Íslenski hesturinn svarar tölvupóstum ferðamanna í sumar
Ný herferð fyrir áfangastaðinn Ísland miðar að því að gera upplifun ferðamanna sem besta með því að minnka áreiti af vinnunni í fríinu.
Ísland býður gestum upp á byltingarkennda nýja þjónustu sem dregur úr áreiti frá vinnunni og gefur þeim færi á að njóta meira næðis í sumarfríinu. Þjónustan nefnist Úthestaðu póstinum þínum (e. Outhorse your email), og snýst um að bjóða ferðamönnum að útvista svörun tölvupósta til íslenskra hesta.
Í alþjóðlegri könnun sem Íslandsstofa lét framkvæma kemur fram að 55% aðspurðra skoða vinnupóstinn sinni einu sinni eða oftar á dag á meðan þau eru í fríi. Þá sögðu tæp 60% svarenda að þeim þætti sem yfirmenn, samstarfsmenn og viðskiptavinir ætluðust til þess að fá svar frá þeim meðan á fríi stæði, og einungis 44% sögðust koma úthvíld til vinnu eftir frí.
Í nýrri herferð fyrir áfangastaðinn Ísland er reynt að stemma stigu við þessari þróun og endurheimta sumarfríið sem raunverulegan griðartíma frá vinnu. Með aðstoð risavaxins lyklaborðs sem var sérsmíðað fyrir hófa hafa íslenskir hestar skrifað svör sem ferðamenn geta nýtt sér fyrir sjálfvirka svörun tölvupósta meðan á fríinu stendur til að undirstrika enn frekar að það er í fríi. Lyklaborðið er það fyrsta sinnar tegundar sem er sérsmíðað fyrir hesta.
„Við þekkjum öll hvernig heimavinna á Covid-tímum hefur afmáð skýr skil á milli einkalífsins og vinnunnar. Við sjáum líka í könnunum að fólk þráir að fara í frí þar sem það getur komist í raunverulega pásu,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Við viljum vekja athygli á því að fólk á rétt á að vera í fríi í fríinu sínu, og jafnframt koma á framfæri sterkum skilaboðum um hvað Ísland er einstakur áfangastaður með því að tala beint til þessa stóra hóps ferðamanna sem vill komast í raunverulegt frí.“
Herferðin er hluti af markaðsverkefninu Ísland saman í sókn. Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins. Herferðin er unnin í samstarfi við auglýsingastofurnar SS+K sem er hluti af M&C Saatchi keðjunni og íslensku auglýsingastofuna Peel. Leikstjórn var í höndum Reynis Lyngdals, Veigar Margeirsson samdi tónlist og Ólafur Darri Ólafsson sá um lestur. Svör við tölvupóstum skrifuðu hestarnir Hrímnir frá Hvammi, Hekla frá Þorkellshóli og Litla Stjarna frá Hvítárhóli.
Slóð á aðalmyndband: https://www.youtube.com/watch?v=kbfD_lX1Tog&ab_channel=InspiredbyIceland
Slóð á „behind the scenes“ myndband: https://vimeo.com/710288765/5e14861065?embedded=true&source=video_title&owner=3765626
Slóð á vef verkefnis: www.outhorseyouremail.com