 

GPS punktar

N63° 59' 46.982" W21° 11' 6.057"

Sími