Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eldfjallaleiðin - Eldfjallaferðamennska til framtíðar

Eldfjallaleiðin var hönnuð af heimafólki fyrir forvitna ferðalanga sem sækjast eftir dýpri tengingu við náttúru og menningu landsins, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

24/06/2024

Markaðsstofur Suðurlands og Reykjaness í samstarfi við fjölmörg samstarfsfyrirtæki á svæðunum hafa verið að þróa og móta nýja ferðaleið sem leiðir ferðalanga um bæði Reykjanes og Suðurland þar sem átta eldfjöll vísa veginn. Skipulagning og mótun leiðarinnar hófst árið 2021 og er því mikill tími og vinna á bakvið þróun leiðarinnar. Leiðin er bæði ætluð til að lengja dvöl gesta og fjölga gistinóttum á svæðunum enda hafa svæðin uppá mjög margt að bjóða. Eldfjallaleiðin skiptir landshlutunum í átta stig og auðveldar þannig ferðalöngum að skipuleggja dvölina.


Eldfjallaleiðin var hönnuð af heimafólki fyrir forvitna ferðalanga sem sækjast eftir dýpri tengingu við náttúru og menningu landsins, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir. Íslendingar hafa lært að lifa með eldfjöllum í aldanna rás og er saga og menning Íslendinga samofin eldfjöllum. Eldfjöllin hafa þó ekki einungis mótað sögu okkar og menningu, þau spila einnig lykilþátt í mótun náttúru Íslands sem er í sérflokki og ástæða þess að margir ferðalangar velja Ísland sem áfangastað. Svartir sandar, hraunbreiður, jarðhitasvæði og tignarleg eldfjöll einkenna landslagið og eiga það allt sameiginlegt að vera náttúruundur sem fólk sækist í að skoða og kynna sér. Svæðin hafa lengi unnið með eldvirknina en tveir jarðvangar (e. geoparks) eru á svæðinu auk fjölmargra áfangastaða tengdir eldvirkni og sögu hennar.


„Við erum mjög spennt að fá loksins tækifæri til þess að kynna þetta verkefni enda er mikil og fyrst og fremst skemmtileg vinna sem liggur að baki.“ Segir Ragnhildur Sveinbjarnardóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Suðurlands. „Með verkefninu viljum við gefa gestum okkar tækifæri til þess að kynna sér bæði sögu og menningu svæðanna, og búa til vettvang þar sem áhugasamir geta kynnt sér kraft eldfjalla á öruggan og áhugaverðan hátt. Eldfjöllin hafa haft mikil áhrif á samfélögin og núna er tími til að deila sögu okkar og eldfjallanna,“ bætir Þuríður Aradóttir Braun, forstöðukona Markaðsstofu Reykjaness við.


„Það eru mikil og vannýtt tækifæri í eldfjallaferðamennsku á Íslandi“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir eigandi Lava show. „Það er frábært fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu að fá verkfæri í hendurnar sem hægt er að nýta sér betur. Sérstaklega í ljósi nýliðinna viðburða enda hefur ímynd Íslands augljóslega fengið að finna fyrir eldfjallaumræðu.“

Á næstu misserum mun fara fram kynningarvinna af hálfu Markaðsstofanna og fyrirtækja. Við hvetjum alla til að fylgjast með samfélagsmiðlum markaðsstofanna og kynna sér Eldfjallaleiðina betur hér.

 

Myndir: Þráinn Kolbeinsson