Norðurljós, stjörnuhiminn og almyrkvi 2026
Markaðsstofan fékk til sín góðan gest á síðasta morgunfund ársins, en þá mætti Sævar Helgi Bragason vísindamaður til okkar og fræddi okkur um undraveröld himingeimsins. Hann ræddi einkum og sér í lagi um norðurljósin, stjörnuhimininn og sólmyrkvann sem verður sýnilegur frá Íslandi þann 12. ágúst 2026.
Myrkurgæði Íslands og norðurljósin
Eins við vitum þá hefur Ísland fest sig rækilega í sessi sem áfangastaður til að njóta norðurljósanna, og er það ekki að ástæðulausu. Við búum svo vel að þetta fallega náttúruundur getur verið sýnilegt alls staðar á landinu frá seinni hluta ágúst og jafnvel fram í apríl eða maí, auk þess sem við búum víða við ómetanleg myrkurgæði á aðgengilegum svæðum nálægt þéttbýlisstöðum.
Þetta eru sérstakari aðstæður en við kannski gerum okkur almennilega grein fyrir, en fram kom í máli Sævars að hann hafi margsinnis hitt fólk frá stærri borgum sem hafi jafnvel ekki séð stjörnurnar á himninum fyrr en í Íslandsheimsókn sinni.
Til þess að mæta þeim stóra hópi ferðamanna sem sækja landið okkar heim hannaði Sævar Helgi vefsíðuna www.icelandatnight.is þar sem er á einfaldan hátt hægt að kynna sér norðurljósaútlit kvöldsins auk fleiri áhugaverðra upplýsinga því tengdu. Vefurinn opnaði snemma á þessu ári og fær nú þegar um 1-2000 heimsóknir daglega sem sýnir vel vinsældir hans. Fór Sævar yfir helstu þætti sem gott er að kynna sér á síðunni svo hún gagnist aðilum í ferðaþjónustunni sem best.
Deildarmyrkvi 2025 og Almyrkvi 2026
Sævar fræddi okkur um fleiri markverða viðburði sem eru framundan í himingeimnum og hægt að njóta frá íslenskri grundu.
Ber þar fyrst að nefna deildarmyrkva sem verður þann 27. mars nk. og síðan sólmyrkvinn sem verður þann 12. ágúst 2026. Verður hægt að njóta hans sem almyrkva frá vestanverðu landinu en sem deildarmyrkva frá Suðurlandinu. Fullyrðir hann að almyrkvinn sé eitt glæsilegasta sjónarspil náttúrunnar og deildarmyrkvinn einnig mjög glæsilegur.
Nú þegar er ljóst að margir gestir stefna á Íslandsheimsókn í kringum viðburðinn og því ekki seinna vænna að hefja undirbúning fyrir komu þeirra. Er Sævar löngu byrjaður að telja niður í stóra daginn og hefur auk þess opnað heimasíðuna www.solmyrkvi2026.is / www.eclipse2026.is þar sem hægt er að kynna sér undrið betur.
Vert er að taka fram að nauðsynlegt er að nota sólmyrkvagleraugu til að njóta viðburðanna og verja sjónina, og hefur hann gert samning um kaup á slíkum gleraugum til landsins. Unnt er að fá sérmerkt gleraugu sem gæti verið skemmtilegt að bjóða gestum ykkar upp á.
Heimasíðurnar eru bæði á íslensku og ensku svo þær nýtast stórum hópi lesenda, auk þess sem hægt er að fylgjast með norðurljósaævintýrum Sævars á instagramsíðunni „Icelandattnights.is“.
Morgunfundurinn var tekinn upp og mun upptakan verða aðgengileg aðildarfélögum á nýju ári.