Framlag til ferðaþjónustu og Sproti ársins
Á árshátíð Markaðsstofu Suðurlands vour veittar viðurkenningar Markaðsstofunnar en viðurkenninguna „Framlag til ferðaþjónustu“ hlaut Guðmundur Tyrfingsson ehf. sem hóf starfsemi með fyrsta hópferðabílinn árið 1962 en fjölskyldufyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. var formlega stofnað árið 1969. Fyrirtækið sem er rútufyrirtæki, ferðaskrifstofa og skipuleggjandi ferða á Íslandi hefur því á þessu ári verið starfandi í fimmtíu ár! Frá upphafi hefur allt kapp verið lagt á að bjóða upp á góða þjónustu, nýlegar rútur og hagstæð verð. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í gæðamálum og unnið er eftir metnaðarfullri umhverfisstefnu en starfsmenn meðvitaðir um mikilvægi íslenskrar náttúru og að hún haldist eins tær og óspillt og mögulegt er. Fyrirtækið hefur getið sér gott orð sem er lykillinn að árangri og sjálfbærni til framtíðar en þau Tyrfingur Guðmundsson og Berglind Guðmundsdóttir veittu viðurkenningunni móttöku.
Viðurkenninguna „Sproti ársins 2018“ hlaut Iceland Bike Farm. Þau Guðmundur F. Markússon og Rannveig Ólafsdóttir tóku á móti viðurkenningunni en þau eru sauðfjár- og fjallahjólabændur í Mörtungu rétt við Kirkjubæjarklaustur sem hafa hafa skapað sér sérstöðu með því að leita fanga í sínu nánasta umhverfi. Þau eru svo heppin að hafa úrvals fjallahjólaslóða í bakgarðinum hjá sér sem kindurnar hafa mótað í gegnum aldirnar, og eru enn að! Það má því segja að í Mörtungu sé fyrsta og eina náttúrulega fjallahjólalandið á Íslandi þar sem hjólað er eftir aldagömlum kindagötum innan um gljúfur, fossa og grösugar heiðar. Þau bjóða upp á einstaka upplifun með virðingu fyrir náttúrunni og sjálfbærni að leiðarljósi, þau hugsa út fyrir rammann, eru metnaðarfull og óhrædd að feta nýjar slóðir en þau tóku einmitt þátt í Startup tourism 2019.