Menam býður upp á girnilega rétti úr fersku gæða hráefni, matreidda undir thailenskum áhrifum. Með því að nýta besta mögulega hráefni úr nærumhverfinu hverju sinni og matreiða með töfrum thailenskrar matargerðar, drögum við það besta fram frá báðum heimum.
Menam var stofnað árið 1997 af thailenskri konu og íslenskum eiginmanni hennar en hefur síðan 1999 verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Alla tíð var Menam lítill fjölskyldurekinn veitingastaður að Eyravegi 8 á Selfossi, eða allt til ársins 2018 þegar staðurinn var seldur, en vörumerkið Menam hélst þó áfram í eigu fjölskyldunnar. Árið 2021 var ákveðið að taka aftur upp vörumerkið Menam, ekki hvað síst vegna fjölda áskoranna frá heimafólki. Þá opnaði staðurinn aftur, í smækkaðri útgáfu, á nýjum stað undir nýjum merkjum.
Gömlu gildin eru þó áfram höfð í heiðri og bjóðum við upp á ferskan og freistandi mat, á sanngjörnu verði sem og góða þjónustu í skemmtilegu umhverfi sem gaman er að starfa í og heimsækja. Gestrisni og góður andi einkenndi staðinn frá upphafi og kappkostum við að halda þeim heiðri á lofti.
Nýi staðurinn er staðsettur í Mjólkurbúinu mathöll í nýjum miðbæ Selfoss.
Menam er thailenska og þýðir einfaldlega við fljótið. Það er því við hæfi að staðurinn sem staðsettur er við eina vatnsmestu á landsins, Ölfusá, beri nafnið Menam.
Einkennisblóm Menam er lótusblómið sem táknar; hreinleika, nýtt upphaf, von og þrek. Bleik lótusblóm tákna einnig hreina ástríðu og ást til lífsins, sem mun endurspeglast í ástríðu okkar fyrir thailenskri matargerð. Þá hefur bleiki liturinn kvenlega skírskotun, en Menam var upphaflega stofnað og alla tíð rekið af konum.
Samhliða thailenska hluta Menam opnaði fjölskyldan fyrsta dömplingsstaðinn á Suðurlandi – og utan Höfuðborgarsvæðisins ef því er að skipta - með útibúi frá Dragon Dim Sum sem hafði svo sannarlega slegið í gegn. Í upphafi árs 2023 var ákveðið að fara fram undir eigin nafni, Menam Dim Sum, í áframhaldandi góðu samstarfi við Dragon Dim Sum.
Menam Dim Sum býður upp á framúrskarandi góða dömplinga og meðlæti sem gert er úr fersku gæðahráefni og framreitt á faglegan, en um leið skemmtilegan hátt. Við berum virðingu fyrir hefðum en setjum um leið okkar mark á réttina. Dömplingarnir okkar eru sem fyrr heimagerðir í smiðju Drekans, en sérstaða okkar felst í „toppings“ og svolítið af heimagerðum, bragðgóðum sósum sem gefur þeim þetta litla extra og um leið einstaka bragðupplifun.
Upprunalega kínverska merking dim sum er að „snerta hjartað“, sem við kappkostum að að gera í gegnum einstaka bragðupplifun fyrir matgæðinga sem og að koma reglulega með spennandi nýjungar.
Menam var á sínum tíma brautryðjandi í að koma með nýja strauma með því að kynna asíska matargerð fyrir heimafólki á Suðurlandi, sem á þeim tíma þótti mjög framandi. Að sama skapi er Dim Sum fyrsti dömplingsstaðurinn á svæðinu og Menam því enn á ný brautryðjandi í að kynna nýjungar í mat og matarmenningu fyrir Sunnlendingum.