Stóri Dímon
Dímon, Stóri- og Litli- á Markarfljótsaurum. Stóri-Dímon er stórt, grasi gróið fell (178 m y.s.) í mynni Markarfljótsdals, að mestu úr móbergi. Koma saman í því mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla.
Í fellinu var talið að væri 50-60 kinda beit vetur og sumar. Örnefnið Rauðaskriða er í Stóra-Dímon. Frá því er sagt í Njáls sögu að Njálssynir sátu fyrir Þráni Sigfússyni í Rauðaskriðum er Skarphéðinn vó hann og hljóp “tólf álna yfir Markarfljót “ milli höfuðísa. Í Njáls sögu segir einnig frá því að Gunnar á Hlíðarenda og Njáll á Bergþórshvoli áttu skóg í Dímon og gerðu til kola. Þar vó Kolur, verkstjóri Gunnars, Svart, húskarl Njáls; þegar hann var við kolagerð. Var það fyrsta vígið sem unnið var í deilum þeirra Hallgerðar og Bergþóru.
Litli-Dímon er sunnan við eystri brúarsporð gömlu Markarfljótsbrúar. Fell, hæðir eða háar eyjar, er nefnast Díma eða Dímon, eru á nokkrum stöðum á landinu. Eru þær venjulega tvær saman. Nafnið er talið merkja tvífjall og er komið úr latínu “dimontes”. Í Færeyjum eru til sams konar örnefni.